Skip to content

Litlar Svartaskógskökur

Það er október, hitinn hangir enn í tuttugu gráðum, sum trén eru enn sumargræn en það rignir líka marglitum laufblöðum niður á gangstéttirnar. Þetta er þriðja haustið okkar hérna úti en ég hef enn ekki vanist þessu. Það er komið haust en veðrið er eins og á (lang)bestu sumardögunum heima. Ég er svo kolrugluð að ég hef ekki hugmynd um hvernig ég á að mér að vera. Ég ákvað því að ná áttum með því að baka smákökur. Smákökur eru áreiðanlegar og auðveldar. En þessar náðu líka að læðast aftan að mér og koma mér á óvart. Skemmtilega á óvart. 

Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar ég beit í fyrstu kökuna og hélt í stutta stund að ég væri að borða brúnu en ekki smáköku. Þessar smákökur eru súkkulaðidásemd aldarinnar og ég verð að finna leiðir til að koma þeim ofan í aðra. Ég á eftir að vera með magapínu í marga daga ef ég úða þeim öllum í mig ein. Ég ákvað að gera hálfa uppskrift (ég læt upprunalegu uppskriftina fylgja) og fékk samt 24 stórar smákökur. Þær eru mjúkar, seigar, sætar og pakka svo miklu súkkulaði í einum bita að augun ragnhvolfast í höfðinu. Þær eru byggðar á hinni víðfrægu Svartaskógsköku, sem er súkkulaðikaka með kirsuberjalíkjör og þeyttum rjóma, og eru núna uppáhaldssmákökurnar mínar. Ef smákökur má kalla.

Litlar Svartaskógskökur

(Uppskrift úr Baked: New Frontiers in Baking)

 • 90 g hveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 450 g dökkt súkkulaði (60 – 72%)
 • 140 g ósaltað smjör, skorið í litla bita
 • 6 stór egg
 • 280 g sykur
 • 200 g ljós púðuryskur
 • 1 msk vanilludropar
 • 170 g suðusúkkulaði, skorið í litla bita (eða notið chips……..
 • 170 g hvítt súkkulaði, skorið í litla bita
 • 170 g þurrkuð trönuber

Aðferð:

Sigtið hveiti, lyftidufti og salt ofan í meðalstóra skál og setjið til hliðar.

Setjið gler- eða álskál yfir pott með hægsjóðandi vatni (ekki leyfa skálinni að snerta vatnið samt!). Setjið smjörið og dökka súkkulaðið í skálina og leyfið að bráðna hægt og rólega. Hrærið af og til þar til allt hefur bráðnað alveg og blandan er kekkjalaus. Takið af hita og setjið til hliðar til að kólna.

Setjið sykurinn og eggin í hrærivél og hrærið á hröðustu stillingu í ca. 5 mínútur, eða þar til blandan er þykk og ljós á litinn.

Bætið kólnuðu súkkulaðiblöndunni og vanilludropunum samn við og hrærið hægt saman þar til allt hefur rétt svo blandast saman.

Bætið hveitiblöndunni saman við og blandið hægt saman þar til allt hefur rétt svo blandast saman, ca. 10 sekúndur. Ekki hræra of mikið!

Blandið súkkulaðibitunum og trönuberjunum varlega saman. Deigið mun vera frekar fljótandi en það mun harðna við kælingu. Setjið í ísskáp í 6 klst eða yfirnótt. [Ég var mjög óþolinmóð og stakk skálinni inn í frysti í 1 klst.]

Hitið ofninn í 190 C og setjið bökunarpappír á tvær ofnplötur. Takið deigið úr kælinum og skafið eina matskeið af deigi og setjið á plötuna, haldið því áfram og skiljið eftir 2 sm bil á milli deigbitanna. Bakið í 10 – 12 mínútur, snúið ofnplötunni þegar helmingur af tímanum er liðinn, þar til að topparnar eru eldaðir og farnir að mynda sprungur. Takið úr ofninum og leyfið að kólna í smá stund á ofnplötunni áður en kökurnar eru teknar af og bornar fram.

Smákökurnar geymast í loftþéttum umbúðum í ca. 3 daga.

Gerir 24 smákökur

2 athugasemdir Post a comment
 1. Ó bara ef ég væri ekki 100% viss um að ég myndi klúðra þessu á einhvern hátt – þá myndi ég prófa. Fæ bara að smakka hjá þér við tækifæri í staðinn. xxx

  13/10/2011
 2. Þetta er stórhættuleg uppskrift!!

  14/10/2011

Færðu inn athugasemd við Embla Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: