Skip to content

Rabarbara- og bláberjahröngl

Flandur mitt um jarðkringluna heldur áfram og nú er ég stödd í Bergen þar sem Elmar vinnur að þýðingu í sumar. Háskólinn í Bergen hefur útvegað okkur litla en fallega íbúð í miðbænum við Jóhannesarkirkju og ég er yfir mig hrifin af þessum fallega bæ. Ég flaug frá Íslandi eftir stutta heimsókn, ánægð, södd og einstaklega uppgefin. Ég var eins og skopparakringla allan tímann og flakkaði á milli kaffihúsa, heimboða, teita og landshluta. Það er því ekki alltof skrítið að það tók Elmar rúma tvo tíma að koma mér á fætur í morgun (eða a.m.k. reyni ég að telja mér trú um að það sé ekki skrítið).

Pabbi bjó til hátíðarmat kvöldið áður en ég flaug út. Hann matreiddi heiðagæs og grágæs, bjó til frægu kartöflustöppuna sína og hafði rauðvínssósu með. Hundurinn trylltist við villibráðarlyktina að venju og spændi upp gólfið í litlum sprettum á milli þess sem hún reyndi að næla sér í bita. Á einum tímapunkti hvarf hún og ég fann hana inni í búri að sleikja umbúðir af smjöri sem hún fann í ruslinu. Ég tók þær af henni en það hlakkaði í mér að af öllum ,kræsingunum’ í ruslatunnunni skyldi hún hafa valið íslenskt ósaltað smjör.

Ég ákvað að sjá um eftirréttinn enda hafði ég einsett mér að búa til berjahröngl handa fjölskyldunni meðan ég væri á landinu og nú var ekki seinna vænna. Ég var reyndar ekki alveg viss um hvernig þýða ætti enska heitið á þessum ágæta rétti en í Bandaríkjunum kalla þeir þetta ,crumble’  og vísa þannig til deigbitana sem látnir eru bakast ofan á fyllingunni. Það var ekki fyrr en Embla benti mér á að þetta hefði verið þýtt sem ,hröngl’ í matreiðslubók eftir Nigellu Lawson að ég fann viðeigandi heiti.

Þetta er líklega einn einfaldasti eftirréttur sem ég hef búið til og hann býður upp á marga möguleika. Að þessu sinni bjó ég til fyllingu úr rabarbara og bláberjum en ég hef einnig búið til fyllingu úr rabarbara og jarðarberjum og svo hef ég líka prófað fyllingu úr jarðarberjum, brómberjum og hindberjum. En í uppáhaldi hjá mér eru þær uppskriftir sem nota rabarbara og ef ég ætti að velja á milli bláberja og jarðarberja þá myndu bláberin fá vinninginn. Bláberin lita réttinn fallega fjólubláan og eru einstaklega gott mótvægi við súra rabarbarann.

Rétturinn var með alveg hæfilegt magn af sætu og möndlurnar gáfu hrönglinu góðan og sérstæðan keim. Við bárum hrönglið fram með vanilluís en það hefði verið alveg jafn gott að bera það fram með rjóma eða bara leyfa því að njóta sín sjálft (eins og mömmu fannst það best).

Rabarbara- og bláberjahröngl

Hröngl:

  • 120 g hveiti
  • 40 g haframjöl
  • 40 g möndlur, grófsaxaðar
  • 1 tsk lyftiduft
  • 3 msk hrásykur
  • 3 msk púðursykur
  • Rifinn sítrónubörkur af 1 sítrónu
  • 115 g smjör, bráðið

Fylling:

  • 400 g bláber
  • 230 g rabarbari, skorin í 2 cm þykkar sneiðar
  • Safi úr 1 sítrónu
  • 150 g sykur
  • 3 msk hveiti
  • 1 tsk salt

Aðferð:

Stillið ofninn á 190°C.

Setjið allt þurrefnið fyrir hönglið í stóra skál. Hrærið öllum þurrefnunum vel saman og hellið síðan bráðna smjörinu yfir. Blandið saman (best er að gera það með fingrunum) þar til stórir og litlir kögglar myndast. Geymið í ísskáp meðan fyllingin er blönduð saman.

Blandið hráefni í fyllinguna saman í djúpan bökunardisk (ekki hafa hann of stóran samt, ég notaði 9″ ferningslaga bökunardisk).

Takið hrönglið úr ísskápnum og dreifið yfir fyllinguna þannig að hrönglið hylji allt og sé jafnt dreift. Bakið í 40 til 50 mínútur eða þar til hluti af hrönglinu hefur tekið á sig gylltan lit og ávaxtafyllingin vellur.

10 athugasemdir Post a comment
  1. Við pabbi þinn erum búin að velja þetta sem besta eftirrétt sem við höfum fengið. Það er til fullt af allskonar berjum í Noregi, bíðum spennt eftir nýjum berjauppskriftum.

    13/06/2011
  2. Þetta hljómar sem góður eftirréttur. hugsa mér að nota hann við tækifæri.

    13/06/2011
  3. Inga Þórey #

    mmmm nammi nammi namm! Ég átti bara frosin bláber og bara 150 gr af þeim svo ég bætti við 250 gr af frosnum jarðaberjum og það kom bara alveg frábærlega vel út :-D

    14/07/2011
  4. Sniðug! Það frábæra við þennan rétt er að maður getur leikið sér endalaust með fyllinguna!

    16/07/2011
  5. Efemia Gisladottir #

    Frabær rettur. Smakkadi hann hja Ragga og Ingu. Nammm …..
    A eftir ad profa hann.

    23/07/2011
    • Takk fyrir það! Endilega prófaðu þig áfram með hann, þessi réttur svíkur ekki!

      23/07/2011
  6. Rabarbara og bláberjahröngl #

    yummy

    27/12/2011
  7. Nanna mín,
    Frábær og auðveldur eftirréttur. Þetta fá Allir sem koma til mìn í sumar.
    Kveðjur úr Þingvallasveitinni
    Tóta Skálabrekku

    04/08/2013

Trackbacks & Pingbacks

  1. Baka með mascarpone og ferskum bláberjum | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir svar við rikisagnfraedingurinn Hætta við svar