Skip to content

Posts from the ‘Áfengi’ Category

Greipósa

Ég ætti kannski ekki að pína ykkur með þessu en vorið er farið að skarta sínu fegursta í hverfinu okkar. Prospect Heights er mjög gróið hverfi með mörgum magnólíu- og kirsuberjatrjám sem keppast nú við að opna blóm sín. Við tökum vorinu fagnandi og hlökkum til að eyða góðum tíma saman í garðinum í sumar.

Ef ég byggi heima í þessu langvarandi vetrarhreti, þá myndi ég bjóða góðu fólki í bröns um helgina. Ég myndi baka ólívuolíuköku, steikja ofnbakaðar kartöflur með spínati og beikoni, hleypa egg og búa til stóra könnu af þessum frábæra kokkteil. Uppskriftin er innblásin af hinni sívinsælu mímósu (appelsínusafi í kampavíni) en mér finnst þessi drykkur margfalt betri. Ferskur greipsafi blandaður saman við Campari og freyðivín.

SJÁ UPPSKRIFT

Negroni

Eftir nokkur kvöld af smakki og sötri hef ég tekið Negroni í sátt. Þetta er svolítið krefjandi drykkur – bitur, margslunginn og skarpur, en mér finnst hann fullkominn eftir stóra máltíð til að fríska upp á bragðlaukana. Fyrir þau okkar sem eru ekki óð í Campari þá rennur hann kannski ekki mjög ljúflega niður fyrst en eitthvað við hann hvetur mann til að taka annan sopa. Það er reyndar sökum einskærrar þrjósku í mér að ég vildi læra að drekka og meta þennan ítalska drykk og ég verð að segja að þetta gæti verið uppáhaldsdrykkurinn minn núna.

Venjulega er hann blandaður í jöfnum hlutföllum – einn partur gin, einn partur Campari og einn partur sætur vermút – en ég hef komist að því að mér finnst hann bestur með aðeins meira af vermút og drukkinn ískaldur. Sumir drekka hann með prosecco (ítölsku freyðivíni) í staðinn fyrir gin eða setja bourbon í staðinn fyrir gin fyrir haustlegri drykk. Nú væri bara gaman að hafa aðgang að svölum og hlýju veðri til að fullkomna hughrifin. Ég set hefðbundnu uppskriftina inn hér að neðan en hvet ykkur til að smakka ykkur áfram og finna þau hlutföll sem henta ykkur.

Tónlist með: My baby just cares for me – Nine Simone

SJÁ UPPSKRIFT

Hanastél: Gylfagin

Þar sem við Elmar búum með Þórdísi langt frá fjölskyldum okkar þá missum við af vissum ,fríðindum’. Við erum ekki með neina pössun fyrir hana og höfum því skipt liði þegar það kemur að því að fara út á kvöldin með vinum. Við söknum þess eilítið að geta ekki farið saman út, bara tvö. Þessi löngun ýkist að mörgu leyti þegar maður býr í stúdíóíbúð og þarf að fara hljóðlega um á kvöldin til að vekja ekki barnið. En undanfarið höfum við átt góðar kvöldstundir, við tökum spil við kertaljós og drekkum einhvern drykk saman. Í gærkvöldi blandaði ég þennan ljúffenga kokkteil á meðan Elmar svæfði og við sötruðum á honum yfir nýja spilinu okkar.

Við keyptum gin frá Islay í Skotlandi – The Botanist – um daginn sem ég er alveg kolfallin fyrir. Viskíframleiðandinn Bruichladdich býr til takmarkað upplag af því en meirihluti jurtanna sem fara í ginið eru tíndar í námunda við verksmiðjuna. Ég blandaði því saman við nýkreistan sítrónusafa og sletti smá tímíansírópi sem ég hafði búið til fyrr um daginn. Mér fannst uppskriftin fyrir sírópið þó heldur stór og hef minnkað hana hér að neðan. Útkoman er ferskur og eilítið kryddaður gindrykkur sem rennur ljúflega niður. Það má svo auðvitað sleppa gininu fyrir þá sem ekki drekka.

*Tónlist með: Samaris – Góða Tungl

SJÁ UPPSKRIFT

Heitur Teitur

Þá erum við komin aftur til Brooklyn eftir langa viðveru heima á Íslandi. Ferðalagið sjálft gekk mjög vel og það kom á daginn að ég þurfti ekki að hafa miklar áhyggjur af því að ferðast með ungbarn. Þórdís Yrja stóð sig eins og hetja og svaf næstum því alla leiðina. Ég hafði hins vegar ekki undirbúið mig fyrir það sem við tók. Við stóðum við færibandið á flugvellinum heillengi að bíða eftir síðustu töskunni okkar sem aldrei kom. Þegar við komum heim seint um kvöld í litlu en notalegu íbúðina okkar birtist sorgleg sjón. Íbúðin var grútskítug eftir leigjandann okkar í sumar – hvíta baðherbergið okkar var grátt og svart af óhreindinum og fitubrák þakti gólf, hillur og skápa. Í ofanálag var glugginn galopinn og hafði feykt inn laufum, sóti og öðrum skít. Mér leið eins og ég ætti ekki heima þarna.

Við Elmar, kúguppgefin, tókum smá skurk strax og reyndum að laga aðeins til, skúra og setja saman rimlarúmið. Við gáfumst upp um miðja nótt, fengum okkur bjór, slökktum ljósin og fórum að sofa. Síðustu þrír dagar hafa farið í að þrífa leigjandann út. Sem er hreint ótrúlegt þar sem íbúðin er aðeins 30 fermetrar! En þetta hófst og við erum loksins búin að koma okkur almennilega fyrir, týnda taskan skilaði sér og Þórdís er smám saman að taka nýja umhverfið í sátt.

Fellibylurinn Sandy gerir það að verkum að haustið er ekki eins fallegt í ár og það var í fyrra. Sterkir vindar rifu flest lauf af trjánum – þau liggja brún og morkin á gangstéttum og götum – og viðgerðarmenn standa í ströngu við að laga rafmagnslínur. Kuldinn, ferðalagið og hasarinn við þrifin hafa tekið sinn toll á Elmari og hann er orðinn ansi slappur. Ég ákvað því að búa til heitan áfengan drykk til að reyna að koma honum aftur í fyrra horf.

Ein bandarísk afurð er í miklu uppáhaldi hjá mér. Bandarískt viskí eða bourbon eins og það er kallað hér. Ég hef saknað þess að geta fengið mér smá lögg í glas, jafnvel blandað út í smá heimatilbúið engiferöl eða drukkið einn svona heitan drykk á köldum vetrardegi. En ætli ég þurfi ekki að bíða í nokkra mánuði í viðbót svo ég fari ekki að framleiða áfenga mjólk. Við höfum íslenskað nafnið á þessum drykk en á ensku er þetta kallað ,Hot Toddy’ og er talinn allra meina bót.

SJÁ UPPSKRIFT

Sterlingstél

Við erum búin að skemmta okkur konunglega síðustu daga með litlu systur minni í glampandi sólskini og hita. Við erum búin að borða á okkur gat, móka í garðinum og gægjast í sum skemmtilegustu hverfi Brooklyn. Það er svo gaman að fá gesti að heiman – sérstaklega þá sem verða jafn yfir sig hrifnir af hverfinu okkar og við.

Þó að ég megi ekki snerta áfengi þessa dagana þá þýðir það ekki að Vesturheimseldhúsið sé uppiskroppa með hráefni í hanastél og mér finnst (svona næstum því) jafn gaman að blanda þau þrátt fyrir ,ástandið’. Við höfum búið til nokkra stórgóða kokteila hérna úti – t.d. bjórgarítu og mojito – og Embla og Elmar ábyrgjast að þessi sé reglulega góður. Hann er ekki yfirþyrmandi – ekki of sætur, ekki of áfengur (þó það megi alltaf bæta meira gini í drykkinn fyrir þá sem vilja mjög áfenga drykki) – og jarðarberin og basilíkan eru skemmtileg bragðblanda.

SJÁ UPPSKRIFT

Rósavíns- og hindberjasorbet

Tölum aðeins um rósavín. Rósavín hefur fengið svolítið slæmt orð á sig fyrir að vera of sætt, of stelpulegt, of bleikt og margir snúa upp á nef sér og fúlsa við drykknum. Það er svo sem allt í lagi. En rósavín er alveg jafn margbreytilegt og allar aðrar víntegundir. Það er til gott rósavín og svo er til rosalega (rosalega) vont rósavín. Ég játa fúslega að ég drekk rósavín endrum og eins og finnst þau stundum m.a.s. mjög góð. Því þurrara sem vínið er því meira slær á sætuna án þess þó að drepa ávaxtakeiminn.

Það má líka búa til sorbet úr rósavíni og hindberjum. Sorbet sem mér finnst mjög frískandi og skemmtilega öðruvísi á bragðið (ásamt því að vera svona líka fallegur á litinn!). Ég á því láni að fagna að sitja ein að fengnum þar sem eiginmaðurinn grettir sig ógurlega í hvert skipti sem ég býð honum upp á kúlu og muldrar eitthvað um að hann hafi lítinn sem engan áhuga á einhverjum rósavínsóskapnaði.

Verið hugrökk, búið til rósavínssorbet!

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: