Skip to content

Ónothæf eldavél í Bergen

Þá erum við búin að vera í Bergen í rúmar tvær vikur í góðu yfirlæti. Við erum ennþá að jafna okkur á vöruverði hér í Noregi og ég fæ alltaf smá sting í magann þegar ég umreikna norsku krónurnar í þá íslensku. Það hefur því ekki farið mikið fyrir kaffihúsahangsi og pöbbarölti þessa dagana. Við höfum samt leyft okkur einn og einn kaffibolla, fengið okkur að borða á fiskmarkaðnum og meira að segja gerst svo kræf að kaupa kippu af bjór í matvörubúðinni(!).

Við lentum samt í því óláni að eldavélin í íbúðinni sem háskólinn útvegaði okkur er biluð og því er hvorki hægt að elda né baka. Og uppþvottavélin sem ég hef horft á með stjörnur í augunum hefur líka gefið upp öndina. Ég hef ekki hugmynd um hvað er í gangi en það er eins og öll raftæki í húsinu hafi hreinlega farið í eitt allsherjarverkfall um leið og við mættum á svæðið. Því þarf að kalla til iðnaðarmenn, sem hafa mætt eftir eigin hentugleika, til að fá botn í þetta mál.

Þetta er í fyrsta skipti í marga mánuði þar sem ég neyðist til að sleppa því að elda og baka og ég verð að viðurkenna að ég á bágt með mig. Það er fátt sem mér finnst eins afslappandi og að stússast í eldhúsinu og ég vona (aðallega Elmars vegna) að ástandinu verði kippt í lag áður en ég missi algjörlega kúlið. Brauð og jógúrt í öll mál verður þreytt til lengdar.

One Comment Post a comment
  1. Illa farið með góða hæfileika, Nanna mín. Vonandi kemst eldavélin í lag sem fyrst. Hafðu það gott í Norge :)

    22/06/2011

Skildu eftir athugasemd