Skip to content

Posts from the ‘Rækjur’ Category

Pad Thai með risarækjum

Ég er búin að vera að vinna í myrkri í eldhúsinu frá því ég kom aftur til baka frá Íslandi. Ástæðan er sú að ljósin í umræddu herbergi eru hætt að virka sökum einhverrar samskiptavillu í rafmagni (ég veit að þetta er ekki rétt lýsing en ég veit ekki neitt um svona hluti og vil helst halda því þannig). Ég reyni að redda mér með því að draga gólflampann inn í eldhús og píra augun ofan í pönnur og potta. Viðhaldsmaðurinn kemur til okkar á miðvikudaginn og ætlar að kippa þessu í liðinn. Ég verð reyndar mjög stressuð við tilhugsunina um að við séum að fá hann og hans fylgdarlið inn í íbúðina okkar. Í hvert skipti sem þeir ætla að ,,laga“ eitthvað þá endar það sem fjarstæðukennt fúsk. Munið þið eftir tékknesku þáttunum á RÚV, Klaufabárðarnir? Þeir eru Klaufabárðarnir. Þegar við áttum að fá nýja glugga í íbúðina síðasta vetur (það sást ekki í gegnum þá gömlu) þá rifu þeir gluggana úr, hentu þeim fram á gang svo rúðurnar í þeim brotnuðu og komust svo að því að nýju gluggarnir pössuðu ekki. Eftir miklar vangaveltur var ákveðið að þeir ættu að stækka gatið á útveggnum svo nýju gluggarnir kæmust fyrir. Þetta þýddi að þeir brutu upp múrverkið og náðu einhvern veginn að koma gluggunum fyrir. Elmar þurfti svo að stoppa upp í öll göt með dagblöðum því það næddi svo mikið inn. Þeir komu aftur í sumar til að laga leka sem stafaði frá ónýtri pípu í gólfinu á baðherberginu okkar. Þegar við komum svo heim þá var baðherbergið allt í klessu og þar sem þeir höfðu brotið upp fallegu grænu og bláu mósaíkflísarnar voru flennistórar brúnar flísar komnar í staðinn. Lekkert.

Í rauninni er þessi saga bara að undirbúa jarðveginn fyrir réttinum sem ég ætla að lýsa. Ég vil nefnilega frekar kenna ljósleysi í eldhúsi um hvernig fór frekar en vöntun á tæknilegri kunnáttu hjá mér. Í kvöld ákvað ég að búa til Pad Thai, án aðstoðar pakkasósu, í fyrsta sinn. Og rétturinn var ljúffengur – nema að núðlurnar voru ekki nógu mjúkar og ég brenndi hneturnar. Ég ákvað samt sem áður að setja þetta á bloggið þar sem þessi réttur var mjög góður þrátt fyrir þessi grundvallarmistök. Það er frekar leiðinlegt og óspennandi hvernig pakkasósu-Pad Thai er yfirleitt of sætt og alltof sósað. Og þar sem það er afskaplega einfalt að búa til þennan rétt sjálf/ur þá mæli ég með að þið prófið. Það er bara gott að vera búinn að saxa allt sem saxa á og taka til allt sem á að fara í réttinn þar sem ferlið gengur mjög hratt fyrir sig þegar steiking er hafin.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: