Skip to content

Posts from the ‘Íslenskt’ Category

Rabarbaraskúffukaka

Ég næ alls ekki að blogga eins reglulega og mig langar þessa dagana. Við erum á reglulegum þeytingi á milli sveita hérna fyrir norðan og erum svo heppin að matar- og kaffiboð eru svo tíð að ég næ varla að melta á milli heimsókna. Við mættum líka í eitt það skemmtilegasta brúðkaup sem ég hef verið viðstödd en góðvinir okkar létu pússa sig saman á heitum sólríkum degi í Hrísey og buðu upp á alíslenskt bakkelsi, kaffi, kvöldmat og dansiball um kvöldið. Þetta fallega lag er búið að óma í hausnum á mér síðan.

Bakstur, eldamennska, bloggg, lærdómur og vinna hefur því verið í miklu undanhaldi síðustu daga og vikur.  Og þó að samviskubitspúkinn pikki í öxlina af og til þá má alltaf drekkja honum í fallegu sundlauginni í Þelamörk eða bursta hann af sér í sveitasælunni í Skíðadal.

Eftir langt hlé frá bakstri ákvað ég að kíkja í rabarbarabeðið hjá tengdamóður minni og búa til þessa léttu og sumarlegu köku. Kakan er mjög einföld og passar mátulega ofan í meðalstóra ofnskúffu. Það mætti því segja að þessi kaka sé tegund af skúffuköku. Ég hafði smá áhyggjur af því að botninn yrði alltof þunnur þar sem gert var ráð fyrir eilítið minna bökunarformi í upphaflegri uppskrift en það voru allir sammála um að kakan væri stórgóð með þessum þunna botni, rabarbaralagi og hrönglinu ofan á.

Rabarbarinn er látinn liggja í sykri og sítrussafa áður en honum er dreift yfir kökudeigið og það gerir það að verkum að hann heldur sínu sérkennilega súra bragði án þess að það valdi andlitsgrettum. Þið skulið samt hella safanum sem rabarbarinn liggur í yfir kökuna til að fá rétt bragð og sætumagn.

SJÁ UPPSKRIFT

Lambalæri með blóðbergi, rjúpnalaufi og berjum

Tengdamóðir mín veit hvað hún syngur þegar kemur að því að matreiða lambalæri. Og þó að ég hafi fengið mörg góð læri yfir ævina þá verð ég að viðurkenna að nálgun hennar er skemmtileg, íslensk og einstaklega bragðgóð. Blóðbergið og rjúpnalaufið tíndum við á leiðinni niður úr fjallgöngu upp á Hestskarðshnjúk fyrir ofan Siglufjörð en berin voru fryst uppskera frá síðasta sumri. Ég fékk góðfúslegt leyfi hennar til að birta uppskrift að lambalærinu sem við grilluðum í bústaðnum Garði í sumar.

Íslenskt lambakjöt er svo ótrúlega bragðgott og meyrt og bragðið verður margfalt betra þegar það er grillað á kolagrilli og marinerað upp úr íslenskum fjallajurtum og berjum. Og þar sem það fer að líða að berjauppskeru þá hvet ég ykkur til þess að tína blóðberg og rjúpnalauf og nostra við gamla góða lambalærið. Auðvitað má svo nota annað sem ykkur dettur í hug í marineringuna, t.d. birkilauf og berjalyng.

Harpa byrjaði á því að fituhreinsa lærið svolítið en það er gott að rjúfa himnuna til að marineringin fari í kjötið sjálft en ekki bara fituna – það er nóg af fitu á lærinu þó eitthvað af henni sé hreinsað frá. Sem dæmi, þá skar hún 200 grömm af fitu af 3,5 kílógramma læri. Við hreinsuðum mold, mosa og rætur frá rjúpnalaufinu og blóðberginu og notuðum heilmikið því það þarf að hylja lærið alveg með berjum og kryddi. Salt og pipar fer á lærið áður en það fer á grillið því annars fer of mikill vökvi úr lærinu meðan það hvílist í marineringunni. Geyma má lærið í kryddhjúpnum í allt að sex daga.

Við vorum með óvenjustórt læri (3,5 kg) og miðast grilltíminn í uppskriftinni við það. Smærri læri þurfa minni tíma á grillinu.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: