Skip to content

Posts from the ‘Fljótlegt’ Category

Linguine með sítrónu og rækjum

Dvöl okkar í Bergen líður afskaplega hratt og það er eins og dagarnir hreinlega fljúgi frá mér. Við erum þó alltaf jafn ánægð hérna þrátt fyrir reglulegar úrkomur og einstaka kuldaskeið. Þegar sólin fór að skína um helgina þá nýttum við á tækifærið og töltum upp eitt bæjarfjallið hér í grenndinni. Løvstakken varð fyrir valinu í þetta skiptið og við áttum einstaklega skemmtilegan dag uppi á þessu lága fjalli með gullfallegt útsýni, nesti og (í Elmars tilfelli) nýja skó. Løvstakken er víst vinsælasta göngufjall Bergenbúa og ég var hæstánægð að sjá öll litlu krílin sem hlupu upp hæðarnar með foreldrum sínum.

Eitt af því sem ég elska við Bergen er fiskmarkaðurinn niðri við höfnina. Þar er hægt að fá ógrynni af ferskum, nýveiddum skelfiski (dauðum og lifandi), reyktan og grafin lax, alls kyns hrogn og tilbúinn mat. Því miður er þetta oft ein túristasúpa þar sem ekkert lát er á skemmtiferðaskipum sem virðast raða sér að bryggjunni á hverjum degi með tilheyrandi látum og mannmergð. Við hættum okkur samt niður á markað um daginn og keyptum hálft kíló af rækjum í þennan dásemdar pastarétt.

Ég er örugglega ekki ein um það að finnast sjávarréttir sérstaklega góðir með sítrónu (ég neita a.m.k. að trúa því að það sé bara sítrónuáráttan mín að tala) og þessi diskur blandar þessum tveimur hráefnum mjög vel saman. Rétturinn er léttur, ferskur og sumarlegur og það er sérstaklega gott að mala smá ferskan pipar yfir réttinn þegar búið er að skammta honum á diskana. Og, í guðanna bænum, notið bara alvöru ferskan parmesanost í þennan rétt. Allt annað er drasl.

SJÁ UPPSKRIFT

Asísk steikt hrísgrjón með spældu eggi

Í dag kom viðgerðarmaðurinn og gerði við uppþvottavélina, mér til mikillar ánægju. Það er fátt sem mér finnst eins leiðinlegt eftir góða kvöldmáltíð og að þurfa að vaska upp heilan helling af diskum, brettum, skálum, pönnum og pottum. Lífsgæði mín hafa því aukist til muna og það lá við að ég rauk upp um hálsinn á grey manninum þegar hann tilkynnti mér að vélin væri farin að virka. Ég kvaddi hann með sparibrosinu mínu og fór að hlaða í vélina leirtaui sem ég hafði ekki nennt að vaska upp kvöldið áður í þeirri veiku von að blessuð vélin hrykki í gang.

Eldavélin fór aftur á móti að virka í gærkvöldi (þetta er allt mjög dularfullt) og ég greip því tækifærið og bjó til asískan hrísgrjónarétt sem er bæði einfaldur og einstaklega ljúffengur. Ef þið eigið afgangshrísgrjón í ísskápnum þá verður þessi réttur ennþá einfaldari og fljótlegri fyrir vikið. Ég hef reyndar oftast notað nýsoðin hrísgrjón en það veldur því að hrísgrjónin verða aðeins of blaut. Dagsgömul hrísgrjón eru best í réttinn því þau hafa tapað vökva og rétturinn verður þá ekki eins grautkenndur.

SJÁ UPPSKRIFT

Rabarbara- og bláberjahröngl

Flandur mitt um jarðkringluna heldur áfram og nú er ég stödd í Bergen þar sem Elmar vinnur að þýðingu í sumar. Háskólinn í Bergen hefur útvegað okkur litla en fallega íbúð í miðbænum við Jóhannesarkirkju og ég er yfir mig hrifin af þessum fallega bæ. Ég flaug frá Íslandi eftir stutta heimsókn, ánægð, södd og einstaklega uppgefin. Ég var eins og skopparakringla allan tímann og flakkaði á milli kaffihúsa, heimboða, teita og landshluta. Það er því ekki alltof skrítið að það tók Elmar rúma tvo tíma að koma mér á fætur í morgun (eða a.m.k. reyni ég að telja mér trú um að það sé ekki skrítið).

Pabbi bjó til hátíðarmat kvöldið áður en ég flaug út. Hann matreiddi heiðagæs og grágæs, bjó til frægu kartöflustöppuna sína og hafði rauðvínssósu með. Hundurinn trylltist við villibráðarlyktina að venju og spændi upp gólfið í litlum sprettum á milli þess sem hún reyndi að næla sér í bita. Á einum tímapunkti hvarf hún og ég fann hana inni í búri að sleikja umbúðir af smjöri sem hún fann í ruslinu. Ég tók þær af henni en það hlakkaði í mér að af öllum ,kræsingunum’ í ruslatunnunni skyldi hún hafa valið íslenskt ósaltað smjör.

Ég ákvað að sjá um eftirréttinn enda hafði ég einsett mér að búa til berjahröngl handa fjölskyldunni meðan ég væri á landinu og nú var ekki seinna vænna. Ég var reyndar ekki alveg viss um hvernig þýða ætti enska heitið á þessum ágæta rétti en í Bandaríkjunum kalla þeir þetta ,crumble’  og vísa þannig til deigbitana sem látnir eru bakast ofan á fyllingunni. Það var ekki fyrr en Embla benti mér á að þetta hefði verið þýtt sem ,hröngl’ í matreiðslubók eftir Nigellu Lawson að ég fann viðeigandi heiti.

Þetta er líklega einn einfaldasti eftirréttur sem ég hef búið til og hann býður upp á marga möguleika. Að þessu sinni bjó ég til fyllingu úr rabarbara og bláberjum en ég hef einnig búið til fyllingu úr rabarbara og jarðarberjum og svo hef ég líka prófað fyllingu úr jarðarberjum, brómberjum og hindberjum. En í uppáhaldi hjá mér eru þær uppskriftir sem nota rabarbara og ef ég ætti að velja á milli bláberja og jarðarberja þá myndu bláberin fá vinninginn. Bláberin lita réttinn fallega fjólubláan og eru einstaklega gott mótvægi við súra rabarbarann.

Rétturinn var með alveg hæfilegt magn af sætu og möndlurnar gáfu hrönglinu góðan og sérstæðan keim. Við bárum hrönglið fram með vanilluís en það hefði verið alveg jafn gott að bera það fram með rjóma eða bara leyfa því að njóta sín sjálft (eins og mömmu fannst það best).

SJÁ UPPSKRIFT

Sumarlegt linguine

Það er margt jákvætt við að vinna í bókabúð. Ég fæ tæplega helmingsafslátt af öllum bókum og vörum. Ég hef góða þekkingu á nýjustu útgáfunum og fæ að mæla með uppáhaldsbókunum mínum við viðskiptavini (frá því að ég byrjaði hef ég t.d. selt 80 eintök af Sjálfstæðu fólki). En það besta við að vinna í lítilli bókabúð er að útgefendur senda búðinni nýjar óútgefnar bækur sem hvata til að selja þær. Þegar eigandinn er búinn að fara í gegnum þær þá fáum við að eiga þær bækur sem vekja athygli okkar. Og það var einmitt þannig sem ég eignaðist nýjustu matreiðslubókina mína, Super Natural Every Day eftir matarbloggarann Heidi Swanson.

Heidi leggur mikla áherslu á hollt gænmetisfæði og hvetur lesendur sína til að elda aðeins úr óunnum og lífrænum hráefnum. Bókin er full af girnilegum uppskriftum og gullfallegum myndum sem hún hefur tekið sjálf. Ég byrjaði að merkja við uppskriftir sem mig langaði til að prófa en hætti að lokum við þegar ég sá að hver einasta blaðsíða sem ég fletti fékk merkimiða. Að lokum ákvað ég að búa til sumarpastað hennar þar sem það 1) virtist  auðvelt og 2) inniheldur chili og parmesan (ég er einföld sál). Rétturinn er léttur og bragðgóður og lítur einnig einstaklega sumarlega út. Ég notaði bæði gulan og grænan kúrbít, sáldraði smá chiliflögum ofan á réttinn og varð eitthvað svo hamingjusöm við að sjá hversu falleg litasamsetningin var.

Þar sem ég á það til að vera svolítið löt þegar það kemur að því að rífa niður grænmeti þá var rétturinn örugglega ekki eins flottur og hjá henni Heidi. Ég notaði rifjárnið á matvinnsluvélinni minni og það var aðeins of fínt þannig að kúrbíturinn varð að smá mauki. Og þó það skaði ekki bragðið þá mæli ég með því að nota gróft handrifjárn (þ.e. fyrir þau ykkar sem er mjög umhugað um útlit matarins).

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskt vatnsmelónusalat

Það er liðinn rúmur mánuður frá því ég setti inn færslu síðast. Ég skammast mín svolítið og vona að fólk haldi ekki að ég sé hætt, því það er ég svo aldeilis ekki. Ég er reyndar búin að vera mikið að heiman þennan mánuðinn og ég hef líka átt erfitt með að finna innblástur til að elda eitthvað nýtt. En nú er ég endurnærð og farin að leggjast yfir uppskriftir og matarblogg af jafnmiklum áhuga og áður. Ég var svo heppin að fá að ferðast til Eistlands til að taka þátt í námskeiði fyrir framhaldsnema í heimspeki og ég var þar í góðu yfirlæti í rúma viku.

Eftir brösulegt ferðalag aftur heim til New York þar sem ég lenti í seinkun á flugi, yfirheyrslu og þröngu miðjusæti þá drifum við hjónin okkur upp í rútu og fórum til Boston þar sem við hittum foreldra og systur Elmars. Að segja að það hafi verið dekrað við okkur þar myndi engan veginn ná að lýsa því lúxuslífi sem við lifðum þessa helgi. Við borðuðum einstaklega góðan mat, skoðuðum borgina og nutum þess að vera saman.

En það er líka gott að vera komin í hversdagsleikann aftur. Elmar er sestur við skrifborðið og skrifar og les af miklum eldmóð og ég er farin að vinna aftur í litlu vafasömu bókabúðinni. New York hefur tekið vel á móti okkur og skartar sínu fegursta. Sólin skín og hitinn er um og yfir 20 gráður, trén skarta fallegum litlum hvítum og bleikum blómum og borgarbúar spássera um í nýuppteknum sumarfötum. Ég nýt þess að geta lagt vetrarkápuna mína til hliðar og er strax farin að plana hvað ég get matreitt til að taka með í lautarferð í Miðgarð um helgina.

Í þessum sumaryl er auðvitað bara við hæfi að fá sér salat í kvöldmat og eftir miklar pælingar ákvað ég að skella mér á tælenskt vatnsmelónusalat úr upppáhaldsbókinni minni eftir Jamie Oliver (Jamie’s Dinners). Ég hef aðeins breytt frá upprunalegu uppskriftinni og birti þá uppskrift hér að neðan. Salatið var einmitt það sem þurfti eftir langan og heitan dag. Vatnsmelónan var svo fersk og blandaðist vel með ostinum og kryddjurtunum, og salatsósan ásamt kóríanderblöðunum gáfu salatinu asískan keim. Vonandi fer sumarið að klekja sig út á Skerinu fagra svo þið getið skorið í salat og borðað út á palli.

SJÁ UPPSKRIFT

Quesadillur með sveppum, spínati og geitaosti

Í fyrsta skipti í langan tíma þá er ég komin í tveggja daga helgarfrí. Eftir marga mánuði af atvinnuleysi, eirðarleysi og (alltof, alltof) mörgum klukkutímum af matarbloggshangsi þá tók ég þá ákvörðun að fara að vinna aftur í litlu hryllingsbókabúðinni. Það er nefnilega alveg með ólíkindum hvað það er erfitt fyrir útskrifaðan heimspeking með fáránlegt eftirnafn að fá svo lítið sem viðtal á vinnumarkaði New York.

Það er samt gott að hitta gömlu vinnufélagana (þá örfáu sem eftir eru) og fá sögur af öllu því ótrúlega sem viðgengst í búðarheimi Bandaríkjamanna – þar sem snarklikkaðir eigendur og yfirmenn ganga lausum hala og stéttarfélögin lyfta ekki litla fingri til að hjálpa þeim sem leita á náðir þeirra. Kannski mun ég segja söguna af því þegar eigandinn kýldi mann í andlitið því hann hafði (saklausan) viðskiptavininn grunaðan um búðarhnupl eða þegar hann rak starfsmann fyrir þær sakir að hafa tapað fyrir honum í póker. Því trúið mér, sögurnar eru endalausar og misjafnlega fallegar.

Ég er samt afskaplega róleg þar sem vinnan er tímabundin þar til við leggjumst í örflutninga til Bergen. Við skulum bara vona að ég verði hvorki kýld né rekin fyrir undarlegar sakir. Ég á örugglega eftir að gera ykkur pirruð á því að minna ykkur á að Ísland er eiginlega frábær staður fyrir vinnandi fólk – ef minnið skyldi vera að hrjá ykkur þaðeraðsegja.

En ég er ekki ennþá farin að tala um matinn sem ég eldaði í kvöld. Sem er synd og skömm því að þetta var auðveldasta quesadilluveisla sem ég hef galdrað fram (með hjálp Ree), sem var líka eins gott því að félagslíf okkar hjóna er búið að vera svo skrautlegt og skemmtilegt þessa helgi að ég átti erfitt með að fara fram úr rúminu og ennþá erfiðara með að labba út í búð og velja hráefni. Lúxusvandamál? Kannski.

En í fyllstu alvöru þá eru þessar quesadillur svo góðar að ég á erfitt með að hugsa til þess að afgangurinn fari í nestispakkann hans Elmars og ég þurfi að sitja eftir quesadillulaus á morgun. Sveppirnir og spínatið er steikt upp úr smjöri (namm) og hvítvíni (namm!) og svo er öllu raðað á hveitibökuna og skellt á pönnu í stutta stund. Einfalt, fljótlegt og svo gott að ég held ég fái aldrei nóg.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: