Skip to content

Posts from the ‘Eldhúsráð’ Category

Búsáhöld

Ég fékk tölvupóst um daginn þar sem lesandi spurði mig út í uppáhaldseldhústólin mín og hvaða tól eru mér nauðsynleg. Mér fannst þetta áhugaverð spurning þar sem ég finn ýmsar leiðir til að réttlæta innkaup á tólum og tækjum fyrir eldhúsið. Og þó að flest innkaupin hafi átt rétt á sér þá verð ég líka að viðurkenna að sumt hefur ekki reynst mjög vel – eins og hunangsskeiðin sem ég er ekki ennþá farin að skilja verkfræðina á bak við eða hálfmánahnífurinn sem liggur aftast í skúffunni. Þessi tækjagleði mín í eldhúsinu hefur áhrif á innkaup mín á flestu öðru – ég t.d. sleppi því að kaupa mér nýja skó eða flíkur því mér finnst mikilvægara að kaupa mér mandólín eða nýtt viðarbretti. Því er erfitt að gera upp á milli þess sem ég kann varla að vera án í eldhúsinu lengur og þess vegna er hérna (tada!) listi yfir það besta og ,nauðsynlegasta‘ sem leynist í Vesturheimseldhúsinu (í engri sérstakri röð).

1. Ofnhitamælir:  Ég gæti ekki verið án ofnhitamælis og vil ekki hugsa til þess einu sinni. Málið er að margir ofnar eru ekki rétt stilltir. Ég hef aldrei búið í íbúð þar sem ofninn hefur ekki verið langt frá því hitastigi sem ég í sakleysi mínu hélt að ég væri að stilla hann á. Gasofninn sem við erum með hérna í Brooklyn er öfgafyllsta dæmið um þetta til þessa en hitastigið inni í ofninum er 20 – 25°C heitara en stillingin á ofninum sýnir.

2. Rifjárn, gróft og fínt:  Eftir að ég eignaðist fyrsta Microplane rifjárnið mitt þá var ekki aftur snúið. Ég mun líklegast aldrei eiga aðra tegund af rifjárni. Ég á fínt rifjárn sem ég nota fyrir krydd, – eins og kanilstangir og múskathnetur – börk á sítrusávöxtum og þegar ég vil rífa harðan ost í fíngerðar ræmur. Ég á líka gróft sem ég nota fyrir grænmeti, ost, súkkulaði, engifer o.fl. Rifjárnin eru mjög beitt og endast mjög vel. Ég er ekki orðin mikil merkjamanneskja þegar það kemur að eldhúsinu en ég get óhikað mælt með Microplane.

3. Góð matvinnsluvél:  Ég keypti mér netta matvinnsluvél fyrir peninginn sem móðurfjölskylda mín gaf okkur í brúðkaupsgjöf og ég hef alls ekki séð eftir því. Ég nota vélina mjög mikið og mér finnst hún orðin alveg ómissandi. Hún er fljót að rífa niður og sneiða osta, lauk og annað grænmeti og ég nota hana til að búa til pastasósur, brauðmylsnu, salsa verde, bökudeig, pastadeig og margt fleira. Vélin sem við eigum er Kitchenaid og ég er einstaklega ánægð með hana.

4. Sítruspressa:  Embla Ýr systir mín gaf mér þessa sítruspressu þegar hún var í heimsókn hjá okkur síðasta vor og hún er notuð óspart í eldhúsinu. Ég er reyndar mikill sítrusfíkill og bý reglulega til límónaði, læmónaði, áfenga drykki sem þurfa mikið af límónum og kökur sem krefjast þess að maður kreisti heil ósköp af sítrónusafa. Pressan þrýstir öllum safanum í gegnum göt sem hindra að steinar og mikið aldinkjöt fari úr ávextinum í glasið. Hún er alveg frábær.

5. Hvítlaukspressa sem virkar:  Elmar horfði á mig með efasemdar- og hneykslunarsvip þegar ég kom fyrst heim úr uppáhaldsbúsáhaldabúðinni minni með hvítlaukspressuna okkar. Hann fullyrti að hann hefði aldrei notað hvítlaukspressu sem krefðist minni fyrirhafnar en að afhýða rif og saxa. Í dag mun Elmar vera fyrstur manna til að viðurkenna að þetta er eitt uppáhaldseldhúsáhaldið hans. Það þarf ekki að taka hýðið utan af hvítlauksrifinu áður en það er sett í pressuna og það þrýstir bókstaflega öllum hvítlauknum út og skilur einungis eftir hýðið. Nú veit ég ekki hvort þessi tiltekna tegund fæst heima á Íslandi en það er hægt að panta af Amazon eða hreinlega fá búsáhaldabúðina ykkar til að flytja hana inn. Pressan hefur ratað í ófáa gjafapakka frá okkur undanfarin ár.

6. Húðaður steypujárnpottur:  Ég hef skrifað oft um járnpottinn minn á þessari vefsíðu og það er ekki að ástæðulausu. Þetta er ein sniðugasta fjárfesting mín í eldhúsinu. Potturinn sem getur farið beint af hellu inn í ofn, leiðir hitann jafnt og vel, virkar á allar eldavélarhellur og er svo fagur að hann er hin mesta prýði á borðstofuborðinu. Svona pottar eru til í öllum verðflokkum – IKEA framleiðir svona pott, ég á ódýran pott frá Lodge en mig dreymir um að eiga einn frá Staub eða Le Creuset.

7. Steypujárnpanna:  Svona pönnur eru alveg fáránlega ódýrar hérna í Bandaríkjunum miðað við að með réttri meðhöndlun geta þær enst í margar kynslóðir. Mig langar voðalega lítið til að teygja mig í ódýru teflonhúðuðu IKEA pönnurnar mínar eftir að þessi panna kom í eldhúsið. Ég lofa ykkur því að engin panna mun snöggsteikja steik eins fallega og sjóðandi heit járnpanna, pönnukökurnar fá gyllta og stökka skorpu og allt kjöt verður betra steikt á pönnunni. Og þegar þið eruð ekki að nota hana þá má nýta hana sem æfingarlóð – þessar pönnur eru þungar.

8. Hnífabrýni:  Þetta er nýjasta (og ein ódýrasta) viðbótin í tólaskúffuna okkar og ég skil ekki af hverju ég beið svona lengi með að eignast svona brýni. Við eigum ódýra hnífa sem eru fljótir að missa bit og gera það að verkum að oft hef ég kreist allan safa úr tómötum við það að reyna að skera í gegnum þá. Þetta brýni er mjög einfalt í notkun og gerir eggina mjög beitta með nokkrum strokum.

9. Tangir:  Mér líður eins og ég sé næstum því handalaus þegar ég lendi í eldhúsi án tanga. Tangirnar eru eins og hitaþolin framlenging á höndunum og við notum þær daglega. Við eigum tvennar – einar stuttar úr málmi og aðrar langar sem eru sílíkonhúðaðar í endana. Í rauninni þarf maður bara þessar sem eru með sílíkonenda (því þær fara vel með húðaðar pönnur og potta) en ég nota líka málmtangirnar mikið.

10. Góð hrærivél:  Þetta eldhústæki er kannski ekki bráðnauðsynlegt. Ég var án hrærivélar í nokkur ár og notaði einungis hræódýran handþeytara með ágætis árangri. En fyrir þau okkar sem baka mikið þá felst mikill tíma- og vinnusparnaður í að eiga svona græju. Mér þykir vandræðalega vænt um fölgrænu KitchenAid vélina mína, strýk henni reglulega og sakna sko ekki þeirra daga þar sem ég stóð yfir skál af smjöri og sykri í fleiri mínútur með handþeytarann í annarri og tímarit í hinni (ég er ekki þolinmóð sál).

[Ég get eiginlega ekki lokið þessari færslu án þess að minnast á nokkur lúxustæki sem við erum orðin háð – espressóvélin okkar, kaffikvörninódýra en frábæra ísvélin og litla japanska mandólínið mitt.]

Þetta eru topp tíu eldhústólin okkar. Það væri líka gaman að heyra hvaða eldhúsáhöld eru í uppáhaldi hjá ykkur.

%d bloggurum líkar þetta: