Skip to content

Spagettí með kíkertum, chili og myntu

Fyrir tveimur mánuðum fluttum við frá New York og á þessum mánuðum höfum við búið inni á foreldrum okkar, troðið allri búslóðinni okkar inn á mömmu og pabba og beðið í ofvæni eftir fallegustu íbúð sem ég hef nokkurn tímann búið í. Við höfum verið að koma okkur fyrir, sankað að okkur húsgögnum – ýmist að láni eða úr Góða Hirðinum, – hringt í dagmæður í von og óvon upp á að fá pláss og reynt að gera alla þá praktísku hluti sem nýflutt fólk á að gera. Þrátt fyrir allt annríkið erum við ótrúlega afslöppuð og njótum þess í botn að vera flutt í Vesturbæinn, í íbúð sem er þrefalt stærri en litla músarholan sem við bjuggum í síðustu tvö árin í Brooklyn. Mér finnst við eiginlega vera heppnasta fólk á Íslandi.

Ég hef verið að kynnast eldhúsinu – bakað í ofninum, prófað hellurnar á eldavélinni, notið þess að raða í uppþvottavélina og elskað að geta þvegið þvottinn í eldhúsinu í stað þess að fara klyfjuð á gamla þvottahúsið í Brooklyn þar sem þvotturinn kom alltaf úr þurrkaranum lyktandi af núðlusúpu. Og þó ég sakni margra hluta, staða og fólks í New York þá er gott að vera komin heim.

Elmar gaf mér matreiðslubókina Franny’s í afmælisgjöf í sumar. Franny’s var uppáhaldsmatsölustaðurinn okkar en við borðuðum þar einungis þrisvar sökum hás verðlags. Bókin þeirra er gullfalleg og allar uppskriftirnar eru sjúklega girnilegar. Ég byrjaði á því að elda þennan einfalda en ljómandi góða pastarétt úr bókinni og hef núna gert hann tvisvar. Baunirnar og pastað gera hann mjög seðjandi, steinseljan og myntan peppa hann upp og chiliflögurnar gefa góðan hita. Þórdís elskar þennan rétt og við líka.

SJÁ UPPSKRIFT

Síðasta færslan úr Vesturheimi

Þetta er síðasta færslan mín úr Vesturheimi. Ég byrjaði að skrifa í ágúst 2010 þegar ég sá fram á langvarandi atvinnu- og athafnaleysi. Bloggið var eiginlega skapað fyrir fjölskyldu og vini sem vildu fá að fylgjast með hvað við værum að dunda okkur við hérna úti. Það kom mér því mjög skemmtilega á óvart þegar ég fékk fyrstu athugasemdirnar frá fólki sem ég hafði aldrei hitt áður. Að skrifa blogg er nefnilega stundum eins og að hugsa upphátt og vona að einhver sé að leggja við hlustir.

Bloggið var, í huga mér, alltaf bundið við dvöl okkar hérna úti. Leið til að tengja sjálfa mig heim til Íslands í gegnum mat og skrif. Mér líður því eins og ég standi á vissum tímamótum og þarf að átta mig á hvort að innblásturinn til að skrifa verði sá hinn sami þegar heim kemur. Ég ætla því að taka mér smá pásu frá bloggskrifum, einbeita mér að því að koma okkur fyrir heima og njóta þess að vera í kringum fjölskyldu og góða vini.

Takk kærlega fyrir allan stuðninginn síðustu ár og mikið vona ég að þið lítið við þegar ég fer að hamra á lyklaborðið aftur.

Brómberjasveifla

Að pakka niður stúdíóíbúð með lítinn gorm sem skríður út um allt og tætir uppúr kössum jafnóðum og við röðum ofan í þá er þolinmæðisverk. En Þórdís Yrja er svo skemmtileg að það er ekki annað hægt en að brosa út í annað og endurtaka „ó-ó“ í sífellu. Það styttist mjög í heimför og ég er komin með fiðrildi í magann – hvort það sé sökum vægs kvíða eða mikillar eftirvæntingu á ég erfitt með að segja. Ég veit þó að ég verð fegin að segja skilið við litla músakotið og ég hlakka til að búa í íbúð með svefnherbergi (herbergi til þess eins að sofa í! Með hurð sem lokar restina af íbúðinni af!).

Þar sem tollalögin heima banna manni að flytja inn áfengi þá neyðumst við til að drekka birgðirnar og gefa það sem ekki klárast til vina okkar. Ég bjó því til þennan sumarlega drykk handa okkur Elmari þegar hitinn var að buga okkur einn daginn. Fyrst býr maður til smá brómberjasafa og blandar honum síðan við gin, límónusafa og sódavatn. Úr verður svona líka ljómandi fallegur rauðbleikur frískandi sumardrykkur.

Skál!

SJÁ UPPSKRIFT

Ferskar víetnamskar vorrúllur

Við erum nýkomin úr dásamlegu ferðalagi til vina okkar í Norður-Karólínu. Þau búa í Chapel Hill sem er gróinn og fallegur lítill háskólabær. Ferðalagið var afslappandi og skemmtilegt og Þórdís eignaðist nýja litla vinkonu sem hún lítur afskaplega mikið upp til. Raunveruleikinn tók á móti okkur þegar heim kom enda þurfum við að pakka niður íbúðinni, koma kössunum í flutninga, gefa húsgögnin og skila lyklunum. Það verður því nóg að gera næstu daga. Vinkona okkar ætlar svo að lána okkur íbúðina sína á Manhattan svo við getum eytt síðustu helginni okkar laus við áhyggjur af flutningum og íbúðarskilum.

Áður en við fórum til Chapel Hill bjuggum við Elmar til þessar ljúffengu fersku vorrúllur í bakgarðinum. Þær eru mjög viðeigandi á hlýjum (eða í okkar tilfelli, heitum) sumardögum þar sem mann langar aðallega í eitthvað ferskt og létt í magann. Við bjuggum til vorrúllur með kjúklingakjöti en það má auðvitað búa til rúllur með risarækjum eða steikja portóbellósveppi ef fólk borðar ekki kjöt eða fisk.

Rúllurnar eru bestar strax og þeim er rúllað upp en þó má vefja plastfilmu utan um þær og geyma á köldum stað í einn til tvo tíma. Við vorum með þessar leiðbeiningar til hliðsjónar þegar við vorum að gera fyrstu rúllurnar. Sósan okkar var frekar sterk og það er gott að miða við þolmörk þeirra sem borða réttinn þegar chilipiparnum er bætt út í sósuna. Rosalega ljúffengt og gott og mun einfaldara og fljótlegra en það lítur út fyrir að vera.

SJÁ UPPSKRIFT

Gúrkutíð

Við flytjum heim til Íslands eftir nákvæmlega þrjár vikur og ég veit varla í hvorn fótinn ég á að stíga. Það eru komin fimm ár frá því ég hélt frá Íslandi til Edinborgar í mastersnám og smá ævintýraleit. Á þeim tímapunkti hefði mig aldrei órað fyrir því að ég myndi síðan eyða fjórum árum í einni skemmtilegustu, menningarlegustu og  fjölbreyttustu borg í heimi. Ég er búin að vera óendanlega heppin. Ég hlakka mikið til að flytja aftur til Íslands en ég veit að ég á eftir að sakna borgarinnar mjög mikið.

Eftir allt músaævintýrið í vetur og vor þá voru eigendur hússins svo góðir að veita okkur aðgang að bakgarðinum í smá tíma sem uppbót fyrir allt umstangið. Hann er, eins og sést á mynd, algjör draumur. Þórdís hefur skemmt sér vel við að liggja með okkur í hengirúminu og við njótum þess mikið að borða allar máltíðir á pallinum (þaðan sem myndin er tekin). Hitinn, garðurinn og sólin kalla á ferskan og kælandi sumardrykk. Það, og sú staðreynd að við þurfum að moka út úr vínskápnum áður en við höldum heim. Ég bjó því til þennan svalandi gindrykk með gúrku, myntu og límónu.

SJÁ UPPSKRIFT

Tacos með kjúklingi og salsa fresca

Júnímánuður í stórborginni er frekar frábær tími. Hitastigið er alveg mátulegt, stundum leikur ljúf gola við mann og þegar hitinn magnast þá kemur þrumuveður með tilheyrandi rigningu og kælir allt niður aftur. Við erum að njóta síðustu dagana okkar í borginni og reynum að vera dugleg að hitta vini og skoða nýja (og gamalkunna) staði. Í gær fórum við aftur á Brighton Beach (við Coney Island) og leyfðum Þórdísi að horfa út á hafið og leika sér í sandinum. Coney Island er stórkostlega skemmtilegur staður á sumrin. Það er mikið af alls konar fólki, leiktækin í Luna Park ganga langt fram á kvöld og á föstudagskvöldum er vikuleg flugeldasýning. Hafgolan er líka kærkomin á heitum dögum.

En þegar hlýtt er í veðri og mann langar eingöngu til að vera úti þá getur eldamennskan setið á hakanum. Við höfum ekki getað reitt okkur á loftkælinguna til þessa og því hef ég hikað við að standa yfir gaseldavélinni eða kveikja á ofninum. Lausn mín á þessum vanda er að búa til þessar einföldu kjúklingatacos. Ég kaupi tilbúinn kjúkling úti í búð og ríf hann niður. Sneiði síðan radísur og avókadó. Pækla rauðlauk og saxa ost. Svo bý ég til salsa fresca (ferska salsasósu). Úr verður ótrúlega einfaldur en ferskur og ljúffengur mexíkósur matur. Með þessu drekkur Elmar léttan bjór en ég blanda mér margarítuna mína.

Í Bandaríkjunum er mjög auðvelt að kaupa litlar tortillur úr maís sem ég glóða á gaseldavélinni. Áður en ég flutti hingað út hélt ég að tacos væri alltaf borið fram í þessu stökku skeljum sem molna strax og maður bítur í þær. Það má auðvitað nota stærri tortillurnar í þennan rétt.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: