Skip to content

Pekanbitar með karamellu

Við héldum upp á Þakkargjörðarhátíðina um helgina heima hjá foreldrum mínum. Í rauninni þjófstörtuðum við hátíðinni þar sem hún er haldin síðasta fimmtudaginn í nóvember í Bandaríkjunum og enn er rúmur mánuður í það. En þar sem við fjölskyldan verðum farin aftur vestur um haf eftir örfáar vikur og vorum fjarri góðu gamni í fyrra þá var ákveðið að taka forskot á sæluna. Pabbi matreiddi kalkún, fyllingu og sósu, ég sá um þessa pekanbita og salat, og Embla bjó til bökuð epli í eftirmat (sjá uppskrift hér). Kvöldmaturinn var því með besta móti og sú litla gerði foreldrum sínum þann greiða að sofa í gegnum borðhaldið.

Ég ætla því að nýta tækifærið og setja inn uppskriftir að matnum á næstu dögum ef svo skyldi vera að einhverjir freistast til að halda uppá Þakkargjörðarhátíðina og vantar hugmyndir að matseðli kvöldsins. Ég byrja í raun í vitlausri röð þar sem þessir pekanbitar voru í eftirrétt með kaffinu. Þetta eiga í raun að vera kökubitar en þar sem þeir eru dísætir (og afar hitaeiningaríkir) þá ákvað ég að skera kökuna í litla munnbita og bjóða upp á sem konfekt. Uppskriftina fann ég á Smitten Kitchen en ég  hef minnkað hana og breytt aðeins eftir mínum smekkk. Bitarnir eru einstaklega góðir – botninn er smjörmikill og eilítið mjúkur, söxuðum pekanhnetum er velt upp úr hunangskaramellu og dreift yfir – og útkoman er syndsamleg.

Pekanbitar með karamellu

(Breytt uppskrift frá Smitten Kitchen)

Botn:

  • 300 g smjör, við stofuhita
  • 80 g sykur
  • 2 stór egg
  • 1/2 tsk vanilludropar
  • 300 g hveiti
  • 1/4 tsk lyftiduft
  • 1/8 tsk salt

Pekankaramella:

  • 225 g smjör
  • 1/2 bolli gott hunang
  • 300 g púðursykur
  • 1/2 tsk sítrónubörkur, rifinn
  • 1/2 tsk appelsínubörkur, rifinn
  • 30 ml rjómi
  • 450 g pekanhnetur, saxaðar gróft

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C/350°F.

Byrjið á að búa til botninn. Hrærið saman smjöri og sykri í hrærivél þar til allt er vel blandað saman og kekkjalaust. Bætið eggjunum saman við ásamt vanilludropunum og þeytið þar til allt hefur blandast vel saman. Sigtið saman hveiti, lyftiduft og salt og bætið út í hræriskálina. Setjið  vélina á lægstu stillingu og blandið hveitinu saman við þar til allt hefur rétt svo blandast saman, passið að hræra hveitinu ekki of mikið saman við.

Takið fram ósmurt mót sem er ca. 37 x 25 sm (gott er að barmarnir séu svolítið háir svo að karamellan renni ekki fram af og brenni við ofngólfið). Leggið bökunarpappír ofan í formið og leyfið því að hanga svolítið fram af börmunum (þetta hjálpar við að taka botninn úr mótinu seinna meir). Deigið er mjög klístrað þannig að það er gott að sáldra hveiti yfir hendurnar og þrýsta deiginu niður í formið og að börmunum. Bakið í 15 mínútur eða þar til deigið hefur harðnað en er ekki farið að gyllast. Takið úr ofninum og leyfið að kólna.

Karamellan: Setjið smjör, hunang, púðursykur og sítrusbörk í stóran pott. Hitið yfir lágum hiti þar til smjörið hefur bráðnað. Hækkið þvínæst hitann og leyfið að sjóða í 3 mínútur. Takið af hitanum og hrærið rjómanum og pekanhnetunum saman við. Hellið karamellunni yfir botninn og dreifið jafnt úr. Bakið í 20 – 25 mínútur. Takið úr ofninum og leyfið að kólna. Setjið plastfilmu yfir og leyfið að kólna alveg á köldum stað eða inni í kæli.

Lyftið upp úr mótinu með því að toga í bökunarpappírsendana. Leggið á skurðarbretti og skerið í litla munnbita. Geymið bitana í kæli.

Prenta uppskrift

5 athugasemdir Post a comment
  1. Úff hvað þetta lítur vel út! Ég er aðeins byrjuð að hugsa um þakkargjörðarhátíðina og gæti vel hugsað mér að prófa þessa bita. Ég trúi vel að einn svona biti sé nóg með kaffinu því þeir líta syndsamlega út :)

    21/10/2012
  2. Anna María #

    Þakkargjörðahátíðin er haldin fjórða fimmtudag í nóvember, sem er oftast sá síðasti, nema eins og í ár þegar nóvember hefst á fimmtudegi og inniheldur 5stk.
    Takk fyrir gott blogg og að leyfa okkur ókunnugum að fylgjast með girnilegum réttunum þínum.

    kveðja,
    Anna María

    21/10/2012
  3. Ég veit að það er rosa leiðinlegt fyrir fjölskylduna ykkar að sjá á eftir ykkur til Bandaríkjana en ég er alveg vívívív, þau eru að koma. Við verðum að plana heimsóknir þegar þið komið út, okkar langar svo til að hitta Þórdísi og ykkur, samt mest Þórdísi

    21/10/2012
  4. æi, gleymdi

    kveðja Erla, Finnur og Katrín Anna

    21/10/2012

Trackbacks & Pingbacks

  1. Rósakálssalat með hlynsírópsgljáðum pekanhnetum | Eldað í Vesturheimi

Færðu inn athugasemd við Kristín Gróa Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: