Skip to content

Asísk steikt hrísgrjón með spældu eggi

Í dag kom viðgerðarmaðurinn og gerði við uppþvottavélina, mér til mikillar ánægju. Það er fátt sem mér finnst eins leiðinlegt eftir góða kvöldmáltíð og að þurfa að vaska upp heilan helling af diskum, brettum, skálum, pönnum og pottum. Lífsgæði mín hafa því aukist til muna og það lá við að ég rauk upp um hálsinn á grey manninum þegar hann tilkynnti mér að vélin væri farin að virka. Ég kvaddi hann með sparibrosinu mínu og fór að hlaða í vélina leirtaui sem ég hafði ekki nennt að vaska upp kvöldið áður í þeirri veiku von að blessuð vélin hrykki í gang.

Eldavélin fór aftur á móti að virka í gærkvöldi (þetta er allt mjög dularfullt) og ég greip því tækifærið og bjó til asískan hrísgrjónarétt sem er bæði einfaldur og einstaklega ljúffengur. Ef þið eigið afgangshrísgrjón í ísskápnum þá verður þessi réttur ennþá einfaldari og fljótlegri fyrir vikið. Ég hef reyndar oftast notað nýsoðin hrísgrjón en það veldur því að hrísgrjónin verða aðeins of blaut. Dagsgömul hrísgrjón eru best í réttinn því þau hafa tapað vökva og rétturinn verður þá ekki eins grautkenndur.

Asísk steikt hrísgrjón með spældu eggi

(Frá Jean-Georges Vongerichten)

  • 100 ml jarðhnetuolía*
  • 2 msk saxaður hvítlaukur
  • 2 msk saxað engifer
  • Sjávarsalt
  • 2 stórir blaðlaukar (eða 3 litlir), skornir í sneiðar, hreinsaðir og þurrkaðir
  • 4 bollar (ca. 1 lítri) elduð dagsgömul hrísgrjón, t.d. jasmín**
  • 4 stór egg
  • 2 tsk ristuð sesamolía
  • 4 tsk sojasósa

[*Ef þið eigið ekki jarðhnetuolíu og tímið ekki að kaupa hana (eins og nískupúkinn ég), þá er hægt að byrja á því að hita matarolíu á pönnu með lófafylli af gróflega söxuðum jarðhnetum út í. Hellið olíunni af pönnunni þegar hneturnar eru gylltar og setjið hneturnar til hliðar. Stráið svo söxuðu hnetunum yfir réttinn áður en hann er borinn fram. Þetta er auðvitað ekki alveg eins gott og jarðhnetuolían en gefur samt svipaðan keim.]

[**Það er gott að nota hrísgrjónaafganga í þennan rétt en þegar ég hef ekki átt dagsgömul hrísgrjón þá hef ég bara sett upp pott af hrísgrjónum áður en ég byrja að elda.]

Aðferð:

Hitið 60 ml af olíunni í stórri pönnu yfir meðalháum hita. Setjið hvítlauk og engifer út á pönnuna, eldið, hrærið einstaka sinnum, þar til hráefnið hefur tekið á sig brúnan lit og er orðið stökkt. Fjarlægið úr olíunni (s.s. skiljið olíuna eftir á pönnunni) og færið yfir á eldhúspappír og sáldrið smá salti yfir.

Lækkið hitann undir pönnunni og bætið blaðlauk og 2 msk af olíu á pönnuna. Eldið í ca. 10 mínútur eða þar til laukurinn hefur mýkst án þess þó að brúnast. Saltið smáveigis.

Hækkið hitann aftur og bætið hrísgrjónum á pönnuna. Steikið þar til hrísgrjónin eru hituð í gegn (og lengur ef þið viljið hafa þau svolítið stökk). Smakkið til og saltið ef þess þarf.

Takið fram nýja pönnu. Steikið eggin upp úr restinni af olíunni þar til hvítan hefur eldast en rauðan er ennþá hrá.

Skiptið hrísgrjónunum á fjóra diska og setjið spælt egg ofan á hvern skammt. Hellið 1/2 tsk af sesamolíu og 1 tsk af sojasósu yfir hvern skammt. Sáldrið steikta hvítlauknum og engiferinu yfir og berið fram.

Fyrir 4

No comments yet

Skildu eftir athugasemd