Skip to content

Posts from the ‘Fljótlegt’ Category

Steikarsalat með kirsuberjatómötum og gráðosti

Ég er orðin svo yfir mig ástfangin af Brooklyn og þá sérstaklega fallega hverfinu okkar að það kemur alltaf á mig hik þegar fólk vill hitta mig hinum megin við ána á Manhattan. Ef ég veit að ég þarf að fara í miðbæ Manhattan þá þarf ég að tala mig aðeins til því að litla sveitastelpan sem blundar í mér er ekkert sérstaklega æst í að labba í mannmergðinni með ljósasýninguna fyrir augunum og flautulæti leigubílstjóranna í eyrunum. Og sem betur fer þarf ég ekki að fara oft þangað þar sem ég vinn heima og ég þarf ekki að leita langt til að finna frábæra veitingastaði, skemmtilega pöbba og flotta matarmarkaði. Ef þið eruð að ferðast til New York þá mæli ég eindregið og sterklega með því að þið eyðið (að minnsta kosti!) einum degi í einhverju skemmtilegu hverfi (því ekki eru þau öll fríð og fjörug) í Brooklyn.

Eins og ég hef minnst áður á er kominn nýr slátrari í hverfið okkar. Slátrarinn selur einungis kjöt sem hefur fengið eðlilega meðferð – fengið að labba úti í haga, borða gras en hefur ekki verið sprautað með hálfu tonni af sýklalyfjum og troðið út af korni. Ég trúi því staðfastlega að dýr sem alin eru við ,náttúrulegar’ aðstæður gefa af sér betra kjöt heldur en dýr sem alin eru við dapurlegar aðstæður verksmiðjubúskapar. Að minnsta kosti er kjötborð slátrarans það fallegasta sem ég hef séð og allir starfsmennirnir eru lærðir í iðninni og vita því sínu viti. (Kannski reyni ég að fá leyfi hjá þeim til að taka myndir fyrir ykkur.)

Við rákum augun í nautavöðva sem þeir mæltu sérstaklega með í salat síðasta sunnudag og héldum heim á leið með eldrautt kjötið, appelsínugula kirsuberjatómata af bændamarkaðnum og ost úr búðinni undir hendinni. Úr varð þetta unaðslega (ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á það), fallega og einfalda steikarsalat. Við elduðum kjötið þannig að það fékk á sig smá skorpu en var ennþá fagurrautt og meyrt að innan. Sinnepsvínagrettan passaði einstaklega vel við kjötið og litlu tómatarnir spýttu út úr sér sætum og ferskum safa þegar maður beit í þá. Þetta er án alls efa eitt það besta sem hefur komið út úr mínu eldhúsi.

SJÁ UPPSKRIFT

Shrimp and grits / Rækjur og polenta

Það er eitthvað sem heillar mig við mat frá Suðurríkjum Bandaríkjanna. Kannski er það hversu óhræddir þeir eru við að nota smjör, beikon, sósur og kjöt. Þeir djúpsteikja víst alveg heil ósköp sem mér finnst oft á tíðum bæði spennandi og ógnvekjandi. Þegar við Elmar fórum í heimsókn til Norður-Karólínu sáum við hversu djúpsteikingaglaðir þeir verða. Við lögðum ekki í djúpsteiktu ostakökurnar og djúpsteiktu oreos-kexin en við smökkuðum þó súkkulaðihúðaða beikonið. Það var ógeðslegt. Og þó að mikið af Suðurríkjamat hræðir mig þá verð ég að dást að óttaleysi þeirra.

Ég bjó þennan rétt til fyrir þó nokkru síðan og var mjög ánægð með útkomuna. Hann var fljótlegur, einfaldur og einstaklega ljúffengur. Risarækjur og beikon. Þarf ég að segja meira?

SJÁ UPPSKRIFT

Vorlauks- og engifernúðlur með pækluðum gúrkusneiðum


Það er fellibylur á leið upp austurströndina og stefnir á New York.  Strætóar hætta að ganga og borgarstjórinn hefur ákveðið að stöðva allar lestarsamgöngur í borginni frá og með hádegi í dag. 370 þúsund manns hafa þurft að rýma heimili sín þar sem flóðahætta er talin skapast af ofsaviðrinu. Við fórum í búðina í gærkvöldi til að kaupa mat fyrir næstu daga (enda ekki víst að búðir geti verið opnar þegar samgönguleiðir lokast) og hittum þar fyrir nánast alla í stóra hverfinu okkar. Raðirnar voru lygilega langar og brauð- og kartöflusnakkshillur voru galtómar. Við erum mjög róleg yfir þessu öllu saman og ætlum bara að hafa það notalegt á milli þess sem við pökkum niður íbúðinni. Ég hef reyndar smá áhyggjur af gluggunum sem eru svo illa einangraðir að í miklu úrhelli þá rignir inn um þá. Annars verður bara fróðlegt fyrir veðurnörd eins og mig að fylgjast með veðuráhrifum fellibylsins. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem varað er við miklum veðurofsa síðan við fluttum og ég á enn eftir að upplifa slíkt.
En nóg af veðri. Mig langar til að deila með ykkur einfaldri, ódýrri og ljúffengri núðluuppskrift. Við erum þegar búin að borða þennan rétt þrisvar sinnum á nokkrum dögum og ég býst við að hann verði reglulega á boðstólum í vetur. Hægt er að eiga krukku af pækluðum gúrkum og sósu inni í ísskáp og þá þarf bara að sjóða núðlur og steikja smá grænmeti með. Maturinn er þannig til á innan við 10 mínútum og er seðjandi á meðan gúrkurnar gefa honum ferskt mótvægi.
Uppskriftin segir að maður eigi að nota vínkjarnaolíu bæði í sósuna og í steikinguna á grænmetinu. Ég átti ekki slíkt við höndina og notaði ólívuolíu í sósuna og canolaolíu í steikinguna í staðinn. Ég ætla mér samt að fjárfesta í vínkjarnaolíu bráðlega þar sem ég býst við að búa til þennan rétt reglulega. Það er hægt að skipta út blómkálinu fyrir annað grænmeti (eða kjöt) sem til er í ísskápnum. Ég notaði sobanúðlur en það er auðvitað hægt að nota ódýru pakkanúðlurnar líka.

SJÁ UPPSKRIFT

Mangó sorbet

Það er ýmislegt sem ég á eftir að sakna þegar við flytjumst yfir ána til Brooklyn – Riverside Park, arkitektúrsins í hverfinu okkar og kúbversku gamlingjanna sem hanga fyrir utan þvottahúsið hlustandi á háværa salsatónlist. En það sem ég á eftir að sakna mest og kvíði eiginlega að flytja frá er Barzini’s. Barzini’s er pínkulítil matvörubúð í eigu fúllyndra bræðra sem nær samt að pakka ótrúlegu úrvali af matvælum, ferskum ávöxtum og grænmeti, mörgum tegundum af bjór og framúrskarandi ostadeild í örfáa fermetra. Og það er alltaf ostasmakk í boði á meðan raðað er ofan í körfuna. En ég hef komist að því að Elmar hefur engan áhuga á að finna hráefni með mér þegar við stígum þangað inn, heldur labbar hann á milli ostabakka með tannstöngul við höndina og raðar í sig. Ef þið hafið verið að fylgjast með síðunni þá vitið þið að ég átti afmæli fyrir ekki svo löngu síðan. Ég fékk frábærar gjafir og á meðal þeirra var ísvél frá Emblu Ýri, litlu systur minni. Mig hefur langað í þessa blessuðu ísvél í háa herrans tíð og þó hún sé ekki dýr þá átti ég, sökum rýrs fjárhags, erfitt með að réttlæta kaup á henni. Þegar ég labbaði fram hjá Barzini’s um daginn og sá falleg mangó á spottprís, þá stóðst ég ekki mátið og ákvað að vígja vélina með mangó sorbet. Ísinn heppnaðist frábærlega og er hæfilega sætur með ríku og fersku mangóbragði. Ég er sérstaklega hrifin af sorbet í heitu veðri og eftir mat en mér líður eins og þeir hreinsa á mér bragðlaukana. Auðvitað þarf maður ekki að eiga ísvél til að búa til rjómaísa og sorbet en hérna er tengill á síðu sem útskýrir hvernig best er að fara að án ísvélar.

SJÁ UPPSKRIFT

Brauð með reyktum laxi, avókadómauki og eggjahræru

Sólin skein í Bergen í gær í fyrsta skipti í marga daga. Ég er ekki alveg viss um hvernig þetta rigningarveður á við mig því að ég er ekki með nógu góða skó og ef það er eitthvað sem mér er virkilega verulega einstaklega illa við þá er það að vera blaut í fæturna. Ég er sjaldan eins dauf í dálkinn og þegar ég finn fyrir skvampi í skónum og rennandi blautum sokkum. Þetta endalausa votviðri gerir það samt að verkum að ég verð eins og barn á jólunum þegar sólin gægist fram, jörðin hlýnar og ég get legið í grasinu í pilsi og stuttermabol. Það er engin önnur árstíð sem kemst nálægt því að skipa þann heiðursess sem sumarið hefur í hjarta mínu (þrátt fyrir alla rigninguna).

Við áttum afgang af reyktum laxi frá laxa- og kartöflusalatinu deginum áður. Ég ákvað því að búa til smørrebrød með avókadómauki og eggjum. Þetta var mjög góður hádegismatur og hráefnin þrjú passa mjög vel saman. Svo eru litirnir líka svo fallegir – allt mjög lekkert. Ég átti afgang af crème fraîchesósu frá því deginum áður en það má auðvitað sleppa sósunni og mala ferskan pipar yfir allt saman.

SJÁ UPPSKRIFT

Reyktur lax með léttu kartöflusalati og crème fraîche

Ég er ekki alltaf með á nótunum þegar ég kaupi í matinn. Elmar hefur bent mér á að ég virðist undantekningalaust gleyma einu hráefni þegar ég tíni ofan í kerruna. Og já, ég skrifa innkaupalista en ég virðist líka vera þeim hæfileika gædd að gleyma honum oftast heima. Ekki að það skipti nokkru máli því að ég yfirleitt gleymi að setja eitthvert hráefni á listann og enda því heima bölvandi og ragnandi yfir því að ég þurfi að fara aftur út í búð. Því miður teygir þetta sig líka í eldamennskuna mína. Stundum er það í lagi því hráefnið skipti ekki meginmáli en það kemur líka fyrir að grundvallarhráefni ratar ekki í matinn – eins og þegar mér láðist að salta rísottó (sem ég var búin að nostra við í rúma tvo tíma) sem ég bar svo fram fyrir fimm manns.

Þannig að á þeim dögum sem ég þarf að fara út í búð get ég búist við því að þurfa að fara tvær aukaferðir til að kaupa það sem vantar. Þetta getur verið vandræðalegt þegar sama manneskjan afgreiðir mann þrisvar sinnum á einum klukkutíma.

Við Elmar höfum setið á skrifstofu í Háskólanum í Bergen við sitthvort skrifborðið að vinna að verkefnum. Eða öllu heldur, hann vinnur að þýðingunni sinni og ég þykist vera að undirbúa doktorsverkefnið þegar ég er í raun að skoða matarblogg og ljósmyndir. Þetta þýðir auðvitað að við eyðum dögunum í það að sitja og hreyfa okkur lítið. Ég vildi því búa til léttan kvöldmat í gær og fann þessa uppskrift eftir hetjuna mína Jamie Oliver. Hann mælir reyndar með réttinum í hádegismat en þetta var góður, seðjandi og léttur kvöldmatur fyrir okkur tvö. Kartöflusalatið er örlítið súrt (það er bæði sítróna og edik í dressingunni) og passar afskaplega vel við dillið og rammleika kapersins. Crème fraîche sósan er fersk og vegur upp á móti fitunni í reykta laxinum. Þetta er sumar á diski og ég mæli með þessu með stóru kældu hvítvínsglasi á næsta sólardegi á Skerinu.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: