Skip to content

Posts from the ‘Bjór’ Category

Bruggað í Vesturheimi: Amerískt ,indíafölöl’

Við erum mjög spennt að kynna nýjan dálk á blogginu – Bruggað í Vesturheimi. Stuttu eftir að við fluttum inn í íbúðina okkar í Brooklyn opnaði bruggbúðin Bitter and Esters handan við hornið. Bitter and Esters er rekin af tveimur vinum sem ákváðu að taka áhættuna saman, opna búð og bruggaðstöðu, og deila áhugamáli sínu með öðrum Brooklynbúum. Þeir hafa staðið svo fagmannlega að búðinni að fólk kemur frá öllum hverfum New York til að sækja bruggtíma hjá þeim, brugga saman á staðnum eða kaupa hráefni í bjórana sína. Elmar skellti sér á námskeið hjá þeim fyrir jól og hefur síðan bruggað fjórum sinnum. Við munum af og til setja inn færslur og fróðleik um það sem við erum að brugga hverju sinni og vonum að einhverjir hafi gagn og gaman af.

Við eigum ennþá eftir að fullkomna þetta nýja áhugamál okkar en mér datt í hug að sumir lesendur síðunnar hefðu gaman af því að fá smá innlit í ferlið og afraksturinn. Okkur finnst alveg ótrúlega gaman að búa til hluti frá grunni – ég er til dæmis svona hársbreidd frá því að finnast býflugnabúskapur besta hugmynd í heimi – og Elmari finnst einstaklega gaman að rækta bjórnördinn innra með sér. Reyndar komumst við að því stuttu eftir að bruggferlið hófst að ég væri með barni og því hefur bruggunin og bjórsmökkunin fallið í hans hlut. Það er því við hæfi að ég gefi honum orðið.

Amerískt ,indíafölöl’, eða American India Pale Ale, er sá bjór sem helst skilgreinir bjórbyltinguna sem hefur átt sér stað í Bandaríkjunum. Í Oregon og Washington eru ræktaðir humlar sem Evrópubúum hafði alltaf þótt slæmir til bjórbruggunar. En á áttunda og níunda áratuginum hófu heimabruggarar á Austurströndinni að gera tilraunir með þessa humla. (Það hjálpaði sannarlega til að Jimmy Carter átti drykkfelldan, bjórelskandi bróður og lögleiddi því heimabruggun í forsetatíð sinni.) Humlarnir eru miklu bragðmeiri og ilmsterkari en evrópskir humlar; þeir geta gert bjórinn mjög beiskan og gefið honum sérstakt sítrusbragð. Enn skemmtilegra er það hvernig þeir geta gefið bjórunum sérkennilegt blómabragð eða sterkan blómailm. Ilminum nær maður best fram með því að ,þurrhumla’ bjórinn á meðan hann gerjast. En það gerðum við einmitt með þennan bjór.

Fyrir þá sem ekki hafa smakkað alvöru IPA eða finnst þeir hræðilega vondir skal bent á að þetta er um margt áunninn smekkur. Það tók okkur tvö ár að læra að kunna að meta humluðustu bjórana. En takið eftir: þetta er auðvitað líka, einsog flestir góðir bjórar, matbjór. Beiskleikinn og sítrusinn fara ótrúlega vel með öllum sterkum mat, sérstaklega mjög sterkum mexíkóskum mat. Þetta á líka við um fölöl sem er ekki indíafölöl. Ef þið eigið leið til Bandaríkjanna þá eru sígild fölöl á almennum markaði t.d. Sierra Nevada Pale Ale, Bear Republic Racer 5 og Stone IPA. Ensk fölöl eru frekar ólík þeim amerísku, en belgísk eru stundum sambærileg (og oft alveg ótrúlega góð). Fyrir þá allra hugrökkustu mælum við með Palate Wrecker frá Green Flash Brewery – en hann er svo beiskur að maður finnur ekkert annað bragð í svona klukkutíma á eftir. Reyndar mælum við með öllum bjórum frá Green Flash. Nú vitum við að bjórmenning á Íslandi er ekki eins fjölbreytileg og hjá okkur hérna úti en það er þess virði að vera vakandi fyrir úrvalinu í Ríkinu og jafnvel á hinum nýtilkomna Microbar í Reykjavík og stökkva á tækifærið ef amerískur IPA er í boði.

Það þarf bara fjögur hráefni til að brugga bjór: maltað bygg, humla, ger og vatn. Öll fjögur geta breytt miklu í lokaafurðinni en í þessum bjór skipta humlarnir mestu. Venjulega er frekar hlutlaust bygg notað sem grunnur, s.s. American 2-row eða Maris Otter. Svo er bragðmalti bætt við í litlum skömmtum, s.s. Crystal- eða Münchenbygg. Humlar geta verið af ýmsum tegundum s.s. Columbus, Centennial eða Cascade. Í þessari uppskrift notum við aðallega Centennial, sem gefur beiskleika, sítrus, greipaldinsbragð og svolítinn blómakeim. California Ale ger er oft notað og við notum það hér.

Það væri alltof langt gengið í nördaskap að lýsa bruggferlinu ítarlega hér. Því mun bara farið snögglega yfir aðalatriðin hér fyrir þá sem hafa áhuga. Fyrir þá sem ekki hafa bruggað áður er nauðsynlegt að byggja á nákvæmari leiðbeiningum, t.d. um þau tól og tæki sem nota þarf. Til eru fjölmargar síður á netinu um bjórbruggun, t.d. hér. Við erum farin að styðjast við þessa bók en hún er mjög auðveld í notkun. Þessi bók eftir stofnanda Brooklyn Brewery er mjög skemmtileg aflestrar og lýsir því hvernig best er að para saman bjór og mat. Við gerum ráð fyrir að skrifa heila færslu síðar helgaða því að útrýma hinni rótföstu goðsögn að góða osta eigi helst að borða með rauðvíni – en það er einfaldur misskilningur sem má lækna með sæmilegum bjórsmekk. Á Íslandi er sennilega best að kaupa hráefnin hér, en ég þekki íslenskan markað samt ekki mjög vel. Svo má líka benda á þetta spjallborð fyrir bjóráhugamenn á Íslandi.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: