Skip to content

Hanastél: Gylfagin

Þar sem við Elmar búum með Þórdísi langt frá fjölskyldum okkar þá missum við af vissum ,fríðindum’. Við erum ekki með neina pössun fyrir hana og höfum því skipt liði þegar það kemur að því að fara út á kvöldin með vinum. Við söknum þess eilítið að geta ekki farið saman út, bara tvö. Þessi löngun ýkist að mörgu leyti þegar maður býr í stúdíóíbúð og þarf að fara hljóðlega um á kvöldin til að vekja ekki barnið. En undanfarið höfum við átt góðar kvöldstundir, við tökum spil við kertaljós og drekkum einhvern drykk saman. Í gærkvöldi blandaði ég þennan ljúffenga kokkteil á meðan Elmar svæfði og við sötruðum á honum yfir nýja spilinu okkar.

Við keyptum gin frá Islay í Skotlandi – The Botanist – um daginn sem ég er alveg kolfallin fyrir. Viskíframleiðandinn Bruichladdich býr til takmarkað upplag af því en meirihluti jurtanna sem fara í ginið eru tíndar í námunda við verksmiðjuna. Ég blandaði því saman við nýkreistan sítrónusafa og sletti smá tímíansírópi sem ég hafði búið til fyrr um daginn. Mér fannst uppskriftin fyrir sírópið þó heldur stór og hef minnkað hana hér að neðan. Útkoman er ferskur og eilítið kryddaður gindrykkur sem rennur ljúflega niður. Það má svo auðvitað sleppa gininu fyrir þá sem ekki drekka.

*Tónlist með: Samaris – Góða Tungl

Gylfagin

(Uppskrift frá Heidi Swanson)

 • 2 msk gin
 • 1 msk nýkreistur sítrónusafi
 • 2 tsk timíansíróp (sjá uppskrift neðar)
 • klakar
 • 3 msk tónik eða sódavatn (eða eftir smekk)

Aðferð:

Notið lítið glas. Hellið gini, sítrónusafa og timjansírópi út í glasið og hrærið. Fyllið glasið með klökum og hellið tónikinu/sódavatninu yfir.

Tímíansíróp

 • 1 bolli vatn
 • 1/2 bolli sykur
 • lítið handfylli timjangreinar

Aðferð:

Setjið öll hráefnin saman í lítinn pott. Setjið yfir meðalháan hita og náið upp hægri suðu. Leyfið að sjóða í nokkrar mínútur. Slökkvið undir pottinum og látið vera í 10 mínútur. Hellið í gegnum síu ofan í krukku eða flösku. Geymið í kæli.

Gerir 1 drykk

Prenta uppskrift

7 athugasemdir Post a comment
 1. Ég er sjúk í gin og þessi kokteill hljómar mjög skemmtilega! Við erum í nákvæmlega sömu stöðu hvað barnapössun varðar en höfum ekki tekið upp á því að blanda kokteila hérna heima – góð hugmynd samt! :)

  22/01/2013
  • Ég mæli með því :) Það gerir kvöldin aðeins skemmtilegri.

   22/01/2013
 2. Svanur #

  Það má líka fikra sig áfram með tónikið. Ég prófaði nýlega svolítið dýrt tónik frá framleiðanda sem kallast Fever Dream. Fann það í búðinni góðu í nágrenninu mínu, Eagle Provisions. Þar er alvöru sykur notaður og nokkuð minni kolsýra sem mér fannst virka ansi vel. En timjansírópið hljómar áhugavert svo ég mun örugglega prófa það einn daginn.

  22/01/2013
  • Ég er einmitt mikð búin að vera að pæla í tóniki undanfarið. Tónikið sem við keyptum (og er á myndinni hér að ofan) var einmitt rándýrt og það er líka mjög gott. Ég ætla að svipast um eftir Fever Dream (Tree?) og prófa það. Annars var ég að spá hvort það væri aðeins of nördalegt að búa til tónik sjálf. Kannski…

   22/01/2013
 3. Sæll Svanur – er það kannski Fever Tree sem þú ert að vísa í – breskt tónik sem er alveg yndis gott! Verð að prófa þennan kokkteil – timjansírópið hljómar mjög spennandi.

  22/01/2013
  • Ég er alveg yfir mig hrifin af þessu tímíansírópi og finnst það mjög skemmtileg viðbót í drykki. Ég hugsa að rósmarínsíróp sé svo næst á dagskránni.

   22/01/2013
 4. Svanur #

  Já, Fever Tree er tónikið. Fever Dream er allt annað hugtak, og væri líklegast gott nafn á Absinthe.

  23/01/2013

Færðu inn athugasemd við Nanna Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: