Skip to content

Posts from the ‘Kaka’ Category

Rabarbaraskúffukaka

Ég næ alls ekki að blogga eins reglulega og mig langar þessa dagana. Við erum á reglulegum þeytingi á milli sveita hérna fyrir norðan og erum svo heppin að matar- og kaffiboð eru svo tíð að ég næ varla að melta á milli heimsókna. Við mættum líka í eitt það skemmtilegasta brúðkaup sem ég hef verið viðstödd en góðvinir okkar létu pússa sig saman á heitum sólríkum degi í Hrísey og buðu upp á alíslenskt bakkelsi, kaffi, kvöldmat og dansiball um kvöldið. Þetta fallega lag er búið að óma í hausnum á mér síðan.

Bakstur, eldamennska, bloggg, lærdómur og vinna hefur því verið í miklu undanhaldi síðustu daga og vikur.  Og þó að samviskubitspúkinn pikki í öxlina af og til þá má alltaf drekkja honum í fallegu sundlauginni í Þelamörk eða bursta hann af sér í sveitasælunni í Skíðadal.

Eftir langt hlé frá bakstri ákvað ég að kíkja í rabarbarabeðið hjá tengdamóður minni og búa til þessa léttu og sumarlegu köku. Kakan er mjög einföld og passar mátulega ofan í meðalstóra ofnskúffu. Það mætti því segja að þessi kaka sé tegund af skúffuköku. Ég hafði smá áhyggjur af því að botninn yrði alltof þunnur þar sem gert var ráð fyrir eilítið minna bökunarformi í upphaflegri uppskrift en það voru allir sammála um að kakan væri stórgóð með þessum þunna botni, rabarbaralagi og hrönglinu ofan á.

Rabarbarinn er látinn liggja í sykri og sítrussafa áður en honum er dreift yfir kökudeigið og það gerir það að verkum að hann heldur sínu sérkennilega súra bragði án þess að það valdi andlitsgrettum. Þið skulið samt hella safanum sem rabarbarinn liggur í yfir kökuna til að fá rétt bragð og sætumagn.

SJÁ UPPSKRIFT

Afmæliskaka Elmars

Elmar átti afmæli í gær. Við lögðum skólabækurnar til hliðar og ákváðum að eiga rólegan dag saman. Við fórum á uppáhaldsbarinn okkar, Bierkraft, sátum úti undir sólarhlíf, borðuðum osta og Elmar keypti sér dýrindis belgískan bjór. Um kvöldið borðuðum við á frábærum ástralsk-asískum stað hérna í hverfinu og löbbuðum út hálf rangeygð af seddu og matarhamingju.

 Það er mín skoðun að afmælisbörn eiga skilið köku. Og þá meina ég alvöru heimabakaða köku á hæðum og með kremi. Ég hef áður sett inn færslu um afmæliskökuna mína og um afmælisköku vinkonu okkar sem hefur síðan flust frá Brooklyn og ég sakna alveg afskaplega mikið og ekki má gleyma fimmtugskökubombunni hennar mömmu. Afmælisbörn eiga líka skilið vín með kökunni og góðan hóp fólks til að skála fyrir merkisdeginum. 

Elmar er mikill kaffimaður. Svo mikill að dagurinn getur hreinlega ekki byrjað fyrr en hann er búinn að fá sér fyrsta kaffibollann. Mér fannst því við hæfi að búa til kaffiköku með kaffikremi og fann loks uppskrift sem heillaði mig í tímaritinu Bon Appétit, kaffibragð fyrir Elmar og súkkulaði fyrir mig. Botnarnir eru unaðslegir og ég hugsa að ég eigi eftir að nota þá oft upp úr þessu. Kremið er létt í sér og mjúkt og hefur lúmskt bragð af café mocha, mér fannst það samt helst til of sætt (þrátt fyrir að hafa minnkað sykurmagnið) og ég mæli með að minnka það jafnvel enn meira en ég gerði. Ég bakaði þrjá 8 tommu botna en það má auðvitað hafa kökuna tveggja hæða í staðinn fyrir þriggja.

Það lýstu allir yfir mikilli ánægju með kökuna og ég hef æði oft læðst í smá sneið af afganginum í dag. Yndislegt!

SJÁ UPPSKRIFT

Jarðarberjakaka á hvolfi

Gleðilegt sumar! Ég sit við opinn glugga, sólin skín í gegnum grænlaufguð trén og léttklætt fólk í hrókasamræðum labbar letilega framhjá. Ég elska þessa árstíð og gæti engan veginn verið án hennar. Það sem gerir daginn sérstaklega ánægjulegan er að ég finn fyrir sprikli frá lítilli veru undir kjólnum mínum. Það verður nefnilega aukning í litlu Vesturheimsfjölskyldunni okkar í september og við gætum ekki verið ánægðari. Ég get því loksins komið hreint fram og viðurkennt að blogghléið mitt í byrjun árs var sökum ólétturiðu og matarfráhverfu. Ég nærðist aðallega á vatnsmelónum og ristuðu brauði í margar vikur og óttaðist að endurheimta aldrei matarástina. Sem reyndist (auðvitað) vera óþarfa paranoja.

Í tilefni sumardagsins fyrsta, góðra frétta úr 20 vikna sónar og almennri hamingju og gleði ákvað ég að baka köku í dag. Jarðarberjaköku með kardemommubragði sem ég get haft í kaffinu þegar Elmar kemur loksins heim frá morgunkennslu. En núna er kakan komin út úr ofninum, hálfvolg og fallega rauð og ég er þegar búin með helminginn af henni (alveg óvart!). Það er spurning hvort eitthvað verður eftir fyrir spúsann.

Þessi kaka er tilvalin leið til að bjóða sumarið velkomið yfir kaffibolla, blómum og sól. Jarðarberin malla á botni kökuformsins ásamt púðursykri og smjöri og þetta allt saman myndar ofboðslega bragðgóða og þykka jarðarberjasósu. Kökubotninn er léttur, mjúkur og eilítið blautur með ríku kardemommubragði sem passar ákaflega vel með jarðarberjunum. Og það má auðvitað prófa sig áfram með öðrum berjum og ég ætla að prófa hana í sumar með rabarbara. Berið hana fram með nýþeyttum rjóma og bjóðið sumarið velkomið.

SJÁ UPPSKRIFT

Bananakaka með súkkulaðibitum

Það er farið að vora í New York! Og óvenjulega snemma í ár. Hitasveiflurnar eru ennþá til staðar en út vikuna er spáð sól og um 20 stiga hita á daginn, fyrstu kirsuberjatrén í Grasagarðinum eru farin að springa út og alls kyns blóm spretta upp úr beðunum við götuna okkar. Allt þetta gerir mig svo ósegjanlega káta og ég hlakka mikið til að sitja úti á kaffihúsum í vikunni og læra. Ég er einföld sál að þessu leyti – það er fátt sem getur skyggt á skapið mitt þegar sólin skín og hlýtt er í veðri.

Við fengum gesti í mat í gærkvöldi og á meðan Elmar mallaði þetta rísottó þá bakaði ég köku úr banönum og súkkulaði. Bananar og súkkulaði eru klassísk blanda og hún er sérstaklega góð í þessari einföldu köku án þess að vera of sæt eða of væmin. Við bárum hana fram volga með vanilluís en ég hugsa að hún sé mjög góð með nýþeyttum rjóma. Það má hafa í huga við bakstur að það er gott að hræra deigið ekki of mikið annars gæti kakan orðið þyngri í sér og eilítið seigari en maður vill. Gott er blanda þurrefnunum og blautefnunum saman með ákveðnum strokum og hætta strax og hveitirákirnar hætta að sjást. Fylgist síðan vel með kökunni undir rest og takið hana út strax og hún bakast í gegn í miðjunni.

SJÁ UPPSKRIFT

Súkkulaðikaka með saltaðri karamellu og kremi

Eftir langt frí frá blogginu og Brooklyn er ég komin aftur heim í litlu stúdíóíbúðina með kraftlausu sturtunni og fjólubláa eldhúsinu. Eins gott og það er að vera heima á Íslandi í öllum þeim lúxus sem það hefur upp á að bjóða (ef fólk bara vissi hversu frábært það er að þurfa ekki að nota almenningsþvottahús!) þá er yndislegt að vera komin ,heim’ aftur. Elmar var búinn að fara í Whole Foods fyrir mig og mín beið fullt af ferskum ávöxtum og heirloom tómötum sem ég hef hámað í mig af mikilli lyst. Það snjóar hjá okkur og veðrið virðist ætla að fara kólnandi. Ég bíð óþolinmóð eftir vorinu og reyni að láta veðurspár ekki fara í taugarnar á mér. Mér er frekar illa við þessa árstíð og bíð spennt eftir að pakka niður frökkum og lopapeysum.

Mamma mín elskuleg átti fimmtugsafmæli á meðan ég var heima og í tilefni dagsins bökuðum við þessa súkkulaði-karamellu-bombu. Kakan er vægast sagt fyrirhafnarmikil en allir sem smökkuðu hana voru sammála um að þetta væri besta súkkulaðikaka sem þeir höfðu bragðað. Hún er því vel fyrirhafnarinnar virði og dugar fyrir ansi marga maga.

Við breyttum aðeins frá uppskrift og bökuðum tvo 9″ botna frekar en þrjá 8″ botna. Við pössuðum að kæla botnana vel áður en við smurðum kreminu á þá til að koma í veg fyrir að kremið læki út um allt. Eftir karamellufíaskóið fyrir jól ákvað ég að sleppa því að nota hitamæli í karamellurnar og fylgdist frekar vel með eldunarferli hennar og tók hana reglulega af hitanum til að passa að hún brynni ekki við. Ef hún virtist of fljótandi þá setti ég hana aftur yfir háan hita í smá stund og tók hana svo aftur af til að taka stöðuna aftur. Ef þið treystið sykurhitamælinum ykkar vel þá er auðvitað tilvalið að fylgjast með hitastiginu. En okkar aðferð kom ekki að sök og karamellan kom bara vel út. Kakan verður svo bara betri daginn eftir bakstur þannig að það er sniðugt að setja hana saman daginn áður en á að bera hana fram.

SJÁ UPPSKRIFT

Espressó-siffonkaka með súkkulaðikremi

Tinna vinkona okkar átti afmæli í gær. Hún vildi ekkert húllumhæ en ég neyddi hana til þess að þiggja heimabakaða afmælisköku af mér. Ekki bara af því að mér þykir rosalega vænt um hana og mér finnst að allir eigi að fá alvöru köku á afmælinu sínu heldur líka af því að mér finnst fátt skemmtilegra en að fá tækifæri til að baka alvöru köku. Stundum fara eiginhagsmunir og gjafmildi vel saman. Sérstaklega þegar útkoman er kaffilegin og súkkulaðihúðuð.

Þessar tegundir af kökum eru á ensku kallaðar ,,chiffon cakes“ og er hægt að íslenska sem ,,siffonköku“ (sbr. heimild frá 1980), ,,og er þar gefið í skyn, að kakan sé létt eins og siffon, sem allir þekkja úr fataframleiðslunni“. Og þar hafið þið það.

Ég ákvað að búa til espressóköku þar sem a) Tinna elskar kaffi og b) í gær var dagur kaffisins í Bandaríkjunum. Útkoman var vægast sagt syndsamlega ljúffeng. Kaffibragðið gefur kökubotninum mun skemmtilegra bragð en hefði hann aðeins verið bragðbættur með vanilludropum, espressósírópið náði að bleyta kökubotnana hæfilega mikið og ég setti líka ,instant’espressóduft í súkkulaðikremið. Kaffi og kaffi og kaffi með súkkulaði. Að hvaða leyti gæti þetta svo sem klikkað?

En það er ekki þar með sagt að ég myndi ekki gera smávægilegar breytingar á uppskriftinni. Ég hefði í raun bara þurft helminginn af kreminu (enda fór drjúgur hluti inn í ísskáp eftir að kakan var smurð) og í raun hefði ég viljað vera með minna krem á kökunni sjálfri þar sem kökubotnarnir voru alls ekki það þurrir að allt þetta krem væri nauðsynlegt. Ég gerði kökuna líka bara tveggja hæða (í staðinn fyrir þriggja eins og uppskriftin kvað á um) þar sem ég á bara eitt hringlaga kökuform og nennti hreinlega ekki að baka botna í þremur hollum. Ég þarf að ráða bót á þessum málum.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: