Skip to content

Posts from the ‘Kleinuhringir’ Category

Bakaðir kleinuhringir með brúnuðu smjöri og súkkulaðiglassúr

Ég ætla að segja ykkur frá þessum kleinuhringjum. En fyrst verð ég að dásama íslenska náttúru á fallegum vetrardögum eins og þeim sem við eyddum upp í sveit í bústaði vina okkar um síðustu helgi. Veðrið var stillt – það var snjór yfir jörðu og frost. Næturhimininn skartaði stjörnuprúð líkt og ég hef ekki séð í áraraðir og dagarnir voru letilegir og snérust um mat og drykk. Ég saknaði þess mikið að geta ekki leitað í kyrrðina og fjallaloftið á Íslandi þegar ég bjó í New York. Stundum þegar ég gekk um götur borgarinnar með sírenuvælið í eyrunum, mannmergðina í kringum mig og eilítið ágengan fnyk í nösunum þá lét ég mig dreyma um sveitakyrrð, spörfuglasöng og útsýni um víðan völl. Þetta var útsýnið mitt þegar ég drakk fyrsta kaffibollann á laugardagsmorgninum og ég naut þess mjög:

En þessi færsla átti víst að fjalla um bakaða kleinuhringi með brúnuðu smjöri og súkkulaðiglassúr. Getum við öll sammælst um það að brúnað smjör sé mögulega best heimi? Því það gefur bakkelsi svo yndislega mikinn karakter. Það sem væri annars frekar staðlað kökudeig verður að einhverju einstöku með þessu móti – eins og í þessum kleinuhringjum. Ég bjó til einfaldan súkkulaðiglassúr ofan á og sáldraði ristuðu kókosmjöli yfir. Kleinuhringirnir voru svo borðaðir með bestu lyst í brönsboði í Vestubænum.

SJÁ UPPSKRIFT

Gulrótakleinuhringir með límónukremi og valhnetum

Það fer að líða að því að tíminn breytist hérna úti. Í mars endurstillum við klukkuna og töpum einum klukkutíma. Í fyrstu fannst mér þetta skrítinn siður enda ekki vön slíku. Núna þykir mér þetta alveg frábært þó að tilfinningin um að við séum að ,svindla’ á einhvern hátt situr ennþá eftir. Ég er sérstaklega hrifin af því að græða einn klukkutíma af birtu á kvöldin þegar líða fer að vori.

Ég var minnt á gulrótaköku af lesanda (hæ Lilja!) sem ég bjó til alls fyrir löngu. Kakan er alveg fáránlega góð, ég bakaði hana á tveggja ára brúðkaupsafmæli okkar Elmars þegar við héldum upp á það og vorið í Central Park. Það var almennt álit vina okkar að þarna færi besta gulrótakaka sem þau hefðu smakkað. Og þar sem að ég er búin að búa til sömu kleinuhringina aftur og aftur (og aftur) þá mátti ég til með að baka nýja kleinuhringi með þá uppskrift til hliðsjónar.

Fyrsta tilraunin endaði reyndar í ruslinu. Deigið var alltof blautt, var með alltof lítið af gulrótum og helst til of kryddað. Mig langaði samt í kleinuhringi og var búin að bíta það í mig að búa til mína eigin uppskrift. Ég ákvað því að byrja upp á nýtt. Og ég er mjög ánægð með afraksturinn. Kleinuhringirnir eru eins og litlar kökur með fersku kremi og stökkum valhnetum.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: