Bjórgaríta
Það er orðið alltof langt síðan ég lofaði vinkonu minni (hæ Guðný!) að setja uppskrift að bjórgarítum inn á vefsíðuna mína.
Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki alveg hvað ég átti að halda þegar ég heyrði um þennan drykk fyrst. Tekíla og bjór? En svo fór ég að hugsa. Tekíla og bjór! Kannski er það hreint ekki svo galið. Þannig að ég sullaði tekíla, límónum og bjór saman og varð hreint steinhissa, því þetta er alveg merkilega gott og hættulega svalandi. Þetta er drykkur sem á að blanda í stórri könnu og deila með nokkrum vinum á sólríkum eftirmiðdegi. Með heitum nachosflögum og sterkri salsasósu. Er ég að ná að selja ykkur þetta?
Ég hefði reyndar viljað nota ljósari bjór en Corona var uppseldur í kjörbúðinni minni og ég gat ekki fengið af mér að kaupa Budweiser eða Coors Light (það sem hefði verið afgangs af því sulli hefði líka aldrei verið drukkið á þessum bæ ). Ég hugsa því að bragðminni bjór en sá sem ég notaði (Yuengling) kæmi betur út. Ég reif líka smá límónubörk til að fá meira límónubragð en það var í raun algjör óþarfi og því fylgir það ekki í uppskriftinni.