Espressó-siffonkaka með súkkulaðikremi
Tinna vinkona okkar átti afmæli í gær. Hún vildi ekkert húllumhæ en ég neyddi hana til þess að þiggja heimabakaða afmælisköku af mér. Ekki bara af því að mér þykir rosalega vænt um hana og mér finnst að allir eigi að fá alvöru köku á afmælinu sínu heldur líka af því að mér finnst fátt skemmtilegra en að fá tækifæri til að baka alvöru köku. Stundum fara eiginhagsmunir og gjafmildi vel saman. Sérstaklega þegar útkoman er kaffilegin og súkkulaðihúðuð.
Þessar tegundir af kökum eru á ensku kallaðar ,,chiffon cakes“ og er hægt að íslenska sem ,,siffonköku“ (sbr. heimild frá 1980), ,,og er þar gefið í skyn, að kakan sé létt eins og siffon, sem allir þekkja úr fataframleiðslunni“. Og þar hafið þið það.
Ég ákvað að búa til espressóköku þar sem a) Tinna elskar kaffi og b) í gær var dagur kaffisins í Bandaríkjunum. Útkoman var vægast sagt syndsamlega ljúffeng. Kaffibragðið gefur kökubotninum mun skemmtilegra bragð en hefði hann aðeins verið bragðbættur með vanilludropum, espressósírópið náði að bleyta kökubotnana hæfilega mikið og ég setti líka ,instant’espressóduft í súkkulaðikremið. Kaffi og kaffi og kaffi með súkkulaði. Að hvaða leyti gæti þetta svo sem klikkað?
En það er ekki þar með sagt að ég myndi ekki gera smávægilegar breytingar á uppskriftinni. Ég hefði í raun bara þurft helminginn af kreminu (enda fór drjúgur hluti inn í ísskáp eftir að kakan var smurð) og í raun hefði ég viljað vera með minna krem á kökunni sjálfri þar sem kökubotnarnir voru alls ekki það þurrir að allt þetta krem væri nauðsynlegt. Ég gerði kökuna líka bara tveggja hæða (í staðinn fyrir þriggja eins og uppskriftin kvað á um) þar sem ég á bara eitt hringlaga kökuform og nennti hreinlega ekki að baka botna í þremur hollum. Ég þarf að ráða bót á þessum málum.