Skip to content

Posts from the ‘Smákökur’ Category

Sítrus-smjörkex með timíani

Ég er óttalegur klaufi. Ég er alltaf að segja það hérna en stundum er ég ekki alveg viss um að fólk skilji hversu mikill klaufi ég er. Málið er að ég læt mig oft vaða án þess að hugsa beint um hversu fáránlega vanhugsaðar athafnir mínar eru. Ég sting putta ofan í sjóðandi heita karamellu bara af því að ég get ekki beðið eftir að smakka hana. Ég gleymi að nota ofnhanska þegar ég teygi mig eftir nýbökuðum ofnrétti. Reyndar er klaufaskapur minn ekki bundinn við eldhúsið. Um daginn missti ég fartölvuna mína á andlitið á mér og náði að rispa gleraugun mín svo illa að ég verð víst að þola að vera eineygð þar til ég finn ný á námsmannaverði. Mér er eiginlega ekki viðbjargandi.

Matreiðslubók Joy the Baker kom út í vikunni og ég hef sjaldan verið eins spennt að fá nýja bók í hendurnar. Ég er ekkert lítið skotin í stúlkunni og blogginu hennar en hún á heiðurinn af kanillengjunni, ferskjubökunni og klassískum amerískum pönnukökum sem ég hef skrifað um hér. Bókin olli mér ekki vonbrigðum og ég er mjög spennt að elda og baka upp úr henni á næstu vikum.

Ég ákvað að tækla smjörkexið hennar fyrst. Ég er forfallinn sítrusávaxtarfíkill og ég elska smjör þannig að kannski kemur ákvörðun mín ekki beint á óvart. En uppskriftin er tiltölulega einföld og ég átti öll hráefnin til. Ég lendi samt alltaf í sömu vandræðum þegar það kemur að því að fletja út smjörkexdeigið – það vill helst liðast í sundur og því er svolítið erfitt fyrir mig að fletja það jafnt út. Ef þetta vandamál er eitthvað sem þið kannist við þá myndi ég jafnvel rúlla deiginu í pylsu og skera deigið svo niður í þunnar sneiðar eftir kælingu. En smjörkexið er alveg frábært! Timíanið gerir það svolítið sérstakt og sítrusbragðið á mjög vel við. Þetta er mjög gott með svörtu tei.

SJÁ UPPSKRIFT

Sörur

Ég er búin að vera með svo miklar yfirlýsingar um skreytingaræði mitt undanfarið að mér var bent á að kannski væri við hæfi að birta nokkrar myndir af dýrðinni. Við búum í lítilli stúdíóíbúð (28 fermetrum, takkfyrirkærlega) og borgum himinháar fjárhæðir fyrir (fylgifiskur þess að búa í New York). Ég var því mjög tvístígandi hvort ég ætti að tíma að kaupa jólatré og hvort að eitt slíkt myndi ekki hreinlega taka frá okkur dýrmætt pláss. Lausnin blasti svo við okkur þegar við fórum á bændamarkaðinn og sáum knippi af grenigreinum til sölu fyrir vægt verð. Útkomuna sjáið þið hér að ofan og við erum bara ansi sátt með litla ,tréð’.

Reyndar var svo mikið af greinum í vendinum að ég náði að búa til lítinn greniskóg í arninum okkar og hengja upp stakar greinar hér og þar. Í gær varð svo allt í einu mjög kalt og ég tel að Vetur konungur sé endanlega búinn að hrekja haustið á brott. Mandarínur hafa verið skreyttar með negulnöglum, sörur bakaðar, jólaskrauti dreift út um allt og við erum því alveg að verða tilbúin að bjóða jólin velkomin.

Fyrir mér eru sörur bestu jólasmákökurnar. Þær krefjast meiri fyrirhafnar en flestar aðrar smákökur en þær bragðast líka í samræmi við það. Ég studdist við uppskriftina í Matarást eftir Nönnu Rögnvaldsdóttur en breytti henni lítillega svo þær minntu mig meira á sörurnar sem mamma bjó til þegar ég var lítil. Möndlumarenskaka með espressósmjöri og dökkri súkkulaðihúð – ég veit ekki hver á heiðurinn af upprunalegu sörunni en mikið vildi ég geta keypt handa þeim bjór og gammel dansk.

SJÁ UPPSKRIFT

Appelsínuspesíur með súkkulaðibitum

Ég held að ég sé búin að skreyta hvern einasta krók og kima í 28 fm íbúðinni okkar í Brooklyn. Í gær velti ég því fyrir mér að kannski (og bara kannski) væri ég að fara yfir strikið í smekklegheitum og væri orðin ein af þessum jólabrjálæðingum sem kunna sér ekki hóf. En sú hugsun staldraði aðeins við í nokkrar sekúndur því við tóku miklar vangaveltur um hvar í ósköpunum ég ætti að koma fyrir jólatré. Því maður verður að vera með jólatré á jólunum – jafnvel þó það séu bara nokkrar grenigreinar í vasa. Er það ekki?

Ég meina, ég er að minnsta kosti ekki farin að setja Slayer-jólaljósasýningu utan á húsið.

Ég bjó til þessar æðislegu jólasmákökur um daginn. Ég keypti pínkulítið smákökuform í laginu eins og grenitré og skemmti mér mikið við að þróa þessa uppskrift við ljúfa jólatóna og espressó í bolla. Ég er mjög hrifin af appelsínusúkkulaði og ákvað því að rífa appelsínubörk út í súkkulaðismákökudeigið og er ljómandi ánægð með útkomuna. Smákökurnar eru stökkar með miklu smjöri, slatta af súkkulaði og mildu appelsínubragð. Hreinasta afbragð (þó ég segi sjálf frá)!

SJÁ UPPSKRIFT

Litlar Svartaskógskökur

Það er október, hitinn hangir enn í tuttugu gráðum, sum trén eru enn sumargræn en það rignir líka marglitum laufblöðum niður á gangstéttirnar. Þetta er þriðja haustið okkar hérna úti en ég hef enn ekki vanist þessu. Það er komið haust en veðrið er eins og á (lang)bestu sumardögunum heima. Ég er svo kolrugluð að ég hef ekki hugmynd um hvernig ég á að mér að vera. Ég ákvað því að ná áttum með því að baka smákökur. Smákökur eru áreiðanlegar og auðveldar. En þessar náðu líka að læðast aftan að mér og koma mér á óvart. Skemmtilega á óvart. 

Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar ég beit í fyrstu kökuna og hélt í stutta stund að ég væri að borða brúnu en ekki smáköku. Þessar smákökur eru súkkulaðidásemd aldarinnar og ég verð að finna leiðir til að koma þeim ofan í aðra. Ég á eftir að vera með magapínu í marga daga ef ég úða þeim öllum í mig ein. Ég ákvað að gera hálfa uppskrift (ég læt upprunalegu uppskriftina fylgja) og fékk samt 24 stórar smákökur. Þær eru mjúkar, seigar, sætar og pakka svo miklu súkkulaði í einum bita að augun ragnhvolfast í höfðinu. Þær eru byggðar á hinni víðfrægu Svartaskógsköku, sem er súkkulaðikaka með kirsuberjalíkjör og þeyttum rjóma, og eru núna uppáhaldssmákökurnar mínar. Ef smákökur má kalla.

SJÁ UPPSKRIFT

Smákökur með höfrum og súkkulaðibitum

Ég ætti eiginlega að búa í litlum bæ. Litlum bæ þar sem fólk væri endalaust að kíkja inn í kaffi og með því. Þá gæti ég bakað eins oft og mikið og mig langar venjulega til að gera án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að a) enginn borðar öll ósköpin eða b) ég og Elmar borðum allt klabbið og hættum að passa í fötin okkar.

Ég fékk óvænt frí í vinnunni í dag. Ég sá fyrir mér að ég gæti legið úti á svölum, borðað frostpinna og drukkið í mig sólargeislana. En í dag er skýjað. Og rigningarlegt. Og frekar kalt. Þannig að ég ákvað að gera það næstbesta – baka. Og þetta er nákvæmlega ástæðan fyrir því að ég ætti að búa í litlum bæ. Því í staðinn fyrir að baka lítinn skammt af smákökum eða brauði þá bakaði ég svona 60 stykki af smákökum og álíka mikið af kanilsnúðum. Ég er nokkuð viss um að Elmar eigi eftir að koma heim á eftir og gera stólpagrín að mér, enda segir hann að það mætti halda að ég sé að reka fimm manna heimili miðað við matar- og kökuskammtana sem koma úr eldhúsinu.

Ég var búin að einsetja mér að baka bara kanilsnúða en þegar ég fór að skoða uppskriftir á netinu þá rakst ég á þessa girnilegu smákökuuppskrift og ég stóðst hreinilega ekki mátið. Ég breytti henni aðeins, sleppti hnetunum (því þær kostuðu offjár úti í búð) og jók aðeins magnið af höfrum í staðinn. Þegar fyrsta platan kom út úr ofninum þá stóð ég við eldhúsvaskinn, þambaði mjólk og hámaði í mig nokkrar heitar smákökur. Kökurnar eru stökkar á hliðunum og mjúkar að innan, hafrarnir gefa þeim svolítið bit og súkkulaðið gerir gæfumuninn, sérstaklega þegar kökurnar eru enn heitar og súkkulaðið er bráðið.

SJÁ UPPSKRIFT

Súkkulaðibitakökur

Mér hefur alltaf fundist rigningarveður leiðindaveður. Mig langar aldrei sérstaklega út og þegar ég dríf mig í einhvern leiðangur þá á ég það til að sjá eftir því. Það stytti aðeins upp í gær og ég ákvað að kíkja í Trader Joe’s, sem er lágvöruverslun í ekkert alltof mikilli fjarlægð frá okkur. Allar ákvarðanir mínar varðandi þá ferð reyndust rangar. Ég ákvað, fyrst það var nú búið að stytta upp, að fara með litlu regnhlífina út í búðina í staðinn fyrir þá stóru. Ég ákvað líka að sleppa því að fara í stígvélunum mínum og skellti tautöskunni minni á öxlina og arkaði út í búð. Ef þið hafið verslað í bandarískum matvörubúðum þá vitið þið að þeir nota yfirleitt pappapoka undir vörurnar. Sem er venjulega allt í lagi. Nema ég lenti (auðvitað) í skýfalli á leiðinni heim. Ég bölvaði rigningunni og sjálfri mér í sand og ösku þegar ég gekk heim úr búðinni með alltof litla regnhlíf (sem hlífði aðeins höfðinu mínu og engu öðru), blaut í fæturna og með pappapoka sem smám saman varð að drullu. Þegar ég átti sirka 10 mínútna labb eftir heim þá gaf pokinn sig endanlega og allar vörurnar trítluðu og ultu frá mér í nálæga polla. Ég tíndi allt samviskusamlega upp og fyllti fangið á mér með niðursuðudósum, jógúrti og öðrum óþarfa sem ég hafði leyft mér að kaupa. Þannig að þegar það fór að rigna í dag þá tók ég þá ákvörðun að vera frekar heima við með bækur og tebolla við höndina. En þegar ég varð þreytt á því og sá fram á að vera ein í kvöldmat þá ákvað ég bara að búa til smákökur. As one does.

Þessi smákökuuppskrift er mjög einföld en smákökurnar eru virkilega góðar. Eggjarauðan gerir þær aðeins mýkri en venjulegar smákökur en þær eru samt stökkar og góðar á endunum. Það er auðvitað hægt að gera þessa uppskrift ,,fínni“ og skella í smá söxuðum hnetum en stundum finnst mér að súkkulaðismákökur eiga bara að standa undir nafni og innihalda aðeins dökka og stóra súkkulaðidropa. Ég bjó til sirka 50 smákökur úr þessu deigi en kökurnar mínar eru fremur litlar – ég miðaði við eina matskeið í hverja köku. Það er líka hægt að búa til risastórar smákökur úr þessu deigi, það er alfarið undir ykkur komið. Fylgist bara vel með bökunartímanum, mér finnast ofnar vera ansi mismunandi og því er bökunartíminn hér að neðan alls ekki heilagur. Þegar brúnirnar eru gylltar þá ættu kökurnar að vera tilbúnar.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: