Skip to content

Súkkulaði- og bananabrauð með súkkulaðibitum

Ég hef ekki verið mjög ötul við að elda eða baka nýja rétti undanfarið. Við höfum staðið í flutningum og erum nýbúin að koma okkur endanlega fyrir í litlu og fallegu íbúðinni okkar í Brooklyn. Ég er hæstánægð með eldhúsið sem er með risastórum ísskáp, tvöfalt stærri eldavél en áður og skápa sem ná svo hátt upp í loft að ég þarf að standa á tám ofan á stól til að ná í efstu hillurnar (ég hef þó smá áhyggjur af framtíðarslysförum við þá iðju). En við höfum verið að kynnast undanfarna daga, ég og eldhúsið, og þess vegna hef ég verið að elda gamla og kunnuglega rétti ofan í okkur. Eins og linguine með sítrónum og kryddjurtum, pasta með kúrbít og chili og quesadillur með hráskinku og jalapeno

Í dag ákvað ég samt að prufukeyra ofninn og skella í eitt brauð með kaffinu. Brauð sem er með súkkulaði, banönum og svo meira súkkulaði. Brauð sem fyllir íbúðina af yndislegri súkkulaðilykt og gerir kytruna okkar ennþá heimilislegri. Brauð sem er með svo hættulega góðu deigi að ég stóð við vaskinn og sleikti skál og sleif þar til ég var óþekkjanleg í framan og með súkkulaðibletti yfir mig alla. Sem var mjög skemmtilegt nema ég sé svolítið eftir að hafa verið svuntulaus í hvítum bol. Ég hefði kannski mátt sleppa því að hvolfa skálinni yfir hausnum á mér til að ná í síðustu deigklessurnar.

Brauðið er með ríku súkkulaðibragði og bananabragðið kemur sterkt fram. Elmar líkti bragðinu við grillaðan banana með súkkulaðisósu og ég held að það sé ansi nærri lagi. Það er þykkt, sætt, örlítið klístrað og syndsamlega gott (og þá meina ég syndsamlega). Það er bráðnauðsynlegt að hafa kaffibolla með sterku góðu kaffi í eða ískalt mjólkurglas við hendina. Farið svo með restina í skólann/vinnuna/til nágrannans til að halda sykur- og súkkulaðivímunni í lágmarki.

Súkkulaði- og bananabrauð með súkkulaðibitum

(Uppskrift frá Dorie Greenspan: Baking: From my home to yours)

 • 250 g hveiti
 • 130 g kakóduft, án sætuefna
 • 1 1/2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 1/4 tsk matarsódi
 • 115 g smjör, ósaltað og við stofuhita
 • 170 g sykur
 • 100 g ljós púðursykur
 • 2 stór egg, við stofuhita
 • 2 þroskaðir bananar, stappaðir
 • 180 ml ,buttermilk’*
 • 80 g dökkt súkkulaði, gróflega saxað
[*,Buttermilk, er keimlík íslenskri súrmjólk en er þó ekki eins þykk. Það má e.t.v. skipta út fyrir 120 ml af súrmjólk og 60 ml af nýmjólk. Það sem ég geri er að blanda 1 msk af nýkreistum sítrónusafa út í 1 bolla af nýmjólk, hræri og leyfi að standa í 2 mín og nota svo í deigið.]

Aðferð:

Setjið grind í miðjan ofninn og hitið hann í 180°C. Smyrjið lítið brauðform (ég notaði 9″x5″), setjið það ofan á ofnplötu og bökunarpappír (það kemur í veg fyrir að brauðið bakist of mikið í botninum á forminu).

Sigtið hveitið, kakóduftið, lyftiduftið, saltið og matarsódann ofan í meðalstóra skál. Hrærið því saman með písk.

Setjið smjörið í skál og þeytið með handþeytara eða í hærivél í rúma mínútu eða þar til smjörið verður mjúkt. Bætið sykri og ljósum púðursykri saman við og hrærið í 2 mínútur til viðbótar. Bætið eggjunum saman við, einu í einu og hrærið í eina mínútu eftir hvert egg. Stillið hrærivélina á lægstu stillingu og bætið stöppuðu banönunum saman við. Bætið þurrefnablöndunni saman við í þremur skömmtum og hærið eftir hvern skammt rétt þar til þurrefnin hafa gengið inn í deigið (ekki þeyta það of mikið). Bætið súrmjólkinni og mjólkinni saman við og hærið á lágri stillingu þar til mjólkin hefur blandast við deigið. Slökkvið á vélinni og blandið súkkulaðibitunum saman við með sleikju. Hellið deiginu í smurða formið og setjið inn í ofn.

Bakið í 30 mínútur. Takið brauðið úr ofninum og hyljið lauslega með álfilmu (þetta kemur í veg fyrir að toppurinn á brauðinu brenni eða ofbakist). Setjið aftur inn í ofn og bakið í 40 til 45 mínútur eða þar til brauðið hefur bakast í gegn.

Setjið brauðið á grind og leyfið að kólna í ca. 20 mínútur áður en brauðinu er hvolft úr forminu. Þegar það hefur kólnað er best að renna hnífi með fram brauðinu og forminu til að losa brauðið frá. Leyfið að ná stofuhita áður en það er borið fram.

5 athugasemdir Post a comment
 1. Þóra frænka #

  Þarf maður ekki að kíkja til Brooklyn? – ég meina til þess að fá eitthvað almennilegt að borða þegar H er á þönum um heiminn!

  06/09/2011
 2. En gaman að sjá annan bakgrunn en venjulega….
  – fær maður að sjá myndir af nýja eldhúsinu ?

  Erum að leggja lokahönd á að bóka gistingu í Brooklyn, hlakka svo mikið til að sjá ykkur, þú trúir því ekki ! ! !

  06/09/2011
  • Ég á eitthvað erfitt með að ná góðri mynd af eldhúskróknum en strax og það gerist þá fleygi ég því inn í færslu :)

   Við erum farin að hlakka til að sjá ykkur líka! Ég fæ andarteppu við tilhugsunina!

   06/09/2011
 3. Ásdís #

  Þessi er hriiiikalega góð. Geri hana aftur! Gerði hana með Green & blacks kakódufti og 70% súkkulaði.

  29/06/2013

Færðu inn athugasemd við Gudny Ebba Thorarinsdottir Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: