Quiche með blaðlauk og portobellosveppum
Ég, eins og aðrir, eldist víst með hverju árinu sem líður. Og oft finnst mér ég vera orðin mjög fullorðin. Ég er gift, bý í erlendri borg, er með masterspróf, kann að prjóna og baka vöfflur. Samt, þrátt fyrir fjöldamörg dæmi og beinar upplifanir, virðist mér fyrirmunað að geta lært nokkrar grundvallarlexíur. Ein af þessum meginreglum er að borða alltaf (alltaf!) kvöldmat áður en maður hittir vini sína á barnum og þá sérstaklega þegar eitt glas (*hóst* þrjú) af hvítvíni hefur runnið ljúflega niður í rólegheitunum heima. En þó þetta hafi hent mig oftar en ég kæri mig nokkurn tíma um að viðurkenna, þá fyllist ég samt alltaf einhverri illskiljanlegri blekkingu að ég sé slíkt ofurkvendi að ég þurfi ekki mat með víni.
Og þá þarf ég að viðurkenna að ég er í raun bara krakkagríslingur sem kann ekki að drekka.
Þetta henti mig sem sagt þessa helgi. Ég vaknaði morguninn eftir með dúndrandi höfuðverk og löngun til að hverfa undir sæng það sem eftir lifði dags þegar mig fór að ráma, í gegnum þykka þynnkumóðu, að vinur okkar hafi borgað reikninginn á barnum og kæruleysislega sagt að við ættum bara að bjóða honum í mat seinna. Og þar sem ég lifði mig mikið inn í ofurkvendistálmyndina á þeim tímapunkti þá bauð ég honum og kærustunni hans auðvitað í mat strax daginn eftir.
Svo ég reif mig fram úr rúminu, fór að laga til og undirbúa kvöldmat. Og þar sem ég var búin að ákveða að búa til quiche (í fyrsta skipti) kvöldið áður og hráefnið lá fyrir skemmdum inni í ísskáp þá vissi ég að uppskriftin yrði tækluð undir þessum erfiðu kringumstæðum.
Þetta er svolítið langt frá því að vera fljótlegur réttur, laukurinn þarf að eldast í hálftíma og bökuskelin þarf að hvílast inni í ísskáp í rúman klukkutíma, en hann er tiltölulega einfaldur og sérstaklega ljúffengur. Skelin er gerð úr smjördeigi og eggjablandan og osturinn ljá réttinum mjög mjúka áferð og ríkt bragð. Það er auðvitað hægt að búa til smjördeigið fyrirfram og frysta það (það geymist í frysti í ca. 1 mánuð).