Skip to content

Posts from the ‘Krem’ Category

Gulrótakleinuhringir með límónukremi og valhnetum

Það fer að líða að því að tíminn breytist hérna úti. Í mars endurstillum við klukkuna og töpum einum klukkutíma. Í fyrstu fannst mér þetta skrítinn siður enda ekki vön slíku. Núna þykir mér þetta alveg frábært þó að tilfinningin um að við séum að ,svindla’ á einhvern hátt situr ennþá eftir. Ég er sérstaklega hrifin af því að græða einn klukkutíma af birtu á kvöldin þegar líða fer að vori.

Ég var minnt á gulrótaköku af lesanda (hæ Lilja!) sem ég bjó til alls fyrir löngu. Kakan er alveg fáránlega góð, ég bakaði hana á tveggja ára brúðkaupsafmæli okkar Elmars þegar við héldum upp á það og vorið í Central Park. Það var almennt álit vina okkar að þarna færi besta gulrótakaka sem þau hefðu smakkað. Og þar sem að ég er búin að búa til sömu kleinuhringina aftur og aftur (og aftur) þá mátti ég til með að baka nýja kleinuhringi með þá uppskrift til hliðsjónar.

Fyrsta tilraunin endaði reyndar í ruslinu. Deigið var alltof blautt, var með alltof lítið af gulrótum og helst til of kryddað. Mig langaði samt í kleinuhringi og var búin að bíta það í mig að búa til mína eigin uppskrift. Ég ákvað því að byrja upp á nýtt. Og ég er mjög ánægð með afraksturinn. Kleinuhringirnir eru eins og litlar kökur með fersku kremi og stökkum valhnetum.

SJÁ UPPSKRIFT

Súkkulaðikaka með saltaðri karamellu og kremi

Eftir langt frí frá blogginu og Brooklyn er ég komin aftur heim í litlu stúdíóíbúðina með kraftlausu sturtunni og fjólubláa eldhúsinu. Eins gott og það er að vera heima á Íslandi í öllum þeim lúxus sem það hefur upp á að bjóða (ef fólk bara vissi hversu frábært það er að þurfa ekki að nota almenningsþvottahús!) þá er yndislegt að vera komin ,heim’ aftur. Elmar var búinn að fara í Whole Foods fyrir mig og mín beið fullt af ferskum ávöxtum og heirloom tómötum sem ég hef hámað í mig af mikilli lyst. Það snjóar hjá okkur og veðrið virðist ætla að fara kólnandi. Ég bíð óþolinmóð eftir vorinu og reyni að láta veðurspár ekki fara í taugarnar á mér. Mér er frekar illa við þessa árstíð og bíð spennt eftir að pakka niður frökkum og lopapeysum.

Mamma mín elskuleg átti fimmtugsafmæli á meðan ég var heima og í tilefni dagsins bökuðum við þessa súkkulaði-karamellu-bombu. Kakan er vægast sagt fyrirhafnarmikil en allir sem smökkuðu hana voru sammála um að þetta væri besta súkkulaðikaka sem þeir höfðu bragðað. Hún er því vel fyrirhafnarinnar virði og dugar fyrir ansi marga maga.

Við breyttum aðeins frá uppskrift og bökuðum tvo 9″ botna frekar en þrjá 8″ botna. Við pössuðum að kæla botnana vel áður en við smurðum kreminu á þá til að koma í veg fyrir að kremið læki út um allt. Eftir karamellufíaskóið fyrir jól ákvað ég að sleppa því að nota hitamæli í karamellurnar og fylgdist frekar vel með eldunarferli hennar og tók hana reglulega af hitanum til að passa að hún brynni ekki við. Ef hún virtist of fljótandi þá setti ég hana aftur yfir háan hita í smá stund og tók hana svo aftur af til að taka stöðuna aftur. Ef þið treystið sykurhitamælinum ykkar vel þá er auðvitað tilvalið að fylgjast með hitastiginu. En okkar aðferð kom ekki að sök og karamellan kom bara vel út. Kakan verður svo bara betri daginn eftir bakstur þannig að það er sniðugt að setja hana saman daginn áður en á að bera hana fram.

SJÁ UPPSKRIFT

Kanillengja með kremi

Eldað í Vesturheimi er eins árs í dag. Ég er búin að skrifa 76 færslur, birta 89 uppskriftir og landa einu blaðaviðtali. Ég ætla ekki einu sinni að telja myndirnar sem ég hef birt, ég er hrædd um að ég fái vægt áfall. En mig langaði til að nýta tækifærið og þakka ykkur fyrir að líta inn hjá mér – hvort sem þið gerið það reglulega eða endrum og eins. Ég get ekki byrjað að lýsa því hversu þakklát ég er fyrir heimsóknir ykkar, athugasemdir og áhuga.

Er þetta orðið of væmið? Of vandræðalegt? Vindum okkur þá í sykur-, smjör- og gerbombu dagsins. Ég bakaði hana sérstaklega fyrir ykkur.

Þetta sætabrauð er stórhættulegt. Það er svo mjúkt, bragðgott og sætt. Sykurinn og smjörið leka niður í mótið og botninn á brauðinu verður karamellukenndur. Það passar ótrúlega vel með heitu kaffi eða kaldri mjólk. Og þið munuð vilja borða það allt án þess að deila með öðrum. (Eða var það bara ég?) Ég hugsa að ég búi það ekki til aftur nema ég eigi von á fólki í kaffibolla, svo ég geti haft hemil á mér. Borðsiðirnir í dag voru ekki beint til fyrirmyndar.

Þetta brauð, eins og flest allt gerbrauð, krefst smá tíma og alúðar. Það þarf að hefast tvisvar og hvílast tvisvar, bakast í hálftíma og kólna í korter. Þetta er því tilvalið brauð til að baka um helgi þegar veðrið er vont og hangsa þarf inni. Það má líka búa til deigið og stinga því inn í ísskáp og fletja það út og baka næsta dag. Það má sleppa rjómaostskreminu og búa frekar til súkkulaðikrem eða glassúr. Eða sleppa bara kremi alfarið. En fyrir alla muni fáið fólk í kaffi. Eins og Vesturheimsbúar segja:

Sharing is caring.

SJÁ UPPSKRIFT

Afmæliskaka

Ég varð árinu eldri í gær og eyddi deginum í eldhúsinu en kvöldinu með nokkrum af bestu og uppáhaldsvinum mínum í skemmtilegu matarboði í Vatnsendahverfinu. Það er nefnilega ekki hlaupið að því að finna tíma til að hittast öll saman og því þótti mér óendanlega vænt um að fá heila kvöldstund í víndrykkju, grill, át og spjall. Með okkur var tveggja ára snillingur (hæ Kári!) sem lék við fingur sér og klukkaði okkur á víxl í stórfiskaleik á milli þess sem hann dýfði appelsínusneiðum í tómatsósu og át með bestu lyst. Kósýheitin voru alveg í hámarki.

Og auðvitað bakaði ég afmælisköku handa sjálfri mér. Og það ætti ekki að koma neinum (þ.e. þeim sem þekkja mig og þeim lesa þetta blogg reglulega) að ég bjó til eitt stykki sítrónubombu í tilefni dagsins. Ég hafði séð þessa hnallþóru á smitten kitchen fyrir löngu síðan og hef beðið eftir réttu tilefni í marga mánuði. Kakan er tímafrek en það er hægt að undirbúa allt nema kremið nokkrum dögum áður. Botnana má setja í frysti (eftir að þeir hafa náð stofuhita) og geyma í 2 vikur og sítrónumaukið geymist í kæli í viku. 

Ég verð reyndar að viðurkenna að sítrónumaukið olli mér töluverðum vandræðum og heilabrotum. Ég bjó það til daginn sem ég setti kökuna saman og bölvaði því milli samanbitinna tanna að hafa ekki haft vit á því að hafa gert það a.m.k. deginum áður. Það vildi bara alls ekki þykkna! Ég setti það inn í ísskáp, tók það út aftur, setti það yfir sjóðandi vatn, hrærði eins og ég ætti lífið að leysa, setti það inn í frysti, skellti matarlími í það en það náði samt ekki að þykkna nægilega mikið. Blandan sem varð eftir og situr í ísskápinum í dag er samt þykk og mun nærri því sem ég held að maukið eigi að vera.

Ég virðist samt hafa verið ein um að lenda í vandræðum með maukið – ef ég á að taka mark á athugasemdakerfinu hjá smitten kitchen. Það er tvennt sem ég held að hafi farið úrskeiðis hjá mér. Ég held að ég hafi ekki verið með maukið yfir hita nógu lengi til að byrja með og leyfði því þannig ekki þykkna nægilega, en blandan á að vera álíka þykk og hollandaisesósa á þeim tímapunkti. Svo þykkist maukið þegar það kólnar og því meiri tíma sem þú getur gefið því í kælinum, því betra. Annars get ég líka bent á þesssa sítrónumauksuppskrift ef þið viljið prófa aðra, en Joy of Baking klikkar sjaldnast.

Kremið var samt mun einfaldara og hitamælirinn er í raun óþarfur þó að mér hafi fundist mjög gott að styðjast við hann. Ef þið eruð ekki með hitamæli við hendina þá má þeyta í staðinn á lægstu stillingu í ca. 3 mínútur eða þar til blandan er farin að þykkna. Aukið svo hraðann og þeytið í 5 mínútur og  blandan á að byrja að þykkjast verulega í þeim tíma.

Kakan var virkilega góð! Hún stóðst allar mínar væntingar og mér fannst sætleiki kremsins passa afskaplega vel við súrt bragð sítrónumauksins. Ég skemmti mér líka við að kveikja aðeins í kreminu með crème brûlée kveikjara. 

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: