Spagettí með risarækjum og klettasalati
Gleðilegt sumar!
Uppáhaldsárstíðin mín er handan við hornið og ég er yfir mig hrifin að sjá að laufin eru farin að þekja trjágreinar og fuglasöngurinn stigmagnast frá degi til dags. Ég tek sérstaklega vel eftir hverri einustu breytingu þessa dagana því að þetta verður síðasta vorið og síðasta sumarið okkar í New York í bili. Við höfum ákveðið að flytja heim til Íslands í sumar, ári á undan áætlun. Við tókum þessa ákvörðun fyrir rúmum mánuði síðan en ég hef ekki mannað mig upp í að skrifa það og birta opinberlega á internetinu. Ástæðurnar eru nokkrar og þó við séum fullviss um að þetta sé rétt ákvörðun þá þykir okkur samt svolítið erfitt að kveðja það líf sem við höfum skapað okkur síðastliðin fjögur ár.
Við kvöddum veturinn og buðum sumarið velkomið með þessum fína pastarétti. Rétturinn er einfaldur í matreiðslu með fáum hráefnum en útkoman er ansi ljúffeng. Ég elda sjaldan risarækjur (ég á erfitt með að sætta mig við umhverfisáhrif eldis þeirra) en stóðst ekki mátið þegar ég las mér til um þennan rétt í Ítalíubók Jamie Olivers. Ég var samt svolítið viðutan í eldhúsinu í þetta skiptið og ofeldaði rækjurnar. Ég mæli því með að lesa uppskriftina vel áður en hafist er handa til að koma í veg fyrir slíkt slys.