Skip to content

Ofnbakaðar makkarónur með osti og tómötum

Ég hef lúmskan grun um að þessi réttur eigi eftir að verða næstum því vikulegur viðburður héðan í frá. Hann er einfaldur, fljótlegur, bragðgóður og við tvö getum átt hann í nesti, hádegismat og kvöldmat í a.m.k. tvo daga. Ég hef reyndar lengi ætlað mér að búa til ,,mac and cheese“ en hef veigrað mér við það þar sem venjulega er heilt tonn af rjóma og osti í því. Ekki það að ég elski ekki rjóma og ost, en mér finnst eiginlega of mikið af hinu góðu í hinu sérameríska ,,mac and cheese“. Ég rakst á þessa uppskrift í Jamie’s Dinners – sem er æðisleg matreiðslubók – og er búin að ætla mér að elda upp úr henni lengi. Núna vildi ég bara óska að ég hefði ekki beðið svona lengi með það. Ég vil svo benda á að það er hægt að er gera þetta að grænmetisrétti með því að sleppa ansjósuflökunum.

Ofnbakaðar makkarónur með osti og tómötum (mac’n’cheese)

(Jamie Oliver: Jamie’s Dinners)

  • 350 g makkarónu- eða zitipasta
  • 7 brauðsneiðar, helst uppþornað
  • 700 g vel þroskaðir tómatar (ég hef líka notað niðursoðna tómata, það er ágætt en ekki eins gott)
  • 1 hvítlauksgeiri
  • 2 handfylli af ferskri basilíku
  • 50 g sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
  • 2 ansjósuflök
  • Sjávarsalt og malaður ferskur pipar
  • 3 handfylli af parmesanosti, rifinn
  • 500 ml léttrjómi
  • 1 msk rauðvínsedik
  • 1/2 múskat, rifin eða 1 tsk af möluðu múskati
  • 1 stór kúla mozzarellaostur
  • 1 handfylli af fersku timíani, laufin rifin af
  • Extra virgin ólívuolía

Aðferð:

Stillið ofninn á 200°C. Hitið vatn í potti þar til það fer að sjóða, saltið þá vatnið og hellið pastanu út í og eldið samkvæmt upplýsingum á umbúðum.

Rífið brauðið niður, setjið það í matvinnsluvél og leyfið henni að ganga þar til brauðið verður að grófri mylsnu. Færið yfir í skál og setjið til hliðar.

Setjið tómatana í matvinnsluvélina ásamt hvítlauk, basilíku, sólþurrkuðum tómötum, ansjósum og góðum skammti af salti og pipar. Leyfið matvinnsluvélinni að vinna í ca. 30 sekúndur. Bætið síðan við 2 handfyllum af parmesanosti, rjómanum, edikinu og múskati. Vinnið í matvinnsluvélinni þar til allt verður nærri því kekkjalaust. Smakkið og bætið við salti og pipar ef þarf.

Núna ætti pastað að vera tilbúið. Hellið vatninu frá (en geymið smá hluta af því) og setjið pastað aftur í pottinn. Hellið ostasósunni yfir pastað og hrærið aðeins saman. Bætið 2-3 msk af pastavatninu saman við. Takið fram eldfast mót og hellið pastanu í það og dreifið því jafnt yfir mótið.

Skerið mozzarellaostinn í sneiðar (eða rífið hann) og leggið yfir pastað.

Blandið síðasta handfyllinu af parmesanostinum saman við brauðmylsnuna og kryddið með timíaninu. Sáldrið þessu jafnt yfir pastað. Hellið extra virgin ólívuolía yfir – þetta mun gera brauðmylsnuna ennþá stökkari við bakstur.

Stingið inn í ofninn og eldið í ca. 15 mínútur eða þangað til að sósan fer að krauma og brauðmylsnan verður stökk og gyllt. Berið strax fram með salati og ferskum parmesanosti.

Fyrir 4

3 athugasemdir Post a comment
  1. Guðný Ebba #

    Næsari !

    07/02/2011
  2. Teitur #

    Ég held að þetta sé eins amerískur réttur og frekast getur verið. Borðar Chandler Muriel Bing ekki þennan rétt á þakkargjörðardaginn?

    08/02/2011
  3. Auður #

    Mig vantar þig asap!

    30/11/2011

Skildu eftir athugasemd