Orecchiette með grænkáli og stökkum brauðmolum

Ég er mjög spennt fyrir febrúarhefti Bon Appétit og hef flett því fram og aftur á kvöldin. Umfjöllunarefni mánaðarins er pasta og þau hafa þróað sjö afar girnilegar uppskriftir. Ég er sjúk í pasta á veturna og finnst mjög notalegt að malla slíka rétti á köldum kvöldum. Við höfum núna prófað tvær af þessum sjö uppskriftum og mig langaði til að deila annarri þeirra með ykkur.
Orecchiette er tegund af pasta sem finnst aðallega í Puglia-héraði á Ítalíu og fæst í flestum matvörubúðum hérna úti. Það má auðvitað skipta því út fyrir annað lítið pasta – eins og skeljar eða jafnvel skrúfur. Aðalhráefnið er grænkál – sem er víst pakkað af alls kyns hollustu – og svo er chili, ansjósur og góður skammtur af hvítlauk. Punkturinn yfir i-ið er pönnusteikt brauðmylsna sem er brakandi stökk og gefur réttinum mikinn karakter.

















