
Það er eitthvað hippalegt við ferskjubökur. Ég veit ekki alveg hvaðan þau tengsl koma en einhvern veginn, í mínum huga, eru einhver órjúfanleg vensl á milli ferskja í böku og hippa. Ef til vill ímynda ég mér að þegar allir vildu elska hver annan (í kannski einum of bókstaflegum skilningi) og reykja ógrynni af grasi þá hafi þessi réttur komið við sögu. En þetta er auðvitað bara tóm vitleysa í mér því að það þarf hvorki að vera hippi né grasunnandi til þess að falla fyrir þessum ávaxtaríka unaði í bökuskel.

Ég hef bakað og fjallað um amerískar bökur áður þar sem ég fór út í nokkur smáatriði og ráðleggingar til að búa til vel heppnaða böku. Það er kannski ekki skrítið að Joy the Baker segi að ,baka sé ást’, því bökuskelin krefst alúðar, þolinmæðar og blíðra handtaka. Í rauninni veltur farsæll árangur bökugerðar alfarið á því að smjörinu í deiginu sé leyft að haldast köldu alveg fram að því að hún er sett í ofninn. Ef maður er með heitar hendur þá er gott að vera með skál af klakafylltu vatni til að kæla hendurnar á milli þess sem deiginu er þjappað saman. Eldhúsið má ekki vera of heitt (viftan var á fullu í sjóðbullandi heitu eldhúsinu mínu) og gott er að fletja deigið út eins langt frá ofninum og pláss leyfir.
Það skemmtilega við þessar bökur (fyrir utan hversu tilkomumiklar og ljúffengar þær eru) er að maður getur sett hvaða ávexti sem er í fyllinguna og fylgt þannig því besta sem er í boði í búðinni eða náttúrunni. Á þessum árstíma eru markaðirnir í New York fullir af ilmandi ferskjum og nektarínum og ég nældi mér í sætustu ferskjur sem ég hef á ævi minni smakkað. Ég ákvað að nota frosin bláber þar sem bláberin í búðinni voru ansi lúin á að líta. Ef þið búið í Reykjavík þá veit ég að Kostur flytur inn ávexti og grænmeti frá New York einu sinni í viku og hver veit nema þið getið gripið girnilegar ferskjur þar og hent í eina svona bökuuppskrift. Ég mæli með því.

Þessi baka er sigurvegari. Hún er besta baka sem ég hef búið til frá því að ég fór að henda slíkum bakstri inn í ofn. Ferskjurnar voru svo sætar að ég þurfti ekki að nota mikinn sykur (eins og maður þarf oft að gera með epli, perur og rabarbara), bökuskelin var fullkomin og bráðnaði í munni ásamt ávöxtunum. Ég bar bökuna fram með rjóma, þeyttum ásamt vanilludropum og örlitlum flórsykri. Vinkona okkar (hæ Tinna!) sem var í kvöldmat sagðist ekki vera hrifin af bökum en að þessi hafi verið einstaklega gómsæt. Ég kýs að trúa henni því ég get varla haldið aftur af því að stinga gaffli ofan í afgangana sem felast inni í ísskáp.
Ekki vera hrædd. Búið til böku.
