Skip to content

Posts from the ‘Bandarískt’ Category

Brúnur

Ég kvaddi litlu systur mína í dag eftir að hafa átt ævintýralega skemmtilega matar- og víndrykkjuviku á Manhattan. Það voru reyndar nokkrir (ehemm, flestir) dagar þar sem við flúðum heim í úrhellisrigningu með júmbóhvítvínsflösku undir handleggnum, hnerrandi og með skvamphljóð í skónum, en við gerðum okkar besta að láta það ekki á okkur fá.

Það var einmitt á einum slíkum rigningardegi sem ég skipaði Emblu undir sæng og píndi ofan í hana nokkra lítra af heitu tei, sem ég nýtti langþráð tækifæri til að búa til þessar brúnur (eða brownies eins og Kaninn kallar þær). Ég keypti bókina Baked um daginn og hef beðið eftir hentugum tíma til að baka eitthvað upp úr henni. Þessi uppskrift er talin vera besta brúnuuppskrift í Bandaríkjunum og hún sveik mig ekki. Kakan er dökkbrún og hefur mikið súkkulaðibragð, espressóduftið gefur henni örlítið biturt bragð og gerir það að verkum að brúnubitarnir eru alls ekki of sætir.

Baked er bakarí í Red Hook hverfinu í Brooklyn og mig hefur lengi langað að fara þangað til þess eins að smakka þessar brúnur. Ég hef ekki látið það eftir mér þar sem það er ótrúlega mikið vesen að komast þangað og ennþá erfiðara að komast aftur heim (engin hringferð í boði hér). Og þar með eru leiðindin ekki uptalin því bakaríið er einnig í sama útnára og IKEA verslunin og eins þakklát og ég er fyrir það ágæta framlag Svía, þá vekur það óhjákvæmilega ömurlegar tilfinningar að þurfa að endurupplifa ferðalög okkar þangað.

Það styttist reyndar óðum í að ég eigi stutt stopp á Skerinu og maginn á mér fer í hnút í hvert skipti sem ég kíki á veðurspána. Næturfrost og snjór í Esjuhlíðum? Bjakk og nei takk! Þið kippið þessu í liðinn áður en ég lendi. Ég vil ekki þurfa að snúa við.

SJÁ UPPSKRIFT

Vesturheimsborgari með kartöflubátum

Ég var búin að ákveða að búa til quiche í gærmorgun. Svo ákveðin var ég að ég gerði lúsarleit að quicheformi í Brooklyn og í efri vesturbæ Manhattan. En ég átti ekki erindi sem erfiði. Það er eins og enginn í þessari borg búi til quiche eða hafi áhuga á slíkum formum. Sem ég á reyndar erfitt með að trúa, kannski eru bara allir að búa til franskan mat þessa dagana. Ég kom heim stúrin og ágætlega foj út í heiminn og fór að fletta nýjum uppskriftum í leit að hentugri innblæstri. Eins og svo oft áður tók ég fram bókina Jamie’s Dinners og rakst á uppskrift sem ég hafði merkt við fyrir löngu síðan – hamborgari með kartöflubátum. Elmar var yfir sig hrifinn (enda er hann svolítið kjötsveltur, grey karlinn) og við skrifuðum innkaupalista og fórum í leiðangur í Whole Foods þar sem hálfur heimurinn virtist saman kominn.

Við vorum svo heppin að finna nautahakk frá bónda sem sprautar ekki hormónum í dýrin sín og leyfir þeim að bíta alvöru gras út í haga, án þess að þurfa að borga morðfjár fyrir pundið. Við fylltum kerruna af alls kyns meðlæti, drykkjum og grænmeti og röltum heim í fallegu vorveðri. Við tók mikil eldamennska þar sem við stóðum sveitt yfir pottum og pönnum meðan ofninn hitaði íbúðina meira en æskilegt var. Og útkoman var himnesk! Hamborgarinn hafði sérstakt kúmenbragð og við hlóðum hann með osti, gráðosti, steiktum sveppum, lauk, tómötum, avókadó og (auðvitað) beikoni. Kartöflubátarnir voru fullkomnir, stökkir að utan en mjúkir að innan og sáraeinfaldir í undirbúningi. Og verandi þau heimsklassahjón sem við erum þá var auðvitað drukkið rauðvín með.

Kannski ég og heimurinn förum að finna réttan takt aftur.

SJÁ UPPSKRIFT