Skip to content

Moules à la Marinière [Kræklingar í hvítvíni]

Við Elmar erum dottin í einn allsherjarkræklingagír. Kræklingar eru ódýrir hjá okkur og eru alveg frábær leið til að láta okkur líða eins og við séum að borða rándýra máltíð – enda eru þeir kallaðir ,ostrur fátæka mannsins’. Það er líka alveg ótrúlega einfalt og fljótlegt að elda þá.

Það var komið að mér að spreyta mig á að elda kræklinga þegar Elmar átti afmæli. Ég ákvað að gufusjóða þá samkvæmt franskri hefð og studdist við Mastering the Art of French Cooking. Reyndar var afmæliskaka Elmars úr þeirri bók líka þannig að dagurinn var með frönsku matarþema hjá okkur. Við keyptum kræklingana daginn áður í Lobster Palace í Chelsea Market. Ef þið ferðist til New York þá verðið þið að kíkja á Highline og inn í Chelsea Market. Fiskmarkaðurinn þar er einn uppáhaldsstaðurinn minn í allri borginni.

Ég græt það oft í laumi að ég eigi enn eftir að fara til Frakklands. Ég læt mig oft dreyma um að búa þar, bæta við það skammarlega litla hrafl sem ég kann í frönsku og eyða dögum mínum í að elda og drekka vín. Klisjukennt? Eflaust. En ég get vottað það að ef við búum einhvern tímann í Frakklandi, þá mun þessi réttur skreyta borðið eins oft og ég næ að kaupa fallega kræklinga.

SJÁ UPPSKRIFT

Reine de Saba [Frönsk möndlu- og súkkulaðikaka]

Elmar átti afmæli í síðustu viku og við áttum mjög góðan og afslappandi dag saman. Ég eldaði kræklinga um kvöldið og við fengum okkur dýrindis osta úr Murray’s Cheese Shop og sneið af þessari köku í eftirmat. Ég hef sagt það áður að mér finnst einstaklega gaman að búa til afmæliskökur og mér finnst að allir eigi að fá heimabakaða köku á afmælisdeginum.

Ég gróf þessa uppskrift upp úr bók sem mér þykir afskaplega vænt um, Mastering the Art of French Cooking. Þóra frænka mín gaf mér hana stuttu eftir að ég tók ástfóstri við eldhúsið. Bókin hefur gefið mér mikinn innblástur og kjark til að tækla uppskriftir sem ég hefði annars aldrei þorað að hjóla í. Kakan var ómótstæðilega ljúffeng með ríku súkkulaðibragði og miklu möndlubragði í bland.

SJÁ UPPSKRIFT

Skonsur með jarðarberjum og rjóma

Við fengum góða vinkonu okkar í heimsókn einn góðviðrisdaginn í vikunni. Ég átti eiginlega ekkert til að bera fram nema öskju af jarðarberjum og fullt af rjóma.

Elmar keypti stóran pela af rjóma í kræklingaréttinn og til að forða rjómanum frá skemmdum ákvað ég að baka þessar dýrðlegu rjómaskonsur til að hafa með ferskum jarðarberjunum og meiri rjóma. Þetta er sígildur bandarískur eftirréttur og er mikið borðaður hérna vestra á sumrin. Ég hef margoft bakað þessar skonsur (án þess að setja inn uppskrift) og þær eru í miklu uppáhaldi hjá okkur. Þær eru sérstaklega góðar sem matarbrauð og við höfum tvisvar mætt með þær í Þakkargjörðarboð. Ég mæli eindregið með að prófa að baka þær þegar þið eigið of mikið af rjóma.

SJÁ UPPSKRIFT

Kræklingar í síder með beikoni og blaðlauk

Strax og önnin var búin hjá Elmari ýtti hann mér út úr eldhúsinu og tók yfir kvöldmatargerðina. Við erum búin að borða fullt af fiski, steikarsalatið góða og uppáhaldsblómkálsréttinn okkar. Þessi kræklingaréttur sló samt öllu við. Þvílík veisla! Við vorum alls óviss um hvort við ætluðum að elda kræklinga þar sem við héldum að þeir væru of dýrir. Það kom okkur því skemmtilega á óvart að kílóapoki af kræklingum kostaði tæpa sex dali. Ég hugsa að kræklingar verði reglulega í matinn hjá okkur næstu vikur.

Elmar hófst handa þegar heim kom og skrúbbaði kræklingana til að losa þá við hreistur og annan óþrifnað sem sest utan á skeljarnar. Því næst togaði hann ,skeggið’ af kræklingunum, henti opnum skeljum sem lokuðu sér ekki sjálkrafa eftir að hafa bankað þeim léttilega í eldhúsbekkinn og skolaði þá í köldu vatni. Það er mjög mikilvægt að láta kræklingana ekki liggja í bleyti þar sem þeir eru saltvatnsdýr og kafna í kranavatninu. Hafið líka í huga að jafnvel þótt kræklingur sé harðlokaður þegar hann er keyptur er best að athuga hvort hann sé ekki örugglega á lífi – það má t.d. gera með því að kreista skeljarnar aðeins saman og sjá hvort hann veiti einhverja mótstöðu. Við studdumst við þetta myndband við verkunina.

Elmar lagðist líka í smá rannsóknir um kræklinga en um þá ríkir allskonar hjátrú. Hann fann til dæmis nýlega rannsókn (helstu niðurstöður má lesa hér) sem sýnir að það sé hrein sóun að henda þeim kræklingum sem opnast ekki við eldun. Samkvæmt rannsókninni er þessi mýta upprunin úr bókinni Fish Book (1973) eftir Jane Grigson. Þegar bókin var gefin út höfðu Evrópubúar áhyggjur af því að kræklingar væru dregnir upp úr menguðu sjávarvatni. Í dag eru kræklingar ræktaðir á köðlum sem liggja í hreinum sjó og því er hættan á að óhreinindi og ormar mengi fiskinn mun minni. Ein orsök þess að kræklingar opnast ekki við eldun er sú að þeir eru yngri og vöðvinn sem heldur skelinni lokaðri er því sterkari og gefur sig ekki eins auðveldlega við eldun. Því er mælt með að opna einfaldlega kræklinginn og athuga hvort hann er ekki eldaður í gegn. Ef hann er þungur miðað við stærð, fiskurinn ljós og ilmar vel þá er óhætt að borða hann. Annars gæti þurft að henda honum. Við gerðum þetta sjálf og okkur varð ekki meint af.

Auðvitað á samt að fara varlega með skelfisk og það verður hver að ákveða fyrir sig hvernig fiskurinn er meðhöndlaður. Þeir sem finna huggun í því að henda kræklingum sem opnast ekki geta sjálfsagt halda því áfram.

Okkur finnst mjög mikilvægt að velja drykki sem passa vel með matnum. Elmari finnst bjór passa best með öllum mat og nýtir þessa bók óspart til að fá góðar hugmyndir um samsetningar og þreytist ekki á að sannfæra fólk um að rauðvín sé vont með alvöru ostum. Með kræklingum er gott að drekka belgíska bjóra: belgískur hveitibjór (witbier) er klassískur. En ef þið komist í belgískan saison væri það allra best (t.d. Saison Dupont). Gueuze á líka að passa vel, sérstaklega ef kræklingarnir eru eldaðir upp úr honum í staðinn fyrir síderinn.

Að þessu sinni drukkum við Rare Vos frá Ommegang, en það er bruggfyrirtæki hér í New York fylki sem gerir frábæra bjóra með belgískum áhrifum. Hann er skemmtilega kryddaður og passaði ótrúlega vel með kræklingunum.

SJÁ UPPSKRIFT

Vikulok

Embla Ýr, systir mín, á gamla Pentax myndavél sem tekur svo skemmtilegar myndir. Hún var dugleg að taka myndir á hana þegar hún var í heimsókn hjá mér og ég hef sérstaklega gaman af þeim sem hún tók í hverfinu okkar. Mér líður eins og mitt hversdagslega umhverfi fái ævintýralegan blæ. Embla gaf mér leyfi til að birta nokkrar myndir í þessari færslu.

Mér er meinilla við að henda mat en á oft erfitt með að vera nógu skipulögð til að koma í veg fyrir það. Ísskápurinn okkar er risastór (og hávær eftir því) og á einhvern undarverðan hátt á hann það til að fyllast og ég hætti að finna hluti. Ég ætla að taka þessa ágætu konu mér til fyrirmyndar og fara að nýta frystinn meira.

Ég dáist svo að fólki sem skrifar fallega texta. Rachel á Rachel eats og Molly á Orangette eru einstaklega góðir pennar. Þær blogga bara endrum og eins en mér líður eins og það séu jólin í hvert skipti sem ég fæ skeyti um nýja færslu.

Hér er fallegt myndband um gerð kleinuhringja.

Vonandi áttuð þið góða viku!

Radísusalat með sætri basilíku og parmesanosti

Í gær kom meindýraeyðirinn aftur og skoðaði íbúðina okkar. Hann staðfesti að engin ummerki væru um mýs og hrósaði okkur í hástert fyrir hversu þrifaleg íbúðin er (svona á meðan hann stóð inni í eldhúsi í grútskítugum skóm – siður sem ég get engan veginn vanist). Ég svaf eins og steinn í fyrsta skipti í margar vikur og vaknaði endurnærð. Það er loksins farið að hægjast aðeins á hjá okkur og við erum smám saman að detta í sumargírinn. Elmar hefur lokið kennslu, hefur varið tillöguna að doktorsverkefninu sínu og öllum námskeiðum er lokið. Hann hefur því hertekið eldhúsið og er farinn að elda kvöldmat öll kvöld. Ég veit ekki alveg hvenær ég endurheimti yfirráð mín í eldhúsinu. En ég ætla ekki að kvarta (mikið) því Elmar er frábær kokkur.

Markaðurinn er yfirfullur af nýuppteknum radísum. Stórt knippi af þeim kostar bara tvo dollara og því er tilvalið að kippa með sér vendi um hverja helgi. Ég er mjög hrifin af þeim og sneiði þær oft þunnt og set þær á nýbakað brauð með smjöri og grófu sjávarsalti. En það er líka tilvalið að nota þær í salat. Ég fékk uppskriftina að þessu salati í bókinni A girl and her pig eftir April Bloomfield, eiganda The Spotted Pig (veitingastaður í West Village sem mig langar mjög mikið til að prófa). Bloomfield er bresk að uppruna og slysaðist inn í matreiðsluheiminn þegar hún missti af inntökuprófi í lögregluskóla. Hún er mjög mikill töffari og á núna þrjá vinsæla veitingastaði í borginni. Radísusalatið er einfalt, fljótlegt og (fyrir okkur) mjög ódýrt. Ég er sérstaklega hrifin af því og ætla að hafa það reglulega í matinn á meðan radísurnar prýða markaðinn.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: