
Ég varð árinu eldri í gær og eyddi deginum í eldhúsinu en kvöldinu með nokkrum af bestu og uppáhaldsvinum mínum í skemmtilegu matarboði í Vatnsendahverfinu. Það er nefnilega ekki hlaupið að því að finna tíma til að hittast öll saman og því þótti mér óendanlega vænt um að fá heila kvöldstund í víndrykkju, grill, át og spjall. Með okkur var tveggja ára snillingur (hæ Kári!) sem lék við fingur sér og klukkaði okkur á víxl í stórfiskaleik á milli þess sem hann dýfði appelsínusneiðum í tómatsósu og át með bestu lyst. Kósýheitin voru alveg í hámarki.

Og auðvitað bakaði ég afmælisköku handa sjálfri mér. Og það ætti ekki að koma neinum (þ.e. þeim sem þekkja mig og þeim lesa þetta blogg reglulega) að ég bjó til eitt stykki sítrónubombu í tilefni dagsins. Ég hafði séð þessa hnallþóru á smitten kitchen fyrir löngu síðan og hef beðið eftir réttu tilefni í marga mánuði. Kakan er tímafrek en það er hægt að undirbúa allt nema kremið nokkrum dögum áður. Botnana má setja í frysti (eftir að þeir hafa náð stofuhita) og geyma í 2 vikur og sítrónumaukið geymist í kæli í viku. 
Ég verð reyndar að viðurkenna að sítrónumaukið olli mér töluverðum vandræðum og heilabrotum. Ég bjó það til daginn sem ég setti kökuna saman og bölvaði því milli samanbitinna tanna að hafa ekki haft vit á því að hafa gert það a.m.k. deginum áður. Það vildi bara alls ekki þykkna! Ég setti það inn í ísskáp, tók það út aftur, setti það yfir sjóðandi vatn, hrærði eins og ég ætti lífið að leysa, setti það inn í frysti, skellti matarlími í það en það náði samt ekki að þykkna nægilega mikið. Blandan sem varð eftir og situr í ísskápinum í dag er samt þykk og mun nærri því sem ég held að maukið eigi að vera.

Ég virðist samt hafa verið ein um að lenda í vandræðum með maukið – ef ég á að taka mark á athugasemdakerfinu hjá smitten kitchen. Það er tvennt sem ég held að hafi farið úrskeiðis hjá mér. Ég held að ég hafi ekki verið með maukið yfir hita nógu lengi til að byrja með og leyfði því þannig ekki þykkna nægilega, en blandan á að vera álíka þykk og hollandaisesósa á þeim tímapunkti. Svo þykkist maukið þegar það kólnar og því meiri tíma sem þú getur gefið því í kælinum, því betra. Annars get ég líka bent á þesssa sítrónumauksuppskrift ef þið viljið prófa aðra, en Joy of Baking klikkar sjaldnast.

Kremið var samt mun einfaldara og hitamælirinn er í raun óþarfur þó að mér hafi fundist mjög gott að styðjast við hann. Ef þið eruð ekki með hitamæli við hendina þá má þeyta í staðinn á lægstu stillingu í ca. 3 mínútur eða þar til blandan er farin að þykkna. Aukið svo hraðann og þeytið í 5 mínútur og blandan á að byrja að þykkjast verulega í þeim tíma.
Kakan var virkilega góð! Hún stóðst allar mínar væntingar og mér fannst sætleiki kremsins passa afskaplega vel við súrt bragð sítrónumauksins. Ég skemmti mér líka við að kveikja aðeins í kreminu með crème brûlée kveikjara.

Líkar við:
Líka við Hleð...