,Butternut’-graskerssúpa
Ef það er eitthvað sem ég hef alltaf saknað við Ísland þegar ég er fjarri þá er það einangrunin í húsunum og ofnkyndingin. Það er ekkert grín að vakna í íbúð sem er ísköld og það er ekkert sem þú getur gert í því. Þegar ég bjó í Edinborg og var að skrifa ritgerðir í desember þá sat ég á milli tveggja rafmagnsofna, í lopapeysu, föðurlandi, íslenskum lopasokkum, með grifflur og húfu og drakk heitt te af miklum móð í örvæntingafullri tilraun til að halda á mér hita. Nú hefur haustið hafið innreið sína í Brooklyn en það er ekki byrjað að hita kofann. Við vöknuðum því í gærmorgun köld, slöpp og kvefuð og drógum fjall af lopaklæðnaði úr fataskápnum. Það var því tilvalin dagur til að kveikja á ofninum, baka grænmeti og malla súpu.
Ég hafði keypt tröllvaxið ,butternut’grasker af bændamarkaðnum deginum áður. Ég skar það í tvennt, skellti því inn í ofn og leyfði því að bakast þar í rúman klukkutíma. Graskerið er sætt fyrir en verður enn sætara við ofnbakstur. Ég setti múskat og salvíu í súpuna en ég held að hún sé líka góð með karríkryddi, chili, geitaosti, timíani eða engiferi. Möguleikarnir eru margir og auðvelt að leika sér með uppskriftina.
Butternut-graskerssúpa
(Uppskrift frá Greedy Gourmet)
- 1 msk ólívuolía
- 30 g smjör
- 1 stór laukur, saxaður
- 2 hvítlauksgeirar
- 4 salvíulauf, rifin
- 900 g butternut-grasker
- 900 ml grænmetis- eða kjúklingasoð
- 1 tsk múskat
- 30 g graslaukur, saxaður [má sleppa]
Aðferð:
Hitið ofninn í 180 C.
Skerið graskerið í tvennt, sáldrið ólívuolíu yfir helmingana og leggið á ofnplötu eða í eldfast mót. Setjið hvítlauksgeirana á ofnplötuna. Bakið í ofni í ca. 45 mínútur eða þar til graskerið verður meyrt og graskerið hefur orðið gyllt á pörtum [þetta tók rétt rúman klukkutíma hjá mér]. Fylgist með og takið hvítlauksgeirana úr ofninum eftir 30 mínútur (það fer eftir stærð en þeir geta brunnið við). Skafið fræin frá og hendið. Skafið kjötið frá hýðinu og hendið hýðinu.
Hitið smjörið og olíuna í stórum potti yfir meðalháum hita og steikið laukinn í ca. 5 mínútur eða þar til hann hefur mýkst og er orðinn glær á litinn. Setjið graskerskjötið í pottinn og kreistið hvítlauksgeirana úr hýðinu ofan í pottinn. Bætið soðinu og múskatinu saman við og hrærið öllu vel saman. Náið upp suðu og sjóðið í 10 mínútur.
Takið pottinn af hitanum og maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél.
Saltið og piprið ef þarf og sáldrið graslauknum yfir hverja skál. Berið fram strax með brauði og smjöri.
Fyrir 4
Þetta ætla ég að prófa, á meira að segja lítið grasker sem að reyndar er nú bara keypt í Hagkaup. En sannarlega ætla ég að setja þessa uppskrift í bókina mína sem að ég tek alltaf með mér til Brooklyn þegar við gistum hjá honum syni okkar sem þar er búsettur og hans konu,
Svo er bara að vona að það snjói og verði vetrarlegt í janúar svo að við njótum súpunnar.
En hvað það er gaman að heyra! Það verður örugglega mjög notalegt hjá ykkur í New York-kuldanum með þessa súpu fyrir framan ykkur.
Alltaf gott að gæða sér á súpu þegar það fer að kólna. Kannski ég geri þessa á morgun, hver veit.
Gyða.
það er spurning hvort ég fái svona grasker hér á eyjunni fögru…;-)
kveðja
Kolbrún
Sæl Kolbrún. Ég hef það frá áreiðanlegum heimildum að svona grasker fáist stundum í Hagkaupum og Kosti (en örugglega töluvert erfiðara að nálgast slíkt ef þú býrð utan höfuðborgarsvæðisins). Það má samt alveg skipta því út fyrir annars konar grasker. Þau eru öll með ólíka bragðeiginleika en eldast að jafnaði eins :)
Ég hef keypt Butternut grasker í Hagkaup og ég held að þau fáist líka í Nóatúni og Víði.
Sæl Nanna, datt inn á síðuna þína, er einmitt að prófa þessa í kvöld. Ilmurinn er indæll og hlakka til að bera hana á borðl Mjög góð og skemmtileg síða sem gefur manni fínar hugmyndir. Bestu kveðjur
Árdís
Takk kærlega fyrir það Árdís. Vonandi smakkaðist súpan vel :)
Mjög góð súpa. Gaman að prófa buttercup grasker.
Butternut!
En gaman að heyra :) Það er alveg pottþétt komin súputíð á Íslandi.