Brúnur
Ég kvaddi litlu systur mína í dag eftir að hafa átt ævintýralega skemmtilega matar- og víndrykkjuviku á Manhattan. Það voru reyndar nokkrir (ehemm, flestir) dagar þar sem við flúðum heim í úrhellisrigningu með júmbóhvítvínsflösku undir handleggnum, hnerrandi og með skvamphljóð í skónum, en við gerðum okkar besta að láta það ekki á okkur fá.
Það var einmitt á einum slíkum rigningardegi sem ég skipaði Emblu undir sæng og píndi ofan í hana nokkra lítra af heitu tei, sem ég nýtti langþráð tækifæri til að búa til þessar brúnur (eða brownies eins og Kaninn kallar þær). Ég keypti bókina Baked um daginn og hef beðið eftir hentugum tíma til að baka eitthvað upp úr henni. Þessi uppskrift er talin vera besta brúnuuppskrift í Bandaríkjunum og hún sveik mig ekki. Kakan er dökkbrún og hefur mikið súkkulaðibragð, espressóduftið gefur henni örlítið biturt bragð og gerir það að verkum að brúnubitarnir eru alls ekki of sætir.
Baked er bakarí í Red Hook hverfinu í Brooklyn og mig hefur lengi langað að fara þangað til þess eins að smakka þessar brúnur. Ég hef ekki látið það eftir mér þar sem það er ótrúlega mikið vesen að komast þangað og ennþá erfiðara að komast aftur heim (engin hringferð í boði hér). Og þar með eru leiðindin ekki uptalin því bakaríið er einnig í sama útnára og IKEA verslunin og eins þakklát og ég er fyrir það ágæta framlag Svía, þá vekur það óhjákvæmilega ömurlegar tilfinningar að þurfa að endurupplifa ferðalög okkar þangað.

Það styttist reyndar óðum í að ég eigi stutt stopp á Skerinu og maginn á mér fer í hnút í hvert skipti sem ég kíki á veðurspána. Næturfrost og snjór í Esjuhlíðum? Bjakk og nei takk! Þið kippið þessu í liðinn áður en ég lendi. Ég vil ekki þurfa að snúa við.






