Skip to content

Jarðarberjakaka á hvolfi

Gleðilegt sumar! Ég sit við opinn glugga, sólin skín í gegnum grænlaufguð trén og léttklætt fólk í hrókasamræðum labbar letilega framhjá. Ég elska þessa árstíð og gæti engan veginn verið án hennar. Það sem gerir daginn sérstaklega ánægjulegan er að ég finn fyrir sprikli frá lítilli veru undir kjólnum mínum. Það verður nefnilega aukning í litlu Vesturheimsfjölskyldunni okkar í september og við gætum ekki verið ánægðari. Ég get því loksins komið hreint fram og viðurkennt að blogghléið mitt í byrjun árs var sökum ólétturiðu og matarfráhverfu. Ég nærðist aðallega á vatnsmelónum og ristuðu brauði í margar vikur og óttaðist að endurheimta aldrei matarástina. Sem reyndist (auðvitað) vera óþarfa paranoja.

Í tilefni sumardagsins fyrsta, góðra frétta úr 20 vikna sónar og almennri hamingju og gleði ákvað ég að baka köku í dag. Jarðarberjaköku með kardemommubragði sem ég get haft í kaffinu þegar Elmar kemur loksins heim frá morgunkennslu. En núna er kakan komin út úr ofninum, hálfvolg og fallega rauð og ég er þegar búin með helminginn af henni (alveg óvart!). Það er spurning hvort eitthvað verður eftir fyrir spúsann.

Þessi kaka er tilvalin leið til að bjóða sumarið velkomið yfir kaffibolla, blómum og sól. Jarðarberin malla á botni kökuformsins ásamt púðursykri og smjöri og þetta allt saman myndar ofboðslega bragðgóða og þykka jarðarberjasósu. Kökubotninn er léttur, mjúkur og eilítið blautur með ríku kardemommubragði sem passar ákaflega vel með jarðarberjunum. Og það má auðvitað prófa sig áfram með öðrum berjum og ég ætla að prófa hana í sumar með rabarbara. Berið hana fram með nýþeyttum rjóma og bjóðið sumarið velkomið.

Jarðarberjakaka á hvolfi

(Uppskrift frá Joy the Baker)

  • 30 g smjör
  • 50 g púðursykur
  • 350 g jarðarber, skorin í sneiðar

—-

  • 115 g smjör, ósaltað og við stofuhita
  • 140 g púðursykur
  • 1 stórt egg
  • 1 tsk vanilludropar
  • 170 g hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/4 tsk matarsódi
  • 1/4 tsk salt
  • 1/4 tsk kardemommuduft
  • 1.5 dl sýrður rjómi

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C/350°F.

Takið fram 8″ (20 cm) eða 9″ (23 cm) hringlaga kökuform. Setjið 30 g af smjöri í formið og setjið inn í ofn til að bræða smjörið. Takið formið síðan út og passið að allur botninn sé þakinn smjöri og penslið því upp hliðarnar. Setjið til hliðar.

Takið fram stóra skál og hrærið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda, salti og kardemommudufti. Setjið til hliðar.

Þeytið saman smjöri og púðursykri í hrærivél í ca. 3 mínútur. Bætið eggi og vanilludropum saman við og þeytið í 1 mínútu.

Slökkvið á vélinni og setjið þurrefnin út í skálina. Hrærið saman á hægum hraða á meðan þið bætið sýrða rjómanum saman við. Deigið verður frekar þykkt. Stöðvið vélina og klárið að blanda saman með sleikju.

Sáldrið 50 g af púðursykri yfir smjörið í botninum á kökuforminu og leggið svo jarðarberin þar yfir. Sléttið úr berjunum með sleikju til að þau liggi ágætlega jafnt yfir.

Bakið í ofni í ca. 35 mínútur, eða þar til kakan hefur bakast í gegn.

Leyfið kökunni að kólna í 10 mínútur. Losið hana frá hliðunum á forminu með hníf og hvolfið henni svo á bretti eða kökudisk. Berið hana fram volga ásamt þeyttum rjóma.

Prenta uppskrift

5 athugasemdir Post a comment
  1. Cressida Gaukroger #

    Yum! I want some!

    19/04/2012
  2. Elsa #

    Innilegar hamingjuóskir til ykkar. Þetta er fallegar fréttir á fallegum degi. Njóttu þess!

    19/04/2012
  3. Þorbjörg #

    Mmm, lítur vel út! Og til hamingju með litla krílið ykkar :)

    19/04/2012
  4. Inga Þórey #

    Mmm ég bakaði þessa í gærkvöldi og hún stóðst sko allar væntingar – ljúffeng og fljótleg – hún kláraðist strax! Það dugði mér að nota svona 250 gr jarðaberjaöskju eins og fást hér heima, og jarðaberin urðu dásamleg með smjörinu og púðursykrinum :)

    19/06/2012

Færðu inn athugasemd við Cressida Gaukroger Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: