Skip to content

Posts from the ‘Bakstur’ Category

Rabarbaraskúffukaka

Ég næ alls ekki að blogga eins reglulega og mig langar þessa dagana. Við erum á reglulegum þeytingi á milli sveita hérna fyrir norðan og erum svo heppin að matar- og kaffiboð eru svo tíð að ég næ varla að melta á milli heimsókna. Við mættum líka í eitt það skemmtilegasta brúðkaup sem ég hef verið viðstödd en góðvinir okkar létu pússa sig saman á heitum sólríkum degi í Hrísey og buðu upp á alíslenskt bakkelsi, kaffi, kvöldmat og dansiball um kvöldið. Þetta fallega lag er búið að óma í hausnum á mér síðan.

Bakstur, eldamennska, bloggg, lærdómur og vinna hefur því verið í miklu undanhaldi síðustu daga og vikur.  Og þó að samviskubitspúkinn pikki í öxlina af og til þá má alltaf drekkja honum í fallegu sundlauginni í Þelamörk eða bursta hann af sér í sveitasælunni í Skíðadal.

Eftir langt hlé frá bakstri ákvað ég að kíkja í rabarbarabeðið hjá tengdamóður minni og búa til þessa léttu og sumarlegu köku. Kakan er mjög einföld og passar mátulega ofan í meðalstóra ofnskúffu. Það mætti því segja að þessi kaka sé tegund af skúffuköku. Ég hafði smá áhyggjur af því að botninn yrði alltof þunnur þar sem gert var ráð fyrir eilítið minna bökunarformi í upphaflegri uppskrift en það voru allir sammála um að kakan væri stórgóð með þessum þunna botni, rabarbaralagi og hrönglinu ofan á.

Rabarbarinn er látinn liggja í sykri og sítrussafa áður en honum er dreift yfir kökudeigið og það gerir það að verkum að hann heldur sínu sérkennilega súra bragði án þess að það valdi andlitsgrettum. Þið skulið samt hella safanum sem rabarbarinn liggur í yfir kökuna til að fá rétt bragð og sætumagn.

SJÁ UPPSKRIFT

Bananamöffins með espressó og súkkulaðibitum

Það líður langt á milli færslna hjá mér þessa dagana en við Elmar erum búin að vera á smá þeytingi og erum loksins komin norður í Eyjafjörð þar sem við erum í góðu yfirlæti hjá fjölskyldu hans. Eins mikið og ég elska Brooklyn og New York þá kann ég vel að meta kyrrðina, rigninguna og allt það ferska loft sem hitabylgjan í Bandaríkjunum bauð ekki upp á.

Við Embla Ýr bökuðum þessar möffins saman áður en ég hélt norður og þær voru einstaklega gott nesti á þjóðveginum. Það eru reyndar ófáar færslur á þessu bloggi sem eru einhvers konar útfærsla á kaffi- og súkkulaðiblöndu og því þarf ég kannski ekki að lýsa því í smáatriðum hvað mér finnst það tvennt gott saman og í miklu magni. Það er ríkt bananabragð af þessum möffins en espressóið og súkkulaðið kemur í veg fyrir að bakkelsið verður of væmið. Ef þið viljið gera vel við ykkur þá eru þær sérstaklega góðar með sterkum kaffibolla á sunnudagsmorgni.

SJÁ UPPSKRIFT

Súkkulaðibitakökur með ristuðum kókos

Við áttum alveg frábæra helgi í borginni og erum ansi brún og sælleg eftir allt húllumhæið. Guðbjört, vinkona okkar, vinnur hjá Bloomberg fréttaveitunni í borginni og var svo góð að bjóða okkur með á sumarhátið fyrirtækisins. Við vissum að þetta væri ansi vel útilátin hátíð en okkur grunaði kannski ekki hversu langt þetta var frá grilluðum pylsum og gosi. Þeir höfðu leigt eyju í East River og buðu upp á heilgrillaðan grís á teini, mexíkóskan mat, indverskan mat, grillaðan fisk, hamborgara, pylsur, bjór, sangríur, gos og ís. Þarna mátti fara í míní-golf, paintball, fótbolta og alls kyns leiktæki. Allt í boði fyrirtækisins. Við skemmtum okkur alveg stórkostlega, Elmar vann paintballkeppni og ég brann á öxlunum.

Það eru bara örfáir dagar síðan ég lofaði sjálfri mér að kveikja ekki á ofninum það sem eftir lifir sumars. Eldhúsið okkar er innst í litlu stúdíóíbúðinni okkar, er gluggalaust og ofninn er risastór. Þegar loftkælingin er ekki í gangi (en henni er stjórnað af eigendunum uppi) þá er það ekki heiglum hent að fýra upp í skrímslinu því innan nokkurra mínútna verður íbúðin alveg bullsjóðandi heit. En mig langaði bara svo mikið í smákökur að ég stillti vifturnar á fullt, sneri rofanum og reyndi að hafa hraðar hendur. Og útkoman var alveg þess virði – súkkulaðibitakökur með brúnuðu smjöri og kókos. Reyndar fannst mér kókosbragðið heldur milt og mæli með að skella smá meira kókosmjöli heldur en uppskriftin kveður á um.

SJÁ UPPSKRIFT

Smábökur með súrum kirsuberjum

Ég reyni eftir fremsta megni að setja aðeins inn uppskriftir sem nota hráefni sem ég ímynda mér að þið gætuð nálgast heima á Íslandi. Stundum gengur það ekki alveg eftir, sérstaklega þar sem úrval úti á landi er oft ekki það sama og í Reykjavík. Ég vona því að þið fyrirgefið mér að ég skuli setja hér inn uppskrift að litlum bökum sem eru fylltar með berjum sem ég þykist nokkuð viss um að séu aldrei til heima.

Ég fór nefnilega á markaðinn um helgina og gladdist alveg ógurlega þegar ég sá að ekki aðeins voru jarðarber til sölu heldur líka kirsuber, bláber, hindber og þessar litlu gersemar. Þetta er sérstök tegund af kirsuberjum, súr kirsuber (sour cherries), og uppskera þeirra er bæði takmörkuð og endist aðeins í stuttan tíma á hverju sumri.  Ég hafði aldrei smakkað þau áður og vissi aðeins að þau eru mjög vinsæl meðal bakara. Svo vinsæl að það var hreinlega setið um hverja einustu öskju. Kannski var það óléttubumban mín ógurlega sem gerði það að verkum að ég náði að tryggja mér tvær öskjur án þess að þurfa að frekjast mikið. Ég smakkaði eitt ber á leiðinni heim og varð strax hrifin af súru bragðinu sem þó hafði einhverja sætu til að bera.

En auðvitað má baka svona smábökur með hvers kyns fyllingu – eplum, nektarínum, plómum, bláberjum eða jafnvel með ferskjum og bourboni. Bökurnar sjálfar eru svolítið fyrirhafnarmiklar, það þarf að kæla deigið oft og mörgum sinnum til að smjörið í því bráðni ekki og svo það haldi lögun sinni. Það var reyndar svo heitt inni hjá okkur þennan dag (og eigandinn ekki búinn að kveikja á loftkælingunni, okkur til mikillar armæðu) að ég þurfti að vinna mjög hratt til að klúðra deiginu ekki algjörlega. Og ekki skánaði hitastigið þegar ég kveikti á tvöfalda ofninum okkar. Það gæti því hugsast að ég þurfi að bíta í það súra epli að hætta öllum bakstri þangað til ég kem til Íslands. En þangað til eigum við fullt af ljúffengum litlum bökum með súrsætri kirsuberjafyllingu (sem eru svona líka sniðugar í lautarferð).

Þessar bökur eru bestar samdægurs en það má líka geyma þær í kæli í 1 – 2 daga, skelin helst samt ekki mjög stökkt fram yfir einn dag.

SJÁ UPPSKRIFT

Afmæliskaka Elmars

Elmar átti afmæli í gær. Við lögðum skólabækurnar til hliðar og ákváðum að eiga rólegan dag saman. Við fórum á uppáhaldsbarinn okkar, Bierkraft, sátum úti undir sólarhlíf, borðuðum osta og Elmar keypti sér dýrindis belgískan bjór. Um kvöldið borðuðum við á frábærum ástralsk-asískum stað hérna í hverfinu og löbbuðum út hálf rangeygð af seddu og matarhamingju.

 Það er mín skoðun að afmælisbörn eiga skilið köku. Og þá meina ég alvöru heimabakaða köku á hæðum og með kremi. Ég hef áður sett inn færslu um afmæliskökuna mína og um afmælisköku vinkonu okkar sem hefur síðan flust frá Brooklyn og ég sakna alveg afskaplega mikið og ekki má gleyma fimmtugskökubombunni hennar mömmu. Afmælisbörn eiga líka skilið vín með kökunni og góðan hóp fólks til að skála fyrir merkisdeginum. 

Elmar er mikill kaffimaður. Svo mikill að dagurinn getur hreinlega ekki byrjað fyrr en hann er búinn að fá sér fyrsta kaffibollann. Mér fannst því við hæfi að búa til kaffiköku með kaffikremi og fann loks uppskrift sem heillaði mig í tímaritinu Bon Appétit, kaffibragð fyrir Elmar og súkkulaði fyrir mig. Botnarnir eru unaðslegir og ég hugsa að ég eigi eftir að nota þá oft upp úr þessu. Kremið er létt í sér og mjúkt og hefur lúmskt bragð af café mocha, mér fannst það samt helst til of sætt (þrátt fyrir að hafa minnkað sykurmagnið) og ég mæli með að minnka það jafnvel enn meira en ég gerði. Ég bakaði þrjá 8 tommu botna en það má auðvitað hafa kökuna tveggja hæða í staðinn fyrir þriggja.

Það lýstu allir yfir mikilli ánægju með kökuna og ég hef æði oft læðst í smá sneið af afganginum í dag. Yndislegt!

SJÁ UPPSKRIFT

Frönsk súkkulaðibaka með ferskum berjum

Systir mín elskuleg kemur í heimsókn til okkar á morgun og verður alveg í heila viku. Ég á erfitt með að beisla spenninginn og hlakka alveg óendanlega mikið til að sýna henni hverfið okkar og Brooklyn. Þetta er í þriðja skiptið sem hún kemur í heimsókn til okkar en hún hefur alltaf verið einstaklega óheppin með veður. En núna loksins virðist veðurspáin ætla að vera okkur hliðholl með tilheyrandi sól, blíðu og hita. Ég sé fram á góða letilega daga í garðinum og skemmtileg kvöld í bjór- og víngörðum Brooklyn (þar sem ég verð auðvitað með sódavatn í hönd eins og þægri óléttri konu sæmir).

Ég bjó til þennan fallega eftirrétt þegar við fengum til okkar góða gesti í mat. Þessi baka er svolítið tímafrek í ferli en er þó mjög einföld og erfitt að klúðra henni. Skelin er búin til með góðum fyrirvara og þarf tíma til að kólna alveg áður en henni er stungið inn í ofn. Kremið er fljótlagað og svo þarf bara að skera  niður fersk ber og dreifa yfir toppinn. Bakan er ofboðslega ljúffeng og er sérstaklega heppileg fyrir þá sem fá ekki nóg af dökku súkkulaði. Ég bjó hana til um morguninn og geymdi inni í ísskáp þar til ég bar hana fram fyrir gesti um kvöldið og var fegin því að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að tímasetja eftirréttinn þannig að hann færi beint úr ofni á borð. Það er samt mælt með að bakan sé borin fram samdægurs en hún heldur sér ágætlega inni í kæli í 2 til 3 daga.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: