Skip to content

Klassískt tíramísú

Það eru liðin fjögur ár frá því að ég eyddi síðast hausti á Íslandi. Það er því langt síðan ég hef stolist í lopapeysur og þykka sokka í septembermánuði. En ,ástandið’ gerir mig þakkláta fyrir kulið í loftinu enda er ég orðin ansi ólétt á að líta og heitfeng eftir því. Nú styttist samt óðum í að ég fari að hætta að labba um eins og mörgæs í þrautakóng, geti sofið á maganum aftur og tekið út 9 mánaða sushiskammt á sem skemmstum tíma. Ég er spennt og afar óþreyjufull.

Ég held áfram að stelast í afrakstur annarra til að halda blogginu gangandi enda fer ekki mikið fyrir mér í eldhúsinu þessa dagana. Við erum búin að troða okkur inn á foreldra mína og systur í þessu fæðingarstússi og þar sem þau eru öll hvert öðru hæfileikaríkara á matreiðslusviðinu þá ,leyfi’ ég þeim að sjá að mestu leyti um eldhússtörfin. Mamma bjó til tíramísúið sitt um daginn og ég finn mig knúna til að deila uppskriftinni hennar með ykkur. Þetta er tíramísu upp á sitt allra besta með nóg af mascarpone og sterku kaffi.

Klassískt tíramísu

  • 150 gr suðusúkkulaði, saxað
  • 24 stk ladyfingers
  • 1.5 dl mjög sterkt kaffi (eða espressó)
  • 1/2 dl kaffilíkjör (t.d. Tia Maria, Kahlúa)
  • 6 stk egg
  • 6 msk sykur
  • 500 gr mascarpone*
  • kakóduft og saxað dökkt súkkulaði til að setja ofan á

Aðferð:

Blandið saman kaffi og kaffilíkjör. Leggið kexið á plötu og hellið kaffiblöndunni jafnt yfir.

Stífþeytið eggjahvíturnar og setjið til hliðar.

Hrærið eggjarauðurnar og sykurinn saman þar til það verður létt og ljóst. Blandið síðan varlega saman við ostinn.

Blandið eggjahvítunum varlega saman við ostablönduna með sleikju.

Setjið helming (eða 1/3, eftir því hversu stórt mót þið notið) af kexinu í botn á skál. Setjið helminginn (eða 1/3) af ostahrærunni ofan á, síðan saxað súkkulaði ofan á það. Endurtakið.

Sáldrið söxuðu dökku súkkulaði yfir og sigtið kakóduft yfir það.

Látið standa í ísskáp í minnst 1 – 2 klukkustundir áður en borið er fram.

[*Við notuðum ítalskan mascarpone sem við keyptum í Nettó. Áferðin á honum var mjög góð en eitthvað fannst okkur vanta upp á bragðið. Íslenski mascarponeosturinn er bragðgóður en hann er mjög stífur. Ef þið notið þann íslenska gæti því verið gott að taka hann úr kæli fyrir notkun og leyfa honum að mýkjast til að auðvelda þeytingu.]

Prenta uppskrift

7 athugasemdir Post a comment
  1. Eins og mér finnst tiramisu gott þá er ég alveg hætt að panta það á veitingastöðum því ég verð svo oft fyrir vonbrigðum. Þessa uppskrift líst mér aftur á móti rosalega vel á!

    07/09/2012
  2. Lilja #

    Langar ekkert smá að prófa þetta! ..en þar sem ég er nýflutt og Kitchen aid-in mín á klakanum velti ég vöngum yfir því hvað ég geti gert -með matvinnsluvélina mína eina að vopni! Hef ekki mjög háar væntingar(!)

    11/09/2012
  3. Ólöf #

    Útbjó þetta tiramisu fyrir matarklúbb á laugardaginn og það voru allir slefandi yfir því!! Hef aldrei áður búið til tiramisu og aldrei smakkað heldur svo að ég var að vonum MJÖG ánægð. Takk fyrir frábæra uppskrift :)

    14/09/2012
    • En hvað það er frábært að heyra! Takk fyrir að skilja eftir athugasemd :)

      03/10/2012
  4. Ég er búin að vera að hugsa um tíramísú síðustu daga og auðvitað er nýjasta færslan hjá þér uppskrift að tíramísú. Ég var einmitt að fara í að leita að góðri uppskrift og þarf þá ekkert að leita lengra.

    Ég sé að það er svolítið síðan þú bloggaðir, kannski ertu búin að eiga. Annars segi ég gangi þér vel á endasprettinum.

    19/09/2012

Trackbacks & Pingbacks

  1. Tíramísú | Eldað í Vesturheimi
  2. Nú árið er liðið í aldanna skaut | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir svar við Ólöf Hætta við svar