Skip to content

Posts from the ‘Bakstur’ Category

Bláberjaskonsur

Ég fylgdist með fárviðrinu heima úr þægilegum fjarska. Það er ennþá kalt, grátt og vetrarlegt hjá okkur en ég stend mig að því að píra augun ofan í hvert einasta beð í von um að vorið springi út á einu andartaki. Ég hugsa að það sé sérstaklega auðvelt að verða óþreyjufull í bið eftir hlýrri dögum þegar maður býr í svo litlum og þröngum húsakynnum.

Þessar skonsur gera biðina ögn bærilegri. Ég er með skonsur á heilanum þessa dagana en þar sem þær eru langbestar nýbakaðar þá hef ég setið á mér að kaupa þær úti á kaffihúsi. Joy the Baker setti inn færslu um daginn með uppskrift að einföldum skonsum með bláberjum og hlynsírópi sem ég varð að prófa. Ég keypti því bakka af ferskum bláberjum (með lokuð augu því það er langt í að bláberin þroskist á norðurhveli). Ég bakaði lítinn hluta af skonsunum en frysti restina til að eiga síðar (lesist: til að koma í veg fyrir að ég borðaði þær allar á einum degi). Þær eru fullkomnar – léttar í sér, hæfilega sætar og bláberin fallega fjólublá í ljósu brauðinu. Það má nota frosin ber en þá mun deigið litast af berjunum. En það hefur bara áhrif á ytra útlit, ekki bragð.


SJÁ UPPSKRIFT

Frönsk eplabaka með hunangi

Það er fátt sem mér finnst betra en bökur. Þegar ég þarf að velja á milli þess að fá mér kökusneið eða bökusneið þá vel ég hiklaust síðari kostinn. Ætli það sé ekki smjörmikill botninn sem freistar mín hvað mest og það sakar alls ekki þegar skelin er hlaðin bökuðum ávöxtum.

Bændamarkaðurinn er frekar einsleitur hérna á veturna – rótargrænmeti, einstaka kálafbrigði og harðgerar kryddjurtir. En það sem gerir hann aðeins skemmtilegri eru öll eplin, ferski eplasafinn og heiti eplasíderinn. Ég stóðst ekki mátið um daginn og keypti fjögur ólík epli til að setja í þessa böku. Bakan er afbragðsgóð, hún inniheldur lítinn sykur og eplin eru í aðalhutverki. Ég var sérstaklega hrifin af því að sáldra volgu hunangi yfir bökuna til að vega aðeins á móti sýrunni í eplunum. Við borðuðum hana með litlum kúlum af vanilluís og hún var horfin áður en við vissum af.

SJÁ UPPSKRIFT

Kókos- og möndluskonsur með súkkulaðibitum

Við erum að fá svo marga skemmtilega gesti á næstu mánuðum að ég hef varla undan að bóka íbúðir á Airbnb fyrir mannskapinn. Það eru því mjög skemmtilegir tímar framundan. Ég reyni því að nýta þann nauma tíma sem ég hef frá Þórdísi í að vinna að doktorsverkefninu. Verkefni sem er orðið að svo ógurlegu skrímsli að ég þori stundum ekki að opna glósurnar mínar.

Ég er almennt mjög hrifin af svona skonsum – þær eru fljótlegar, einfaldar og það er auðvelt að frysta þær hráar til að eiga bakkelsi til að stinga beint inn í ofn þegar löngunin kallar. Svo á ég líka yfirleitt allt nauðsynlegt hráefni í þær og eitthvað auka til að hræra saman við. Við vorum mjög hrifin af þessum skonsum, þær voru fullkomnar nýbakaðar með eftirmiðdagskaffibollanum.

SJÁ UPPSKRIFT

Bakaðir kleinuhringir með kaffi og súkkulaði

Ég á við smá vandamál að stríða. Uppáhaldskaffihúsið mitt selur kleinuhringi sem eru svo góðir að ég gæti borðað þá í morgunmat á hverjum einasta degi. Þegar ég var ófrísk þá stalst ég ófáum sinnum þangað, keypti mér tvo og skóflaði þeim í mig á leiðinni heim. Amerískir kleinuhringir tvinna saman allt sem mér finnst syndsamlega gott. Allt það sem maður ætti bara borða í hófi. Þeir eru kolvetnisríkir, djúpsteiktir og með sykruðum glassúr. Fyrir mörgum (*hóst*Elmari*hóst*) er þetta of mikið af hinu góða.

Ég hef samt aldrei lagt í að djúpteikja kleinuhringi sjálf. Mér finnst skelfilega leiðinlegt að djúpsteikja og þar sem ég er afskaplega klaufsk þá er ég hálfhrædd við það líka. Þegar ég sá ofnbakaða kleinuhringi hjá Tracy þá hugsaði ég ekki um annað í marga daga. Ég tók loks af skarið og pantaði mér kleinuhringjamót á Amazon og bauð vinkonu okkar í kaffi.

Þessir kleinuhringir voru meira að segja Elmari að skapi! Kleinuhringirnir eru hlaðnir súkkulaði og espressói og glassúrinn er með ríkulegu kaffibragði. Þeir eru svo góðir að ég er hissa á að internetið hafi hreinlega ekki sprungið þegar Tracy birti þá á síðunni sinni. Ef það er eitthvað sem þið ættuð að baka af Eldað í Vesturheimi þá er þetta uppskriftin. Bjóðið svo vinum ykkar í kaffi og berjist um síðustu bitana. 

[* Ég hef lagst í smá rannsóknarvinnu og reynt að finna staði á Íslandi sem selja kleinuhringjamót. Allt í köku selur þá á vefsíðu sinni. Einhver hvíslaði því að mér að hún hafi séð slíkt í Melabúðinni. Ég hef haft samband við Kost og þau eru að íhuga að flytja þau inn.]

SJÁ UPPSKRIFT

Smákökur með stórum súkkulaðibitum og sjávarsalti

Ég veit. Þetta blogg er þegar smekkfullt af súkkulaðibitakökum (sjá til dæmis hér, hér, hér og hér). Málið er bara að þegar ég sé svona girnilega uppskrift þá stenst ég ekki mátið. Ég elska súkkulaðikex svo mikið að ef ég baka það ekki sjálf þá fer ég að kaupa einhverja algjöra vitleysu út í búð, fullt af aukaefnum og drasli. Þessar súkkulaðibitakökur eru dásamlegar – salt og súkkulaði passa einstaklega vel saman. Þær eru mjúkar í miðjunni, stökkar á endunum og eru fljótar að klárast.

SJÁ UPPSKRIFT

Ostakökubrownies

Það er búið að vera mjög gott veður hjá okkur, alveg fáránlega gott. Ég man að fyrsta janúarmánuð okkar hérna úti þá var mikið rok, mikið frost og mikill snjór. Ég átti bara eina ,vetrarskó’ sem voru hriplekir og dugðu engan veginn í allt slabbið og íspollana sem mynduðust við göturnar. Ég vann fyrir lúsarlaun í bókabúð við Columbia og ég tímdi því engan veginn að kaupa mér almennilegan skófatnað. Nannan sem ég er í dag myndi húðskamma þá Nönnu enda eru góðir skór undirstaða þess að líða vel í borg þar sem bílar eru óþarfir.

Þetta góða veður hefur hvatt okkur til að vera meira úti og í gær fórum við í langan göngutúr um Prospect Park í von um að Þórdís myndi sofa í meira en klukkutíma (svona einu sinni). Það gekk ekki eftir en við áttum þó indælan göngutúr þrjú saman í þokunni og logninu. Trén eru ber, grasið er fölt og engin blóm að sjá en á fallegum degi sem þessum þá hefur garðurinn samt mikinn sjarma.

En nóg af veðri því mig langar aðeins til að segja ykkur tildrög þess að ég leitaði þessa uppskrift uppi. Daginn eftir að við komum aftur út til Brooklyn frá Íslandi með Þórdísi Yrju þá vorum við frekar buguð. Ferðalagið gekk svolítið brösulega, taska týndist og íbúðin okkar var illa útleikinn eftir leigjandann. Við vorum ósofin, á kafi í þrifum, Elmar með ofsafengið ofnæmi og stúlkan okkar var svolítið óvær eftir allt húllumhæið. Þennan dag kom vinkona okkar færandi hendi. Hún hafði keypt alls kyns góðgæti úr sælkerabúð í Williamsburg og meðal þess voru fallegar ostakökubrownies.

Nú verð ég að viðurkenna að ég er alls ekki hrifin af ostakökum. Ég veit ekki nákvæmlega hvað veldur því. Oft fæ ég mér einn til tvo bita og finnst kakan frábær en svo er eins og allt fari á hraða niðurleið og ég fæ mig ekki til að borða meira en smá smakk. En ostakökudeig og browniedeig bakað saman er eitthvað stórfenglegt. Sætt og súkkulaðimikið browniebragð með óvæntu fersku og eilítið súru bragði frá ostakökunni. Þessar brownies eru svo skuggalega góðar að ég hef stungið þeim inn í frystinn svo ég freistist ekki til þess að borða þær allar í einu. Uppskriftina fann ég á Smitten Kitchen en ég hef breytt henni eftir eigin smekk. Ég hef minnkað sykurmagnið allverulega og myndi alls ekki vilja hafa kökuna sætari.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: