Skip to content

Posts from the ‘Rækjur’ Category

Spagettí með risarækjum og klettasalati

Gleðilegt sumar!

Uppáhaldsárstíðin mín er handan við hornið og ég er yfir mig hrifin að sjá að laufin eru farin að þekja trjágreinar og fuglasöngurinn stigmagnast frá degi til dags. Ég tek sérstaklega vel eftir hverri einustu breytingu þessa dagana því að þetta verður síðasta vorið og síðasta sumarið okkar í New York í bili. Við höfum ákveðið að flytja heim til Íslands í sumar, ári á undan áætlun. Við tókum þessa ákvörðun fyrir rúmum mánuði síðan en ég hef ekki mannað mig upp í að skrifa það og birta opinberlega á internetinu. Ástæðurnar eru nokkrar og þó við séum fullviss um að þetta sé rétt ákvörðun þá þykir okkur samt svolítið erfitt að kveðja það líf sem við höfum skapað okkur síðastliðin fjögur ár.

Við kvöddum veturinn og buðum sumarið velkomið með þessum fína pastarétti. Rétturinn er einfaldur í matreiðslu með fáum hráefnum en útkoman er ansi ljúffeng. Ég elda sjaldan risarækjur (ég á erfitt með að sætta mig við umhverfisáhrif eldis þeirra) en stóðst ekki mátið þegar ég las mér til um þennan rétt í Ítalíubók Jamie Olivers. Ég var samt svolítið viðutan í eldhúsinu í þetta skiptið og ofeldaði rækjurnar. Ég mæli því með að lesa uppskriftina vel áður en hafist er handa til að koma í veg fyrir slíkt slys.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælensk karrísúpa með núðlum og risarækjum

Ég er smám saman að venjast móðurhlutverkinu. Svona í gegnum móðuna sem svefnleysi og brjóstagjöf skapa. Dagarnir líða hratt og mér finnst ég varla farin á fætur þegar það fer að rökkva og ég berst við að halda augunum opnum. Ég var eiginlega búin að gleyma hversu hratt það haustar á Íslandi og hversu ótrúlega stutt þessi árstíð er hérna heima. Mér finnst eins og veturinn sé rétt handan við hornið með tilheyrandi skammdegi og kulda. Satt best að segja sakna ég milda haustsins í New York og ég sé bændamarkaðinn okkar í hillingum þegar ég hugsa um matargerð þessa dagana. En haustfegurðin á Íslandi er mikil og við ákváðum að fara í bíltúr á Þingvelli til að njóta litanna og veðursins í gær. Mér þykir afskaplega vænt um Þingvelli en ég vann þar sem landvörður nokkur sumur og þekki því þjóðgarðinn mjög vel.

Það er orðið alltof langt síðan ég setti inn færslu af einhverju sem ekki er sætt og eftirréttarvænt. Og með lækkandi sól og hitastigi er tilvalið að malla súpu. Þessi súpa er ofboðslega góð, hún er krydduð og með miklu engiferi og sítrusávöxtum. Núðlurnar og kartöflurnar gera hana matarmikla og seðjandi og mér finnst mjög mikilvægt að strá fullt af ferskum kóríanderlaufum yfir súpuskálina. Ég notaði risarækjur en upprunalega uppskriftin notaði kjúklingabringur og því má auðvitað skipta rækjunum út fyrir ódýrara hráefni. Ég notaði alltof mikið af núðlum þegar ég bjó réttinn til þannig að ég hef minnkað magnið töluvert í uppskriftinni hér að neðan.

SJÁ UPPSKRIFT

Shrimp and grits / Rækjur og polenta

Það er eitthvað sem heillar mig við mat frá Suðurríkjum Bandaríkjanna. Kannski er það hversu óhræddir þeir eru við að nota smjör, beikon, sósur og kjöt. Þeir djúpsteikja víst alveg heil ósköp sem mér finnst oft á tíðum bæði spennandi og ógnvekjandi. Þegar við Elmar fórum í heimsókn til Norður-Karólínu sáum við hversu djúpsteikingaglaðir þeir verða. Við lögðum ekki í djúpsteiktu ostakökurnar og djúpsteiktu oreos-kexin en við smökkuðum þó súkkulaðihúðaða beikonið. Það var ógeðslegt. Og þó að mikið af Suðurríkjamat hræðir mig þá verð ég að dást að óttaleysi þeirra.

Ég bjó þennan rétt til fyrir þó nokkru síðan og var mjög ánægð með útkomuna. Hann var fljótlegur, einfaldur og einstaklega ljúffengur. Risarækjur og beikon. Þarf ég að segja meira?

SJÁ UPPSKRIFT

Sítrónurísottó með risarækjum

Við erum farin að sjá fyrir endann á Noregsdvölinni og reynum núna að nýta þá (fáu) daga sem sólin skín og lofar hlýju veðri. Um daginn fórum við í heilsdags fjallagöngu (þau voru víst þrjú) og sáum norskar rollur, fjöll, dali og vötn. Landslagið hérna er svo yfirmáta fagurt og það er svo gaman að labba um í náttúrunni og borða nesti í skjólsælum lyngskálum. Við vorum reyndar ansi lemstruð og sólbrennd þegar við komum aftur heim og það fossblæddi úr hælnum á Elmari þegar hann dró af sér skóna.

Matarúrvalið hérna í Bergen kom mér svolítið í opna skjöldu og ég verð að viðurkenna að ég er orðin gjörspillt af því úrvali af ferskri matvöru sem stendur mér til boða í New York.  Að horfa í hillurnar getur verið kómísk reynsla því að úrval af niðursoðnu grænmeti er margfalt meira en það ferska. Toro er framleitt í Bergen og heilu rekkarnir eru tileinkaðir öllu því sem hægt er að setja í duftform og blanda vatni. Það sem vegur þó upp á móti er fiskmarkaðurinn niðri við höfnina sem selur fullt af fallegu nýveiddu sjávarfangi.

En það er hægt að kaupa sítrónur hérna. Og ég get hreinlega ekki staðist rétti sem blanda saman sítrónum og sjávarfangi. Sítrónur eru, að mínu mati, undrabarn ávaxtanna og geta ljáð hinum þyngstu réttum ferskt og létt bragð. Og það er tilfellið með þennan sítrónurísottórétt – sítrónan og rækjurnar poppa upp hrísgrjónin sem eru mjúk og rjómakennd. Rísottóréttir krefjast ákveðinnar fyrirhafnar, það þarf að hræra stanslaust í pottinum á meðan heitu soðinu er bætt smám saman við og getur það tekið allt að hálftíma með tilheyrandi verkjum í upphandleggjum og öxlum. En að sama skapi fer fyrirhöfnin ekki á milli mála þegar rétturinn er borðaður, hann bragðast ríkulega af þeirri umhyggju sem hann krafðist.

SJÁ UPPSKRIFT

Linguine með sítrónu og rækjum

Dvöl okkar í Bergen líður afskaplega hratt og það er eins og dagarnir hreinlega fljúgi frá mér. Við erum þó alltaf jafn ánægð hérna þrátt fyrir reglulegar úrkomur og einstaka kuldaskeið. Þegar sólin fór að skína um helgina þá nýttum við á tækifærið og töltum upp eitt bæjarfjallið hér í grenndinni. Løvstakken varð fyrir valinu í þetta skiptið og við áttum einstaklega skemmtilegan dag uppi á þessu lága fjalli með gullfallegt útsýni, nesti og (í Elmars tilfelli) nýja skó. Løvstakken er víst vinsælasta göngufjall Bergenbúa og ég var hæstánægð að sjá öll litlu krílin sem hlupu upp hæðarnar með foreldrum sínum.

Eitt af því sem ég elska við Bergen er fiskmarkaðurinn niðri við höfnina. Þar er hægt að fá ógrynni af ferskum, nýveiddum skelfiski (dauðum og lifandi), reyktan og grafin lax, alls kyns hrogn og tilbúinn mat. Því miður er þetta oft ein túristasúpa þar sem ekkert lát er á skemmtiferðaskipum sem virðast raða sér að bryggjunni á hverjum degi með tilheyrandi látum og mannmergð. Við hættum okkur samt niður á markað um daginn og keyptum hálft kíló af rækjum í þennan dásemdar pastarétt.

Ég er örugglega ekki ein um það að finnast sjávarréttir sérstaklega góðir með sítrónu (ég neita a.m.k. að trúa því að það sé bara sítrónuáráttan mín að tala) og þessi diskur blandar þessum tveimur hráefnum mjög vel saman. Rétturinn er léttur, ferskur og sumarlegur og það er sérstaklega gott að mala smá ferskan pipar yfir réttinn þegar búið er að skammta honum á diskana. Og, í guðanna bænum, notið bara alvöru ferskan parmesanost í þennan rétt. Allt annað er drasl.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskir sumarréttir

Ég er nýkomin til Íslands í stutt stopp. Þegar ég lenti á Keflavíkurflugvelli var heiðskírt og fallegt en þriggja stiga hiti. Þriggja! Daginn sem ég fór frá New York var 30 stiga hiti og sól. Það var því úfin, ferðaþreytt og úrill ég sem gekk á móti Suðurnesjavindinum úr Leifsstöð.

Við nýttum samt síðustu dagana í hlýjunni í New York vel. Við eyddum tveimur dögum í Brooklyn þar sem við flökkuðum á milli bjórgarða og skoðuðum ný svæði þar sem næsta húsnæði okkar gæti leynst. Við settumst út á kvöldin, fengum okkur vínglas og nutum þess að eiga nokkra frídaga saman – en það hefur ekki farið mikið fyrir þeim þessa önnina.

En þrátt fyrir veður og vind þá er alltaf gott að koma ,heim’. Ég saknaði brauðostsins í risaumbúðunum, kalda ferska vatnsins úr krananum og fiskréttanna úr Fylgifiskum. En ég saknaði þó sérstaklega þagnarinnar, tístsins í fuglunum og gjallið í Tjaldinum í fjörunni fyrir utan gluggann minn heima hjá mömmu og pabba. Kærkomin breyting frá hinum stanslausa niði og hávaða stórborgarinnar.

Ég vildi auðvitað komast í eldhúsið sem fyrst og búa til einhverja dásemd handa fjölskyldunni minni. Að lokum ákvað ég að búa til tvo rétti sem hafa lengi verið á matardagskránni. Ég bjó til tælenskan hrísgrjónarétt með ananas og nautakjöti en í forrétt hafði ég djúpsteiktar risarækjur í bjórdeigi. Ég var reyndar eins og hauslaus hæna í eldhúsinu þeirra til að byrja með. Skipulagið ruglaði mig í ríminu og ég ætlaði aldrei að finna nauðsynleg hráefni og tól. Pabbi greip loks inn í  og gaf mér ráðleggingar varðandi steikingu á kjötinu (þar sem ég elda næstum því aldrei kjöt úti) og ananashreinsun. Útkoman var mjög ljúffeng. Ég breytti frá uppskriftinni og hafði soja- og chilimarinerað nautakjöt í staðinn fyrir tofu til að gefa réttinum aðeins meiri hita (og auðvitað sem afsökun til að matreiða kjöt). Djúpsteikingin á rækjunum var aðeins ævintýralegri, sem ótalmargir litlir brunablettir bera vott um, en þær voru svo ljúffengar umvafðar stökku djúpsteiktu bjórdeigi.

SJÁ MEIRA

%d bloggurum líkar þetta: