Gulrótakleinuhringir með límónukremi og valhnetum
Það fer að líða að því að tíminn breytist hérna úti. Í mars endurstillum við klukkuna og töpum einum klukkutíma. Í fyrstu fannst mér þetta skrítinn siður enda ekki vön slíku. Núna þykir mér þetta alveg frábært þó að tilfinningin um að við séum að ,svindla’ á einhvern hátt situr ennþá eftir. Ég er sérstaklega hrifin af því að græða einn klukkutíma af birtu á kvöldin þegar líða fer að vori.
Ég var minnt á gulrótaköku af lesanda (hæ Lilja!) sem ég bjó til alls fyrir löngu. Kakan er alveg fáránlega góð, ég bakaði hana á tveggja ára brúðkaupsafmæli okkar Elmars þegar við héldum upp á það og vorið í Central Park. Það var almennt álit vina okkar að þarna færi besta gulrótakaka sem þau hefðu smakkað. Og þar sem að ég er búin að búa til sömu kleinuhringina aftur og aftur (og aftur) þá mátti ég til með að baka nýja kleinuhringi með þá uppskrift til hliðsjónar.
Fyrsta tilraunin endaði reyndar í ruslinu. Deigið var alltof blautt, var með alltof lítið af gulrótum og helst til of kryddað. Mig langaði samt í kleinuhringi og var búin að bíta það í mig að búa til mína eigin uppskrift. Ég ákvað því að byrja upp á nýtt. Og ég er mjög ánægð með afraksturinn. Kleinuhringirnir eru eins og litlar kökur með fersku kremi og stökkum valhnetum.
Gulrótarkleinuhringir með límónukremi og valhnetum
- tæplega 1/2 bolli [80 g] púðursykur
- 1 stórt egg
- 3/4 bolli [175 ml] olía
- 1 tsk vanilludropar
- 1 bolli [125 g] hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- 1/4 tsk matarsódi
- 1/2 tsk kanill
- 1/4 tsk salt
- 1.5 bolli gulrætur, skrældar og rifnar
- 90 g rjómaostur, við stofuhita
- 1 msk ferskur límónusafi
- 1 tsk límónubörkur, rifinn
- 1 bolli flórsykur
- 2 – 3 msk mjólk
- 1 lítil lúka valhnetur, saxaðar
Aðferð:
Hitið ofninn í 160°C/325°F. Smyrjið kleinuhringjamót með olíu eða smjöri.
Hrærið saman púðursykur, egg, olíu og vanillu í lítilli skál. Ef púðursykurinn myndar kekki þá er gott að setja skálina aðeins til hliðar og hræra aftur til að leysa upp kekkina.
Hrærið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda, kanil og salt í stórri skál. Blandið blautefnunum saman við og hrærið saman. Bætið rifnu gulrótunum út í skálina og blandið vel saman við deigið.
Setjið deigið í stóran ziplock poka (eða krempoka). Klippið eitt hornið af og sprautið deiginu í kleinuhringjamótið.
Bakið inni í ofni í 10 – 12 mínútur eða þar til kleinuhringirnar hafa bakast í gegn. Leyfið að kólna í 2 mínútur í forminu. Snúið því næst forminu við og losið kleinurhingina úr því. Leyfið að kólna á meðan kremið er gert.
Þreytið saman rjómaost, límónusafa og límónubörk. Sigtið flórsykurinn saman við í skömmtum þar til ykkur finnst kremið nógu sætt. Ef kremið er mjög þykkt má hræra 1 msk af mjólk saman við í einu til að losa um það.
Dýfið kleinuhringjunum ofan í kremið (ég nota matarprjóna til að veiða kleinuhringina upp úr kreminu) og flytjið yfir á grind. Sáldrið söxuðum valhnetum yfir kleinuhringina.
Berið fram. Kleinuhringirnir geymast í ca. 3 daga í loftþéttum umbúðum.
Gerir 6 kleinuhringi
Það gleður mig að kleinuhringjamótið er enn í notkun og bloggið þar af leiðandi í fyllu fjöri ;-) Flott og skemmtileg hugmynd, held ég endi með því að fjárfesta í móti!
Nú verð ég hreinlega að kaupa mér kleinuhringamót. Ég er búin að hugsa um kaffikleinuhringina non stop frá því þú settir þá uppskrift hingað inn.
Já, ég mæli eindreigið með því að þú kaupir þér kleinuhringjamót. Og þessir kaffikleinuhringir eru eitt það besta sem ég hef bakað. Do it!
Nei hættu nú alveg! Nú fæ ég mér kleinuhringjajárn…!
Járn/mót!