Skip to content

Posts from the ‘Kaffi’ Category

Espressó-siffonkaka með súkkulaðikremi

Tinna vinkona okkar átti afmæli í gær. Hún vildi ekkert húllumhæ en ég neyddi hana til þess að þiggja heimabakaða afmælisköku af mér. Ekki bara af því að mér þykir rosalega vænt um hana og mér finnst að allir eigi að fá alvöru köku á afmælinu sínu heldur líka af því að mér finnst fátt skemmtilegra en að fá tækifæri til að baka alvöru köku. Stundum fara eiginhagsmunir og gjafmildi vel saman. Sérstaklega þegar útkoman er kaffilegin og súkkulaðihúðuð.

Þessar tegundir af kökum eru á ensku kallaðar ,,chiffon cakes“ og er hægt að íslenska sem ,,siffonköku“ (sbr. heimild frá 1980), ,,og er þar gefið í skyn, að kakan sé létt eins og siffon, sem allir þekkja úr fataframleiðslunni“. Og þar hafið þið það.

Ég ákvað að búa til espressóköku þar sem a) Tinna elskar kaffi og b) í gær var dagur kaffisins í Bandaríkjunum. Útkoman var vægast sagt syndsamlega ljúffeng. Kaffibragðið gefur kökubotninum mun skemmtilegra bragð en hefði hann aðeins verið bragðbættur með vanilludropum, espressósírópið náði að bleyta kökubotnana hæfilega mikið og ég setti líka ,instant’espressóduft í súkkulaðikremið. Kaffi og kaffi og kaffi með súkkulaði. Að hvaða leyti gæti þetta svo sem klikkað?

En það er ekki þar með sagt að ég myndi ekki gera smávægilegar breytingar á uppskriftinni. Ég hefði í raun bara þurft helminginn af kreminu (enda fór drjúgur hluti inn í ísskáp eftir að kakan var smurð) og í raun hefði ég viljað vera með minna krem á kökunni sjálfri þar sem kökubotnarnir voru alls ekki það þurrir að allt þetta krem væri nauðsynlegt. Ég gerði kökuna líka bara tveggja hæða (í staðinn fyrir þriggja eins og uppskriftin kvað á um) þar sem ég á bara eitt hringlaga kökuform og nennti hreinlega ekki að baka botna í þremur hollum. Ég þarf að ráða bót á þessum málum.

SJÁ UPPSKRIFT

Ískaffi

Það er brjálað veður úti. Þrumur svo háværar að ég held að þær séu beint fyrir ofan hausinn á mér og rigningin er svo mikil að ég sé ekki út um gluggana okkar. Það er notalegt að vera inni og heyra í veðrinu úti fyrir á meðan ég úða í mig misheppnuðum bláberjasorbet og hlusta á útvarpsþátt um vín. Kósy dagur hjá mér á Manhattan.

En það er ekki veðrið sem mig langaði til að segja ykkur frá. Það sem mig langar virkilega til að deila með ykkur er þetta ískaffi. Ég er mjög hrifin af  ískaffi en það var eiginlega nauðsyn sem kenndi mér að kunna að meta það því ég hreinlega gat ekki (og get ekki) drukkið heitt kaffi í 40°C hita.

Ískaffi, eins og venjulegt kaffi, er afskaplega mismunandi eftir sölustöðum og þeim aðferðum sem beitt er við uppáhellingu. Versta aðferðin sem þú getur beitt er að hella upp á heitt kaffi og láta það kólna í ísskápnum. Fyrir alla muni, sleppið því! Það verður einstaklega biturt og mun ekki renna ljúflega niður, ég lofa. Kaffið sjálft skiptir líka máli þó ég sé ekki hlynnt því að eyða miklum pening í baunir sem enda í ískaffi. Reynið bara að sleppa Merrildpokunum. 
En ískaffið sem við höfum verið að drekka frá því að við komum aftur út er útgáfa af víetnömsku ískaffi. Það er í raun mjög einfalt, við setjum eina matskeið (eða í mínu tilfelli tvær) af sætri niðursoðinni mjólk út í ískaffið og hrærum vandlega þar til hún hefur blandast við kaffið. Þetta dregur mjög úr biturleika svarta kaffisins og gerir það sætara (sætumagnið fer auðvitað alfarið eftir hversu mikil mjólk er notuð) og gefur því karamellukenndan keim og mýkri áferð. Þetta er hrein snilld.

SJÁ UPPSKRIFTIR

%d bloggurum líkar þetta: