Mangó sorbet
Það er ýmislegt sem ég á eftir að sakna þegar við flytjumst yfir ána til Brooklyn – Riverside Park, arkitektúrsins í hverfinu okkar og kúbversku gamlingjanna sem hanga fyrir utan þvottahúsið hlustandi á háværa salsatónlist. En það sem ég á eftir að sakna mest og kvíði eiginlega að flytja frá er Barzini’s. Barzini’s er pínkulítil matvörubúð í eigu fúllyndra bræðra sem nær samt að pakka ótrúlegu úrvali af matvælum, ferskum ávöxtum og grænmeti, mörgum tegundum af bjór og framúrskarandi ostadeild í örfáa fermetra. Og það er alltaf ostasmakk í boði á meðan raðað er ofan í körfuna. En ég hef komist að því að Elmar hefur engan áhuga á að finna hráefni með mér þegar við stígum þangað inn, heldur labbar hann á milli ostabakka með tannstöngul við höndina og raðar í sig. Ef þið hafið verið að fylgjast með síðunni þá vitið þið að ég átti afmæli fyrir ekki svo löngu síðan. Ég fékk frábærar gjafir og á meðal þeirra var ísvél frá Emblu Ýri, litlu systur minni. Mig hefur langað í þessa blessuðu ísvél í háa herrans tíð og þó hún sé ekki dýr þá átti ég, sökum rýrs fjárhags, erfitt með að réttlæta kaup á henni. Þegar ég labbaði fram hjá Barzini’s um daginn og sá falleg mangó á spottprís, þá stóðst ég ekki mátið og ákvað að vígja vélina með mangó sorbet. Ísinn heppnaðist frábærlega og er hæfilega sætur með ríku og fersku mangóbragði. Ég er sérstaklega hrifin af sorbet í heitu veðri og eftir mat en mér líður eins og þeir hreinsa á mér bragðlaukana. Auðvitað þarf maður ekki að eiga ísvél til að búa til rjómaísa og sorbet en hérna er tengill á síðu sem útskýrir hvernig best er að fara að án ísvélar.
Mangó sorbet
(Uppskrift frá David Lebovitz: The Perfect Scoop)
- 2 stórir, þroskaðir mangóar
- 130 g sykur
- 160 ml vatn
- 4 tsk ferskur límónusafi
- 1 msk dökkt romm
- 1/8 tsk salt
Aðferð:
Flysjið mangóana og skerið aldinkjötið frá steininum. Skerið aldinkjötið í bita og setjið í blandara ásamt sykrinum, vatninu, límónusafanum, romminu og saltinu. Leyfið blandaranum að vinna þar til blandan verður kekkjalaus. Smakkið og bætið við límónusafa og/eða rommi ef þarf. Kælið blönduna í ísskáp í 2-3 klukkutíma, frystið hana svo í ísvél eftir leiðbeiningum frá framleiðanda.
ÚJE!!!
Er búin að vera semi-tölvulaus í smá tíma og var að vinna upp nokkrar færslur ;) Þetta er allt svo ofsalega ofsalega flott hjá þér að ég á bara ekki orð! Svo gaman að lesa/skoða.
*lemon squeeze*
xx
S
Þú ert best Sóla! Allra best!