Skip to content

Súkkulaðispesíur með sjávarsalti

Í hverfinu okkar er gúrmet-, osta- og bjórbúðin Brooklyn Larder. Það er fátt sem okkur þykir skemmtilegra en að kíkja þangað inn, skoða ostaúrvalið og allt það kræsilega sem búðin hefur upp á að bjóða. En hún er dýr og því förum við aldrei hlaðin þaðan út heldur erum í mesta lagi með lítinn poka með þunnum sneiðum af osti og kannski smá hráskinku. Ein af gersemum búðarinnar eru smjörríkar súkkulaðismákökur með sjávarsalti. Ég gæti bókstaflega borðað þær allan liðlangan daginn án þess að fá nóg. En verðmiðinn setur græðgi minni mörk.

Um daginn fór ég í búðina og horfði löngunaraugum á fallegu kökurnar en gat ekki fengið mig til að kaupa þær (það er stundum kvöð að vera sælkeri á námsmannakjörum). Ég einsetti mér því að föndra uppskrift sem myndi jafnast á við smákökurnar þeirra. Ég lá yfir bókum, reiknaði hlutföll (og mér finnst sko ekkert gaman að reikna) og þetta er afraksturinn. Þessar kökur eru engu síðri og eru afskaplega fljótar að klárast. Galdurinn er að nota mikið smjör, mikið og dökkt súkkulaði, litla dökka súkkulaðibita og saltflögur sem bráðna auðveldlega í munni.

Súkkulaðispesíur með sjávarsalti

(Uppskrift innblásin af Brooklyn Larder og lauslega byggð á uppskrift úr Joy of Cooking)

 • 230 g smjör, mjúkt en ennþá kalt
 • 110 g [1/2 bolli] sykur
 • 1/4 tsk salt
 • 90 g súkkulaði (70%)
 • 250 g [2 bollar] hveiti
 • 70 g súkkulaði (70%) saxað í litla bita
 • gróft sjávarsalt (t.d. frá Maldon eða Saltverk)

Aðferð:

Hitið ofninn í 150°C/300°F.

Bræðið 90 g af súkkulaði yfir vatnsbaði. Takið af hita og setjið til hliðar til að leyfa súkkulaðinu að kólna svolítið.

Þeytið smjörið, sykurinn og saltið saman þar til blandan verður létt í sér og ljós á litinn.

Blandið brædda súkkulaðinu saman við smjörblönduna.

Sigtið hveitið ofan í skálina og notið sleikju til að blanda öllu vel saman. Blandið síðan súkkulaðibitunum saman við.

Mótið deigið í flatan disk og geymið í kæli í 2 klukkustundir eða yfir nótt.

Takið deigið út og leyfið að mýkjast aðeins.

Fletjið deigið út á milli tveggja blaða af smjörpappír þar til það verðu 1/2 sm á þykktina. Skerið deigið í bita og raðið á ofnplötu.

Bakið í miðjum ofni í ca. 15-20 mínútur*, eða þar til kökurnar eru bakaðar í gegn (það má sjá það með því að þrýsta fingri létt ofan á miðju kökunnar, ef farið eftir fingurinn hverfur þá eru þær tilbúnar).

Stráið smá sjávarsalti yfir hverja köku á meðan þær eru ennþá heitar.

Leyfið að kólna. Kökurnar geymast við stofuhita í loftþéttum umbúðum í 3 daga (ég geymi mínar inni í ísskáp).

*í upphaflegri uppskrift var þetta 25 mínútur en eftir að hafa prófað að baka þær í venjulegum ofni (þ.e. ekki gasofni) þá tel ég nauðsynlegt að stytta baksturstímann.

One Comment Post a comment
 1. Inga Þórey #

  Vá dugleg ertu að föndra uppskrift – sjúklega girnó – ég treysti því að ég fái svona í sumar.

  09/05/2013

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: