Kaffipönnukökur
Ég náði loksins að rífa mig á fætur nógu snemma í morgun til að arka á markaðinn áður en hann fylltist af fólki. Það er orðið kalt í lofti og það var mjög hressandi að labba út í garð með kaldan vind í lopapeysuklæddu fanginu og bjarta morgunsólina í andlitinu. Ég tók nokkrar myndir til að sýna ykkur af hverju ég get ekki sleppt því að eyða laugardagsmorgnunum mínum þarna.
Ég elska að vera með þennan stórkóstlega markað í göngufæri. Það er skemmtilegt og uppörvandi að versla matvæli beint frá ræktanda. Það þýðir að allt sem maður kaupir hefur verið ræktað í nágrenninu við náttúrulegar aðstæður í samræmi við veðráttu og árstíðir. Brauðið er bakað í bakaríum í hverfinu og fólkið sem selur varning sinn þarna hefur virkilegan áhuga og ástríðu fyrir því sem það gerir. Ég er einstaklega þakklát fyrir að fá tækifæri einu sinni í viku til að styrkja þennan viðkvæma iðnað og sleppa því að labba inn í flúórslýstan súpermarkaðinn.
Ég kom heim með stóran poka af grænmeti og fallegan eggjabakka frá kjúklingabóndanum og skellti í pönnukökur sem mig hefur lengi langað að prófa. Þetta eru óvenjulegar pönnukökur að því leyti að í þeim er kaffi. Kaffibragðið er samt alls ekki yfirþyrmandi heldur virkar frekar eins og krydd og parast því sérstaklega vel með te- eða kaffibolla.
Kaffipönnukökur
(Uppskrift frá Cozy Kitchen)
- 1 bolli [125 g] hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- 1 tsk matarsódi
- 1/2 tsk salt
- 1 1/2 msk sykur
- 1 egg
- 1 bolli [240 ml] ,buttermilk’ eða súrmjólk
- 1 msk ,instant’kaffi
Aðferð:
Hitið ofninn í 70 C.
Sigtið þurrefnin saman í stóra skál. Setjið til hliðar.
Hrærið egginu saman við súrmjólkina í lítilli skál. Hrærið síðan ,instant’kaffiduftinu saman við.
Blandið blautefnunum saman við þurrefnin þar til allt hefur rétt svo blandast saman. Það eiga að vera kekkir í deiginu.
Hitið pönnu yfir meðal-lágum hita. Þegar pannan er orðin nógu heit setjið smá smjörklípu á pönnuna og dreifið um hana alla. Hellið smá deigi á pönnuna og steikið þar til hliðarnar fara að dragast saman og miðjan myndar loftbólur. Snúið við og steikið þar til pönnukakan er orðin gyllt. Geymið í ofninum til að halda pönnukökunum heitum meðan restin er steikt.
Berið strax fram með hlynsírópi og smá smjöri.
8 – 10 pönnukökur
Kynnist svoa markaði í NY við Washington-torg. Himneskt!
Ohhh hvað þetta hljómar dásamlega gott og ljúffengt ! :)
Vá hvað þetta er girnilegur markaður og flottar myndir hjá þér.
dásemd! Elskum líka okkar Farmers market á laugardagsmorgnum hérna í Edin ;) úllallaahh ég ætla að prófa þessar pönnsur fljótlega!
Í Edinborg? Á Castle Terrace? Ég fór einmitt þangað reglulega þegar ég bjó þar og keypti mér ost frá Arran, svínasamloku og sultur. Njóttu þess að vera í Edinborg! Ég sakna hennar svo.
hahaha já í Edinborg ;) við förum ALLTAF og kaupum okkur alls konar sultur! og lemon currd sem er eitt það dásamlegasta sem ég veit! Og eins er líka hægt að kaupa rosalega góð brauð frá Falko þýska bakarínu sem er reyndar hérna rétt hjá mer ;) Við erum búin að búa í Edinborg í ja næstum 3,5 ár og ELSKUM það!
Yndislegur laugardagsmorgun og sannarlega ætla ég að prófa þessar pönnukökur. En hvar er þessi markaður?? Er hann í Brooklyn??
Já, hann er í Brooklyn. Nánar tiltekið, við Grand Army Plaza.
http://www.grownyc.org/grandarmygreenmarket
Dásamleg færsla og glæsileg nýja síðan! Ég fer alltaf í gott skap þegar ég skoða hana :) Gerði döðlutertuna með karamellusósunni í gær og bauð Lilý og Trausta uppá, hún vakti mikla lukku. Fór svo með afganginn af henni í samsæti til vinkvenna minna þar sem allar höfðu skoðað síðuna þína og voru stórhrifnar… Takk fyrir okkur!
Takk fyrir það Kristín mín! Þessi döðlukaka er í svo miklu uppáhaldi hjá okkur líka og virðist alltaf ná að slá í gegn :)
Girnó og þvílíkt kósý markaður.
Jahá! Og ÞÚ ert á leiðinni þangað næsta laugardag!
Flottar myndir hjá þér. Hef aldrei prófað að setja kaffi í uppskrift af pönnukökum…verð að prófa það næst.
Við elskum pönnukökur um helgar og virka daga hér í Vermont, sérstaklega þegar það er farið að kólna.
Þegar ég sá uppskriftina rifjaðist það upp fyrir mér að amma mín notaði uppáhellt kaffi í pönnukökur og lummur. Ég ætla að gera þessar á eftir í kaffitímanum, þær líta mjög girnilega út og kaffifíkillinn ég sleikir út um! En helduru að það sé ekki í lagi að nota jógúrt í staðinn fyrir súrmjólk?
Jú, það er örugglega bara fínt. Ef jógúrtið er þykkt þá er gott að hræra það vel áður en því er blandað saman við annað hráefni.