Auðveld rabarbarasulta
Takk kærlega fyrir góð viðbrögð við búsáhaldafærslunni um daginn! Ég hafði mjög gaman af því að lesa hvað er í uppáhaldi hjá ykkur og plotta þannig næstu áhaldakaup.
Ég held að ég geti núna (loksins!) lýst því yfir að sumarið er komið til New York. Við löbbuðum á bændamarkaðinn snemma í morgun í glaðasólskini og ég var ekki lengi að rífa mig úr peysunni og sjá eftir því að hafa dregið á mig gallabuxur áður en ég fór út. Markaðurinn var þéttpakkaður af fólki, jarðarberjum, aspasi og ýmsu góðgæti. Í hverri viku spretta líka upp fleiri sölustandar sem selja vín, kjöt, ávexti, blóm og fleira. Það er gott að búa í Brooklyn.
Ég kippti með mér tveimur rabarbarastilkum á leiðinni úr búðinni í dag án þess að vera búin að ákveða hvað ég vildi gera við þá. Þegar heim var komið uppgötvaði ég að við gleymdum að kaupa sultu í búðinni og þá voru örlög rabarbarans ráðinn. Ég studdist við uppskrift úr einni uppáhaldsmatreiðslubókinni minni, Jamie at Home, og klukkutíma seinna var ég komin með þessa dýrlegu og einföldu sultu sem má nota á brauð og vöfflur eða út í hafragrautinn og jógúrtið. Ég átti vanillubaun upp í skáp en það má nota vanillusykur í stað sykurs eða sleppa vanillunni alfarið.
[Uppfært: Sykurmagnið í uppskriftinni virðist kannski ekki mikið miðað við magn rabarbara en við Elmar erum sammála um að sultan er alls ekki of súr heldur fær rabarbarinn kannski að njóta sín betur þar sem sultan er ekki dísæt.]