Skip to content

Ananas- og myntuvodka

Ég er svo fegin að vera alveg laus við veturinn, við mýsnar (vonandi!) og sé fram á notalegar, hlýjar og sólríkar vikur áður en við flytjumst búferlum aftur til Íslands. Það er svo margt sem við eigum eftir að sakna héðan að það þyrmir stundum yfir mig. Ég reyni að draga djúpt andann og sætta mig við að ég get engan veginn komist yfir allt sem mig langar að gera, borða, drekka og sjá. Embla Ýr, systir mín, kemur í næstu viku og við ætlum að fara í nokkrar pílagrímsferðir saman.

Með rísandi sól og hækkandi hitastigi má búa til eitthvað með smá hitabeltisþema. Ég tók fram vodkaflöskuna okkar og ákvað að búa til ananas- og myntuvodka. Það er fáránlega einfalt að búa til bragðbættan vodka. Í rauninni má taka hvaða ávöxt sem er (eða chili, eða kryddjurtir) og láta hann liggja í vodkalegi í einhvern tíma – Kristín Gróa bjó til dæmis til þennan girnilega jarðarberjavodka í fyrrasumar. Það er í raun mjög fínt að nota einhvern ódýran vodka í þennan drykk, það er bara frekar kaldhæðnislegt að ódýrasta vodkað í vínbúðinni minni er hið fína íslenska vodka Reyka.

SJÁ UPPSKRIFT

Súkkulaðispesíur með sjávarsalti

Í hverfinu okkar er gúrmet-, osta- og bjórbúðin Brooklyn Larder. Það er fátt sem okkur þykir skemmtilegra en að kíkja þangað inn, skoða ostaúrvalið og allt það kræsilega sem búðin hefur upp á að bjóða. En hún er dýr og því förum við aldrei hlaðin þaðan út heldur erum í mesta lagi með lítinn poka með þunnum sneiðum af osti og kannski smá hráskinku. Ein af gersemum búðarinnar eru smjörríkar súkkulaðismákökur með sjávarsalti. Ég gæti bókstaflega borðað þær allan liðlangan daginn án þess að fá nóg. En verðmiðinn setur græðgi minni mörk.

Um daginn fór ég í búðina og horfði löngunaraugum á fallegu kökurnar en gat ekki fengið mig til að kaupa þær (það er stundum kvöð að vera sælkeri á námsmannakjörum). Ég einsetti mér því að föndra uppskrift sem myndi jafnast á við smákökurnar þeirra. Ég lá yfir bókum, reiknaði hlutföll (og mér finnst sko ekkert gaman að reikna) og þetta er afraksturinn. Þessar kökur eru engu síðri og eru afskaplega fljótar að klárast. Galdurinn er að nota mikið smjör, mikið og dökkt súkkulaði, litla dökka súkkulaðibita og saltflögur sem bráðna auðveldlega í munni.

SJÁ UPPSKRIFT

Vikulok

Ég ætla að reyna að endurvekja sunnudagsfærslurnar mínar. Ég er komin í þrjóskukast og ætla ekki að leyfa þessum músagangi að trufla rútínu okkar lengur.

Við fórum að skoða kirsuberjatrén í listigarðinum (Brooklyn Botanic Garden) í gær. Þessi garður er stór og einstaklega fallegur. Ég mæli með að fólk geri sér ferð í hann sé það í New York (psst, það er ókeypis inn í hann á milli 10 og 12 á laugardagsmorgnum).

Kannist þið við Sriracha sósuna? Ég veit reyndar ekki hvort hún er seld heima á Íslandi en við eigum alltaf flösku af henni inni í ísskáp. Elmar er forfallinn aðdáandi hennar og getur sett hana út á flestan mat í stórum skömmtum. Ég vissi ekkert um merka sögu framleiðandans, Huy Fong Foods, áður en ég rakst á þessa grein í Los Angeles Times.

Þessi stelpa er farin að skríða og það má ekki líta af henni lengur. Hún er ansi ánægð með sjálfa sig.

Ég hafði gaman af því að lesa þessa færslu á A Sweet Spoonful. Ég finn einmitt fyrir því sjálf að þegar lífið sparkar í rassinn á mér eða þegar ég borða mikið einsömul að ég gæti ekki nógu vel að því að borða góðan næringarríkan mat. Það var ansi oft popp og súkkulaði með rauðvínsglasi í kvöldmatinn hjá mér þegar ég bjó ein.

Af hverju á ég ekki vöfflujárn? Mér er fyrirmunað að skilja það. Ég elska vöfflur en hef aldrei látið verða af því að kaupa járn og þar sem að styttist í brottför get ég engan veginn réttlætt slík útgjöld. Ætli það verði ekki fyrstu kaupin hjá mér þegar ég kem heim. Mig langar nefnilega svo mikið í þessar vöfflur.

Ég vona að þið áttuð góða viku. Ef ekki þá má alltaf blanda sér smá tekíla, hlusta á bossanova og gleyma sér um stund.

Agave margaríta

Þegar ég var orðin nokkuð viss um að búið væri að loka öllum glufum inn í íbúðina birtist önnur mús. Ég er orðin mjög þreytt á þessu ástandi og hef nokkrum sinnum verið komin á fremsta hlunn við að pakka öllu dótinu okkar og flýja heim til Íslands. En svo man ég að það er snjór og frost heima, við erum ekki búin að fá íbúð og sólin skín skært í Brooklyn. Því sit ég sem fastast. Það styttist í voruppskeruna á markaðinum og ég er með langan lista af uppskriftum sem ég ætlaði að elda. Ég bít tönnum saman, bíð eftir að verktakinn komi og troði glerbrotum og steinsteypu í glufurnar og reyni mitt besta að halda mínu striki.

Hræðsla mín við mýsnar fer óendanlega mikið í taugarnar á mér. En þegar taugarnar eru útþandar og ég orðin þreytt þá finnst mér gott að fá mér einn sterkan drykk til að róa mig niður. Það virkar líka prýðisvel í mínu tilfelli. Í tilefni þess að cinco de mayo er á næsta leiti þá prófaði ég að blanda þessa einföldu og ljúffengu margarítu. Ég er löngu búin að gefast upp á alltof sætum frosnum margarítum í risaglasi – eins og ég var nú hrifin af þeim í den. Núna finnast mér þær langbestar hristar eða hrærðar, ýmist í fallegu glasi eða bara lítilli krukku. Þessi uppskrift sleppir því að nota triple sec en notar í staðinn ljóst agave síróp – sem er snilld því tekíla er einmitt unnið úr agaveplöntunni. Súr, eilítið sæt, köld og áfeng margaríta.

SJÁ UPPSKRIFT

Spagettí með risarækjum og klettasalati

Gleðilegt sumar!

Uppáhaldsárstíðin mín er handan við hornið og ég er yfir mig hrifin að sjá að laufin eru farin að þekja trjágreinar og fuglasöngurinn stigmagnast frá degi til dags. Ég tek sérstaklega vel eftir hverri einustu breytingu þessa dagana því að þetta verður síðasta vorið og síðasta sumarið okkar í New York í bili. Við höfum ákveðið að flytja heim til Íslands í sumar, ári á undan áætlun. Við tókum þessa ákvörðun fyrir rúmum mánuði síðan en ég hef ekki mannað mig upp í að skrifa það og birta opinberlega á internetinu. Ástæðurnar eru nokkrar og þó við séum fullviss um að þetta sé rétt ákvörðun þá þykir okkur samt svolítið erfitt að kveðja það líf sem við höfum skapað okkur síðastliðin fjögur ár.

Við kvöddum veturinn og buðum sumarið velkomið með þessum fína pastarétti. Rétturinn er einfaldur í matreiðslu með fáum hráefnum en útkoman er ansi ljúffeng. Ég elda sjaldan risarækjur (ég á erfitt með að sætta mig við umhverfisáhrif eldis þeirra) en stóðst ekki mátið þegar ég las mér til um þennan rétt í Ítalíubók Jamie Olivers. Ég var samt svolítið viðutan í eldhúsinu í þetta skiptið og ofeldaði rækjurnar. Ég mæli því með að lesa uppskriftina vel áður en hafist er handa til að koma í veg fyrir slíkt slys.

SJÁ UPPSKRIFT

Greipósa

Ég ætti kannski ekki að pína ykkur með þessu en vorið er farið að skarta sínu fegursta í hverfinu okkar. Prospect Heights er mjög gróið hverfi með mörgum magnólíu- og kirsuberjatrjám sem keppast nú við að opna blóm sín. Við tökum vorinu fagnandi og hlökkum til að eyða góðum tíma saman í garðinum í sumar.

Ef ég byggi heima í þessu langvarandi vetrarhreti, þá myndi ég bjóða góðu fólki í bröns um helgina. Ég myndi baka ólívuolíuköku, steikja ofnbakaðar kartöflur með spínati og beikoni, hleypa egg og búa til stóra könnu af þessum frábæra kokkteil. Uppskriftin er innblásin af hinni sívinsælu mímósu (appelsínusafi í kampavíni) en mér finnst þessi drykkur margfalt betri. Ferskur greipsafi blandaður saman við Campari og freyðivín.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: