Bananamöffins með espressó og súkkulaðibitum
Það líður langt á milli færslna hjá mér þessa dagana en við Elmar erum búin að vera á smá þeytingi og erum loksins komin norður í Eyjafjörð þar sem við erum í góðu yfirlæti hjá fjölskyldu hans. Eins mikið og ég elska Brooklyn og New York þá kann ég vel að meta kyrrðina, rigninguna og allt það ferska loft sem hitabylgjan í Bandaríkjunum bauð ekki upp á.
Við Embla Ýr bökuðum þessar möffins saman áður en ég hélt norður og þær voru einstaklega gott nesti á þjóðveginum. Það eru reyndar ófáar færslur á þessu bloggi sem eru einhvers konar útfærsla á kaffi- og súkkulaðiblöndu og því þarf ég kannski ekki að lýsa því í smáatriðum hvað mér finnst það tvennt gott saman og í miklu magni. Það er ríkt bananabragð af þessum möffins en espressóið og súkkulaðið kemur í veg fyrir að bakkelsið verður of væmið. Ef þið viljið gera vel við ykkur þá eru þær sérstaklega góðar með sterkum kaffibolla á sunnudagsmorgni.
Bananamöffins með espressó og súkkulaðibitum
(Uppskrift frá Baked: New Explorations in Baking)
- 4 meðalstórir þroskaðir bananar, stappaðir
- 1/2 bolli sykur
- 1/4 bolli ljós púðursykur
- 115 g ósaltað smjör, bráðið
- 1/4 bolli nýmjólk
- 1 stórt egg
- 1.5 bolli hveiti
- 1 tsk ,instant’ espressóduft
- 1.5 tsk matarsódi
- 1 tsk salt
- 200 g dökkt súkkulaði, saxað (eða súkkulaðidropar)
Aðferð:
Hitið ofninn í 180C.
Hrærið saman banana, sykur, púðursykur, smjör og nýmjólk í meðalstórri skál.
Takið fram aðra skál og hrærið saman hveiti, espressódufti, matarsóda og salti. Búið til holu í miðju þurrefnana og hellið bananablöndunni þar ofan í. Hrærið allt saman. Bætið súkkulaðibitunum út í og blandið þeim varlega saman við deigið.
Takið fram möffinsplötu og smyrjið botnana (eða notið pappírsform). Fyllið 3/4 af hverju formi með deiginu og bakið í miðjum ofni í 20 til 25 mínútur, eða þar til þær eru bakaðar í gegn.
Takið úr ofninum og leyfið að kólna í 15 mínútur á grind. Takið möffinsin síðan úr og leyfið þeim að kólna.
Möffinsin geymast í 2 daga í loftþéttum umbúðum.
Gerir ca. 15 möffins
Þetta er fáránlega gott í morgunmat með kaffibolla.
Við höngum svo mikið í görðunum hér í Köben í sumarveðrinu og ég gerði þessar sérstaklega til að taka með til að snarla á yfir daginn. Ég gerði þær að vísu mjólkurvörulausar svo yngri gemlingurinn minn gæti verið með í átinu (helvítis mjólkuróþol!) svo ég setti sojamjólk í stað mjólkur og fljótandi smjörlíki í stað smjörs. Þó ég hafi breytt þessu eru þær alveg hreint æðislegar! Ég geri klárlega annan skammt :)