Bakaðir kleinuhringir með brúnuðu smjöri og súkkulaðiglassúr
Ég ætla að segja ykkur frá þessum kleinuhringjum. En fyrst verð ég að dásama íslenska náttúru á fallegum vetrardögum eins og þeim sem við eyddum upp í sveit í bústaði vina okkar um síðustu helgi. Veðrið var stillt – það var snjór yfir jörðu og frost. Næturhimininn skartaði stjörnuprúð líkt og ég hef ekki séð í áraraðir og dagarnir voru letilegir og snérust um mat og drykk. Ég saknaði þess mikið að geta ekki leitað í kyrrðina og fjallaloftið á Íslandi þegar ég bjó í New York. Stundum þegar ég gekk um götur borgarinnar með sírenuvælið í eyrunum, mannmergðina í kringum mig og eilítið ágengan fnyk í nösunum þá lét ég mig dreyma um sveitakyrrð, spörfuglasöng og útsýni um víðan völl. Þetta var útsýnið mitt þegar ég drakk fyrsta kaffibollann á laugardagsmorgninum og ég naut þess mjög:
En þessi færsla átti víst að fjalla um bakaða kleinuhringi með brúnuðu smjöri og súkkulaðiglassúr. Getum við öll sammælst um það að brúnað smjör sé mögulega best heimi? Því það gefur bakkelsi svo yndislega mikinn karakter. Það sem væri annars frekar staðlað kökudeig verður að einhverju einstöku með þessu móti – eins og í þessum kleinuhringjum. Ég bjó til einfaldan súkkulaðiglassúr ofan á og sáldraði ristuðu kókosmjöli yfir. Kleinuhringirnir voru svo borðaðir með bestu lyst í brönsboði í Vestubænum.