Skip to content

Vöfflur með brúnuðu smjöri

Eftir að ég byrjaði að vinna úti þá hefur fundist minni tími til að sinna blogginu. Ég labba rösklega heim af strætóstoppistöðinni í lok dags og reyni að eyða góðum tíma með Þórdísi á meðan við græjum kvöldmat og svo tekur við kvöldbað hennar og svæfing. Myndavélin liggur ónotuð uppi í hillu og ég verð að viðurkenna að ég finn ekki fyrir nógu miklum innblæstri við myndatöku þegar allt er orðið dimmt og kvöldrútínan rekur á eftir manni.

Það hefur þó margt skemmtilegt gerst undanfarið. Ég fékk að vera með í kökublaði Gestgjafans og bakaði fjórar ljúffengar kökur í tilefni þess. Ég er stóránægð með hvernig tókst til og blaðið er stútfullt af góðum uppskriftum. Ég hef lesið Gestgjafann í fjöldamörg ár og finnst hálfsúrrealískt að þarna í miðju blaði er stór mynd af mér ásamt viðtali. Sérstaklega með tilliti til þess að fyrir fimm árum síðan þorði ég varla að kveikja á ofninum og þurfti að stunda djúpöndun þegar ég átti að elda fyrir aðra.

Ég landaði líka nýrri vinnu sem ég er afar spennt fyrir og get ekki beðið eftir að byrja í. Elmar keypti handa mér blóm daginn sem ég skrifaði undir ráðningarsamning og við héldum upp á það með vínglasi niður í bæ.

Skammdegið er aðeins farið að bíta mig í afturendann og ég finn að ég þarf að venjast aftur myrkrinu sem skellur á alltof snemma og dregur sig í hlé alltof seint. Ég hef þó sett upp jólaseríur og ætla að fara að skreyta íbúðina til að lífga aðeins upp á tilveruna.

Fyrir nokkrum vikum síðan kvartaði ég sáran undan því að hafa ekki fundið hina einu sönnu vöffluuppskrift. Og þó að ég haldi áfram leit minni að fullkomnun þá hef ég staldrað aðeins við þessar vöfflur og búið þær til nokkrar helgar í röð. Þær eru mjög góðar, eilítið stökkar að utan og með bragði af dökkum púðursykri og brúnuðu smjöri. Svolítið syndsamlegar en kaldar og dimmar vetrarhelgar kalla á smá synd og sælu.

SJÁ UPPSKRIFT

Bakaðir kleinuhringir með brúnuðu smjöri og súkkulaðiglassúr

Ég ætla að segja ykkur frá þessum kleinuhringjum. En fyrst verð ég að dásama íslenska náttúru á fallegum vetrardögum eins og þeim sem við eyddum upp í sveit í bústaði vina okkar um síðustu helgi. Veðrið var stillt – það var snjór yfir jörðu og frost. Næturhimininn skartaði stjörnuprúð líkt og ég hef ekki séð í áraraðir og dagarnir voru letilegir og snérust um mat og drykk. Ég saknaði þess mikið að geta ekki leitað í kyrrðina og fjallaloftið á Íslandi þegar ég bjó í New York. Stundum þegar ég gekk um götur borgarinnar með sírenuvælið í eyrunum, mannmergðina í kringum mig og eilítið ágengan fnyk í nösunum þá lét ég mig dreyma um sveitakyrrð, spörfuglasöng og útsýni um víðan völl. Þetta var útsýnið mitt þegar ég drakk fyrsta kaffibollann á laugardagsmorgninum og ég naut þess mjög:

En þessi færsla átti víst að fjalla um bakaða kleinuhringi með brúnuðu smjöri og súkkulaðiglassúr. Getum við öll sammælst um það að brúnað smjör sé mögulega best heimi? Því það gefur bakkelsi svo yndislega mikinn karakter. Það sem væri annars frekar staðlað kökudeig verður að einhverju einstöku með þessu móti – eins og í þessum kleinuhringjum. Ég bjó til einfaldan súkkulaðiglassúr ofan á og sáldraði ristuðu kókosmjöli yfir. Kleinuhringirnir voru svo borðaðir með bestu lyst í brönsboði í Vestubænum.

SJÁ UPPSKRIFT

Sæt kartöflusúpa með karrí & geitaostsskonsur

Þórdís er tiltölulega nýbyrjuð hjá dagmömmu og er því farin að kynnast alls kyns nýjum veirum og veikindum. Á þeim dögum sem henni líður betur reynum við að nýta fallega haustveðrið í góða göngutúra saman. Við skoðum kisurnar í Vestubænum, löbbum niður að sjó og keyrum rauðu kerruna hennar upp og niður Laugaveginn. Um daginn fórum við á stórskemmtilega barnatónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu þar sem Þórdís fylgdist með undrandi og skeptísk á svipinn.

Í þessu haustlega veðri er mjög viðeigandi að fá sér súpu. Það þarf þó alltaf að ýta svolítið við mér til að fá mig til að elda súpu og í raun er eina skothelda leiðin í þeirri viðreynslu að benda mér á gott brauð sem hægt er að baka eða rista til að hafa með. Það var á köldum degi fyrr í mánuðinum þar sem ég rakst á þessa súpu og þessar skonsur hjá Joy the Baker þegar ég fann mig knúna til að standa yfir mallandi potti.

Súpan er mjög góð – krydduð og seðjandi en kannski eru það geitaostsskonsurnar sem fanga helst athyglina. Þær eru alveg frábærar – mjúkar, volgar og með eilítið stökkri skorpu. Það allra besta við þær er að það tekur örfáar mínutur að búa til deigið og aðeins korter að baka þær inni í ofni.

SJÁ UPPSKRIFT

Brooklyn

,,Jæja, við erum ekki í Brooklyn lengur,“ hugsaði ég þegar ég labbaði í strætó þriðjudagsmorguninn. Jörðin var þakin snjó og ennþá dimmt úti. Haustið er langt, litríkt og hlýtt úti í New York og það örlaði á smá söknuði hjá mér. En svo, eins og gerist oft þegar ég fyllist slíkri nostalgíu, man ég eftir músunum, þrengslunum og látunum. Ég andaði að mér fersku loftinu, hlustaði á fuglana syngja af ákafa í reynitrjánum og mundi hvað mér finnst í raun yndislegt að vera komin aftur heim í Vesturbæinn.

Í gamla hverfinu okkar leynist ítalskur veitingastaður – Franny’s (sem ég hef bloggað um áður, sjá hér). Staðurinn er ekki bara frægur fyrir afbragðs ítalskan mat heldur einnig fyrir skemmtilegt og framúrstefnulegt drykkjarval. Drykkirnir eru oft árstíðabundnir og nota hráefni sem eru við hæfi hverju sinni. Einn frægasti drykkurinn þeirra er þeirra túlkun á hanastélinu Brooklyn. Ég varð því mjög glöð þegar ég fann uppskriftina að honum í fallegu matreiðslubókinni þeirra og var fljót til að blanda hann þegar við fengum helgarpössun um daginn. Hann er eilítið súr, eilítið sætur og blandaður með uppáhaldsáfenginu mínu – bourboni. Fullkominn haustdrykkur til að skála með ykkar uppáhalds.

(Í þessum dansi hausts og veturs má ég til með að mæla með Heitum Teit, sem er allra meina bót þegar kvefpestir fara að skjóta upp sínum ljóta kolli.)

SJÁ UPPSKRIFT

Ofnbakaðir kartöflubátar með parmesan og steinselju

Frænka Elmars er enn eitt dæmið um hvað við eigum góða að. Hún og hennar fjölskylda eiga bústað og land þar sem þau rækta alls kyns grænmeti. Við höfum notið uppskeru þeirra nokkrum sinnum og pössum alltaf að elda bara það besta úr pokunum sem þau hafa fært okkur.

Þegar við fengum poka af kartöflum úr sveitinni þá ákváðum við að ofnbaka þær og hafa með kræklingum. Við Elmar erum mjög gefin fyrir kræklinga (sjá t.d. hér og hér) og þegar við viljum gera vel við okkur þá skellum við hóflegum skammti í pott og höfum annað hvort baguette eða kartöflur með. Við urðum fyrir þó nokkrum vonbrigðum þegar við fengum okkur kræklinga á ónefndum matsölustað í borginni og fengum picnic (já, úr gulu dósunum) ,kartöflu’strá með bláskelinni. Kannski er ég bara orðin svona snobbuð en ég mæli eindregið með því að sleppa picnic og baka þennan kartöflurétt til að hafa með næstum því öllu sem ykkur dettur í hug. Ég elda hann reglulega og hann fær alltaf góða dóma hjá þeim sem smakka hann. Það þýðir samt að ég styðst ekki við nákvæm hlutföll og uppskriftin er eftir því.

SJÁ UPPSKRIFT

Leitin að vöfflunum

Undanfarnar vikur hef ég reynt mig áfram með nokkrar vöffluuppskriftir í þeirri von um að finna hina einu réttu. Mig langaði í vöfflujárn allan þann tíma sem við bjuggum í Bandaríkjunum en hélt aftur af mér í þeim raftækjakaupum. Ég varð því himinlifandi þegar ég komst að því að Elmar ætti klassískt vöfflujárn og ennþá glaðari þegar ég fékk belgískt vöfflujárn í þrítugsafmælisgjöf frá systur minni. Nú skyldi ég sko baka vöfflur um hverja einustu helgi.

photo (7)

Einhvern veginn hélt ég að þetta yrði ekkert svo flókið mál. Ég meina, ég er orðin sérfræðingur í amerískum pönnukökubakstri (sjá hér) og það er nú ekkert svo mikill munur á þessu tvennu. Frá því að við fluttum í Vesturbæinn hef ég bakað vöfflur um hverja helgi. En ég hef orðið fyrir vonbrigðum í hvert einasta skipti.

Þær eru ýmist of þurrar, of bragðlitlar eða of þungar í sér. Mér er því farið að líða eins og Gullinbrá í sögunni um ljóshærðu vandfýsnu stúlkuna og kynni hennar af bjarnafjölskyldu. Vöfflu-nirvana mitt virðist utan seilingar og ég gæti farið að örvænta ef svona heldur lengi áfram. Því hef ég enga uppskrift handa ykkur í þetta skiptið – aðeins smá væl og myndir af allt-í-læ vöfflum sem reyndust ágætar með mjög miklu kanadísku hlynsírópi hellt yfir. Og þar sem mér dettur ekki í hug að bjóða ykkur upp á annað en það allra besta þá bíður vöffluuppskrift betri tíma.

%d bloggurum líkar þetta: