Skip to content

Hunangskjúklingur með lofnarblómum og sítrónu

Ég er lengi búin að vera vandræðalega skotin í Rachel Khoo, þáttastjórnanda The Little Paris Kitchen. Hún útskrifaðist frá hinum virta listaháskóla, Central Saint Martin í London, og eftir nokkur ár í tískubransanum lét hún gamlan draum rætast. Hún fluttist til Parísar, gerðist au pair og innritaði sig í Le Cordon Bleu matreiðsluskólann. Ég hrífst af sögum þar sem fólk skiptir algjörlega um starfsvettvang. Kannski vegna þess að ég er í doktorsnámi í fagi sem ég elska (heimspeki) en veit ekki hvort ég geti hugsað mér að vinna við það í framtíðinni. Allt nám er þó gott veganesti og ég er sannfærð um að heimspekin sé jafnvel besta veganestið.

Talandi um nesti. Þetta er fyrsta uppskriftin sem ég prófaði úr nýju matreiðslubókinni hennar Khoo. Ég á fullt af þurrkuðum lofnarblómum (lavender) upp í skáp en ég hafði keypt risapoka þegar ég bjó til kornasápu um árið. Ég var hálfefins á meðan kjúklingurinn eldaðist því mér fannst blómalyktin svo sterk. En kjúklingurinn var dásamlegur! Hunangið gerði það að verkum að ysta lag kjúklingsins varð dökkt og stökkt og lofnarblómsbragðið var milt og ljúft. Þetta er einfaldur en öðruvísi kjúklingaréttur.

SJÁ UPPSKRIFT

Vikulok

Það kólnaði hjá okkur og ég greip tækifærið og bakaði klassíska skúffuköku (í fyrsta skiptið á ævinni). Uppskriftina fékk ég hjá Ljúfmetis-Svövu og hún heppnaðist mjög vel. Kakan var borðuð með góðri vinkonu okkar á meðan við syrgðum umhverfisráðuneytið og veltum fyrir okkur hver staða umhverfisverndar á Íslandi verður eftir fjögur ár. Svona í bland við önnur gleðilegri og minna alvarleg umræðuefni.

Árni vinur minn vann hörðum höndum ásamt góðu fólki að sjónvarpsþætti sem nú hefur hafið göngu sína á Stöð 2. Hið blómlega bú er sýnt á miðvikudagskvöldum og ég hlakka til að sjá upptökur af þáttunum þegar ég kem heim í sumar.

vikulok9

Mig langar á þennan markað og kaupa ósköpin öll af blómum og gömlum eldhúsvarningi.

Ég er búin að hlusta á þessa upptöku af Lay Low stanslaust. Lagið kemur mér í skemmtilegan sumarfíling.

Vonandi áttuð þið góða viku!

Kaldar núðlur með pækluðu grænmeti og kóríander

Það er komið sumar í borginni og ég gæti ekki verið glaðari. Konurnar eru farnar að ganga í fallegu sumarkjólunum sínum, garðurinn er þéttsetinn og bændamarkaðurinn verður meira spennandi með hverri vikunni. Ég ætla njóta hitans og rakans til fullnustu áður en ég flyt aftur heim til Íslands. Eini gallinn á gjöf Njarðar er sá að íbúðin okkar verður mjög heit og það er erfitt að berjast gegn þunga loftinu sem sest þar að. Eigendurnir eru ekki byrjaðir að kæla og því reyni ég að kveikja sem minnst á eldavélinni og ég er í sjálfskipuðu banni frá ofninum þar til veðrið kólnar eða kveikt verður á kælingunni.

Ég var að fletta í gegnum nýjasta tölublað Bon Appétit en þar er að finna mjög sumarlegar uppskriftir. Meðal þeirra er þessi fíni núðlusalatsréttur sem er einfaldur, ferskur, ódýr og maður þarf aðeins að kveikja á eldavélinni til að sjóða núðlurnar. Allt hráefni ætti að fást í hann heima nema kannski daikon*. Daikon er japönsk rófa, hvít að lit, fremur vatnsmikil og mild á bragðið. Það ætti samt ekki að saka að skipta henni út fyrir radísur eða jafnvel venjulega rófu. Við vorum mjög hrifin af þessum rétti og ég hugsa að hann verður vikulega á matseðlinum í sumar.

*Daikon er víst kínahreðka og ætti að fást í Bónus (takk fyrir upplýsingarnar Inga Hlín).

SJÁ UPPSKRIFT

Bourbon íste

Ég hef ekki verið nógu dugleg að setja inn færslur undanfarið en það hefur verið í nógu að snúast. Elmar fór til Riga á ráðstefnu og ég var með systur mína í heimsókn. Hún kemur á hverju ári í heimsókn til okkar og þessi síðasta ferð hennar var jafnvel sú besta. Við áttum mjög góðar stundir saman og brölluðum margt skemmtilegt. Við eyddum einum degi bara tvær saman í Williamburg og villtumst glorhungraðar og þyrstar inn á veitingastaðinn Lodge. Þar pantaði Embla sér einn besta bourbondrykk sem ég hef smakkað. Ég vissi að ég yrði að reyna að búa hann til sjálf.

Það reyndist ekki erfitt að blanda hann sjálf heima. Bourbon er í miklu uppáhaldi hjá mér en ég hef oftast tengt drykki blandaða með bourboni við veturinn. Þessi drykkur breytir því. Hann er mjög frískandi, bourbonið og ísteið passa vel saman og hann rennur jafnvel of auðveldlega niður – fullkominn sumardrykkur. 

Tónlist með: Summertime með Ellu Fitzgerald og Louis Armstrong

SJÁ UPPSKRIFT

Soba með wakame og sesamfræjum

Elmar fer til Riga í dag þar sem hann mun eyða nokkrum dögum í að hlusta á og tala um heimspeki. Ég væri örugglega svolítið afbrýðissöm ef ég ætti ekki von á systur minni á allra næstu dögum. Ég hlakka ofboðslega mikið til enda eru ferðir hennar til New York með skemmtilegri viðburðum ársins. Við erum ansi samstilltar þegar það kemur að ferðalögum. Einu búðirnar sem farið er í eru vín-, matar- og búsáhaldabúðir og dagarnir snúast um rólega göngutúra, bakstur, mat og drykki.

Þessi réttur er kannski ekki allra. Ég er mjög hrifin af þurrkuðum þara og get auðveldlega borðað heilan pakka ein – sérstaklega með bjór. En sumir eru ekki á sama máli og til að fíla þennan rétt þá þarf manni að finnast þari bragðgóður. Annars má örugglega sleppa þaranum og setja ofnbakað eggaldin í staðinn. Jafnvægið í réttinum er  með besta móti – ferskleikinn frá agúrkunum og kryddjurtunum vegur vel á móti seltunni í þaranum og sesamfræin gefa smá kröns. Sósan er sæt, súr og með smá chilihita. Þetta er stór skammtur og seðjandi. Hann entist okkur Elmari í þrjár máltíðir.

SJÁ UPPSKRIFT

Vikulok

Mikið líður tíminn hratt! Maímánuður löngu byrjaður, skólaönninni fer að ljúka (GAH!) og allt í einu er allt orðið fagurgrænt í borginni. Ég keypti mér basilplöntu á markaðinum í gær og ætla að halda henni lifandi. Plöntur hafa aldrei lifað lengi heima hjá mér.

Einn uppáhaldsljósmyndarinn minn fór í ferðalag til Íslands fyrir skömmu og nú er hún farin að setja myndirnar inn á vefsíðu sína. Ég er yfir mig hrifin.

Systir mín pantaði sér bók af Amazon sem kom til mín í síðustu viku. Ég hef ekki hætt að skoða hana og hreinlega verð að eignast hana sjálf. Bouchon Bakery er mögulega fullkomnasta bakstursbók sem ég hef augum litið.

Það er sérstaklega gaman að uppgötva ný og skemmtileg íslensk matarblogg. Ég rakst nýlega á bloggið Matarkarl og hef skemmt mér mikið við að lesa það.

Vonandi áttuð þið góða viku!

%d bloggurum líkar þetta: