Skip to content

Posts from the ‘Uncategorized’ Category

Jólakort frá Vesturheimi

Ónothæf eldavél í Bergen

Þá erum við búin að vera í Bergen í rúmar tvær vikur í góðu yfirlæti. Við erum ennþá að jafna okkur á vöruverði hér í Noregi og ég fæ alltaf smá sting í magann þegar ég umreikna norsku krónurnar í þá íslensku. Það hefur því ekki farið mikið fyrir kaffihúsahangsi og pöbbarölti þessa dagana. Við höfum samt leyft okkur einn og einn kaffibolla, fengið okkur að borða á fiskmarkaðnum og meira að segja gerst svo kræf að kaupa kippu af bjór í matvörubúðinni(!).

Við lentum samt í því óláni að eldavélin í íbúðinni sem háskólinn útvegaði okkur er biluð og því er hvorki hægt að elda né baka. Og uppþvottavélin sem ég hef horft á með stjörnur í augunum hefur líka gefið upp öndina. Ég hef ekki hugmynd um hvað er í gangi en það er eins og öll raftæki í húsinu hafi hreinlega farið í eitt allsherjarverkfall um leið og við mættum á svæðið. Því þarf að kalla til iðnaðarmenn, sem hafa mætt eftir eigin hentugleika, til að fá botn í þetta mál.

Þetta er í fyrsta skipti í marga mánuði þar sem ég neyðist til að sleppa því að elda og baka og ég verð að viðurkenna að ég á bágt með mig. Það er fátt sem mér finnst eins afslappandi og að stússast í eldhúsinu og ég vona (aðallega Elmars vegna) að ástandinu verði kippt í lag áður en ég missi algjörlega kúlið. Brauð og jógúrt í öll mál verður þreytt til lengdar.

Chiliolía

Chili

Ég skil stundum ekki alveg þessa – tiltölulega nýtilkomna – þörf mína fyrir að vera í eldhúsinu að malla í pottum. Ég er nefnilega alveg óttalega klaufsk. Þessi klaufaskapur er sérstaklega hættulegur líkama mínum og almennri vellíðan þegar ég sýsla við gashellur og funheita ofna. Í dag ætlaði ég að vera mjög sniðug og sauð vatn í potti til að sótthreinsa tómar sultukrukkur. Það endaði auðvitað þannig að þegar ég var að reyna að veiða eina krukkuna uppúr þá rann hún aftur í sjóðandi heitt vatnið og það slettist yfir mig alla. Ég hef því baðað mig upp úr Aloe Vera í allan dag og tel mig heppna að ekki hafi farið verr (því sjúkratryggingin mín hefur ekki gengið í gildi og læknisheimsókn kostar skrilljónir). En þetta er nú ekki beint einsdæmi. Ég á til dæmis mjög erfitt með að draga út ofnskúffur án þess að finna leið til að leggja putta eða kjúkur upp að eldbakaðri skúffunni (og já, ég nota ofnhanska). Jafn einfaldir hlutir og uppvask geta einnig farið úr böndunum og ég hef náð að brjóta glös og bolla við það eitt að færa hlutina frá vaski yfir á þurrkunargrind. Þetta hefur gert það að verkum að Elmar er stundum á nálum þegar hann fylgist með mér í eldhúsinu og kannski er það ekki skrítið. Ég meina, ef það hljómaði eins og maki minn væri að rífa niður eldhúsinnréttinguna þegar hann sagðist ætla að elda þá yrði ég örugglega svolítið sveitt um ennið líka.

Þannig að, þegar ég ákvað að búa til heimatilbúna chiliolíu þá ætlaði ég sko að vera við öllu reiðubúin. En þrátt fyrir að hafa klætt hendurnar í plastpoka þá náðu chilialdinin samt einhvernveginn í gegn sem gerði það að verkum að ég var með heljarinnar sviða í puttunum um kvöldið og ég náði fyrst að sofna þegar ég lá hálf fram úr rúminu með hendurnar í skál fyllta af köldu vatni og klökum. Lexía dagsins? Farið í að minnsta kosti fjóra latexhanska áður en þið hugsið um að fara að skera í svona mörg chilialdin. Kapíss?

Magn chilipipars fer alfarið eftir því hversu sterka olíu þú vilt búa til og það fer auðvitað líka eftir hvers konar chilipipar þú ert að nota. Ég notaði frekar sterka, litla og rauða (sjá mynd að ofan) sem gefa mjög góðan hita í olíuna. Ég notaði alveg heilmikið magn og ákvað að fræhreinsa ekki öll aldinin og það kom mjög vel út – ég hefði allaveganna ekki viljað nota færri. Olían er til dæmis mjög góð út á pasta, pítsur eða með ostum.

SJÁ UPPSKRIFT

Brownies með súkkulaði,fudge’ kremi

Það er búið að fara mjög vel um okkur í Stóra Eplinu síðustu vikuna. Elmar er búinn að vera mjög upptekinn við nám og kennslu og ég reyni mitt besta að vera dugleg í þeim verkefnum sem ég hef ákveðið að klára. Við höfum líka farið mikið út á meðal fólks síðustu daga. Við kynntumst íslenskum hjónum sem eru nýflutt til borgarinnar og búa hinum megin við Miklagarð og við fórum í partí til Ayeshu vinkonu minnar. Partý hjá henni eru alltaf áhugaverð og þá sérstaklega það fólk sem maður hittir hjá henni. Þar sem hún vinnur sjálf í banka þá er mikið af vinum hennar og kunningjum einnig í fjármálabransanum og töluvert ólíkt því fólki sem við höfum kannski verið að umgangast. Sem dæmi, þá vorum við Elmar mætt ágætlega snemma í partíið og hittum fyrir bandarísk hjón sem eru aðeins eldri en við. Elmar talaði við manninn og þegar hann sagðist vera frá Íslandi þá fór maðurinn að segja honum að hann vissi nú lítið um Ísland en honum hafi verið boðið í ‘bachelor party’ í Reykjavík hjá félaga sínum. Þá flaug tilvonandi brúðgumi til Reykjavíkur ásamt tíu nánustu vinum sínum, sem væri nú kannski ekki nein nýlunda nema þeir keyptu flugmiða fyrir sirka þrjátíu kvensur sem flugu að frá mismunandi stöðum í Evrópu til að skemmta köppunum. Á meðan lýsti konan hans, nýbúin að eignast barn, fyrir mér hvað umhugsun ungabarns væri ,unrewarding’ reynsla og að hún gæti ekki beðið eftir að geta ráðið barnfóstru og komist aftur á skrifstofuna svo hún gæti umgengist ,alvöru’ fólk. Þetta fannst mér mjög skemmtilegt og kostulegt allt saman.

Annars er vinafólk okkar að koma til okkar í kvöld frá Íslandi. Þar sem vinkona mín á afmæli á morgun ákvað ég að ég yrði nú að baka handa henni afmælisköku. Næsta ákvörðun mín var að baka eitthvað amerískt og því varð brownieskaka fyrir valinu. En svo fór allt að ganga á afturfótunum eins og svo oft vill gerast þegar ég vil virkilega að eitthvað heppnist sérstaklega vel. Kakan var mjög ljót (sem er kannski ekkert svo skrítið því brownies eru alltaf ljótar – ef einhver getur búið til fallegar og bragðgóðar brownies þá vil ég ekki þekkja viðkomandi), hún liðaðist í sundur og var bara svona almennt til háborinnar skammar. Ég ákvað þess vegna að búa til súkkulaðikrem svo ég gæti nú falið ósköpin og spaslað í gjárnar. Súkkulaðikremið er svosum voðalega bragðgott og ég ákvað að skreyta kökudrusluna með hindberjum. En hindberin líta eiginlega bara út eins og vanskapaðir fjallstindar og ég er ekki alveg sannfærð um að þau fegri kökuna.

Af hverju fær þessi uppskrift að fara inn á vefsíðuna? Af því að þetta er samt gott á bragðið og ég elska þessa brownie uppskrift. Ef að ég á alltaf að sleppa því sem mér finnst ég hafa klúðrað þá myndi ég bara setja inn eina til tvær færslur á mánuði og þá væri enginn ánægður, ræt?

SJÁ UPPSKRIFT

Svona byrjar þetta…

Þegar við fluttum til New York fyrir rétt rúmu ári síðan var ég hálf hrædd við eldhús – ekki bara mitt eldhús heldur öll eldhús. Það að elda fyrir aðra gerði mig einstaklega stressaða og ég var hrædd við að klúðra einföldustu hlutum og þurfa að bjóða fólki upp á óætan mat. Ég held að uppvask hafi verið það eina sem mér fannst ég geta leyst vel af hendi. En svo fluttum við til Bandaríkjanna og ég ákvað að hrista af mér þennan aumingjaskap og byrja að elda. Og ég var bara ekkert svo hræðileg! Núna er matreiðsla og það að hugsa um hráefni og aðferðir orðin stór hluti af mínu daglega lífi. Og er það vel…

Ég ætla því að skrifa hér sögur frá okkur í New York og hvað við erum að bauka í eldhúsinu. Með myndum, uppskriftum og öllu því sem skemmtilegt er (vonandi).

%d bloggurum líkar þetta: