Steikarsalat með kirsuberjatómötum og gráðosti
Ég er orðin svo yfir mig ástfangin af Brooklyn og þá sérstaklega fallega hverfinu okkar að það kemur alltaf á mig hik þegar fólk vill hitta mig hinum megin við ána á Manhattan. Ef ég veit að ég þarf að fara í miðbæ Manhattan þá þarf ég að tala mig aðeins til því að litla sveitastelpan sem blundar í mér er ekkert sérstaklega æst í að labba í mannmergðinni með ljósasýninguna fyrir augunum og flautulæti leigubílstjóranna í eyrunum. Og sem betur fer þarf ég ekki að fara oft þangað þar sem ég vinn heima og ég þarf ekki að leita langt til að finna frábæra veitingastaði, skemmtilega pöbba og flotta matarmarkaði. Ef þið eruð að ferðast til New York þá mæli ég eindregið og sterklega með því að þið eyðið (að minnsta kosti!) einum degi í einhverju skemmtilegu hverfi (því ekki eru þau öll fríð og fjörug) í Brooklyn.
Eins og ég hef minnst áður á er kominn nýr slátrari í hverfið okkar. Slátrarinn selur einungis kjöt sem hefur fengið eðlilega meðferð – fengið að labba úti í haga, borða gras en hefur ekki verið sprautað með hálfu tonni af sýklalyfjum og troðið út af korni. Ég trúi því staðfastlega að dýr sem alin eru við ,náttúrulegar’ aðstæður gefa af sér betra kjöt heldur en dýr sem alin eru við dapurlegar aðstæður verksmiðjubúskapar. Að minnsta kosti er kjötborð slátrarans það fallegasta sem ég hef séð og allir starfsmennirnir eru lærðir í iðninni og vita því sínu viti. (Kannski reyni ég að fá leyfi hjá þeim til að taka myndir fyrir ykkur.)
Við rákum augun í nautavöðva sem þeir mæltu sérstaklega með í salat síðasta sunnudag og héldum heim á leið með eldrautt kjötið, appelsínugula kirsuberjatómata af bændamarkaðnum og ost úr búðinni undir hendinni. Úr varð þetta unaðslega (ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á það), fallega og einfalda steikarsalat. Við elduðum kjötið þannig að það fékk á sig smá skorpu en var ennþá fagurrautt og meyrt að innan. Sinnepsvínagrettan passaði einstaklega vel við kjötið og litlu tómatarnir spýttu út úr sér sætum og ferskum safa þegar maður beit í þá. Þetta er án alls efa eitt það besta sem hefur komið út úr mínu eldhúsi.






















