Hversdagsleg súkkulaðikaka

Ég finn mig knúna til að tilkynna að það eru ekki bara kökur, kanillengjur og ís í matinn hjá okkur svona frá degi til dags. Ég er búin að elda margt mjög ljúffengt síðustu vikur en því miður sest sólin hjá okkur um fjögurleytið og allar tilraunir til að taka fallegar myndir af matnum mistakast. Ef ég væri ekki á fullu við að kenna Þórdísi að sofa (ég er ennþá steinhissa á þessum hluta uppeldisins, ég hélt að sá hæfileiki væri meðfæddur) og reyna að læra og skrifa í þá fáu klukkutíma sem ég hef aflögu þá myndi ég kannski elda í hádeginu og nýta dagsbirtuna í myndatökur. En því miður þá held ég að ég þurfi bara að bíða þangað til sólin hækkar á lofti og Þórdís Yrja fer að læra að það gengur ekki að vera vakandi allan liðlangan daginn. Þangað til gæti verið smá skortur á kvöldmatarfærslum á þessari síðu.

Þetta er í annað skiptið sem ég baka þessa köku. Hún er einstaklega einföld, það tekur enga stund að blanda deigið, hún skilur eftir sig lítið uppvask og svo er hún látin bakast inni í ofni við lágan hita í rúman klukkutíma. Útkoman er algjör súkkulaðisprengja. Hún minnir mig svolítið á banana- og súkkulaðiformkökuna sem ég bjó til þegar við fluttum fyrst inn í íbúðina okkar í Brooklyn en er þó ekki eins sæt og syndsamleg. Þessi kaka er frábær með ískaldri mjólk eða sterkum kaffibolla og ætti að höfða til allra sem kunna að meta bragðið af dökku súkkulaði. Þar sem súkkulaðið er aðalhlutverkið í þessari formköku mæli ég með að nota gæðakakóduft í hana til að fá gott og eilítið beiskt súkkulaðibragð.




















