Heimalöguð pítsa
Við erum komin heim til Íslands í stutt stopp áður en við höldum út í hitann, svitann og íbúðarleitarstressið í New York. Ágústmánuður getur verið þrúgandi í borginni, hitinn er mikill og loftrakinn gerir það að verkum að líkaminn nær ekki að kæla sig sem skyldi. Ég er bæði spennt og afskapleg smeyk við að fara út að leita að íbúð þar sem ég fór næstum því að gráta eitt kvöldið í lestinni þegar við vorum í slíkum tilfæringum síðast. Það er nefnilega enginn skortur á ógeðslegum íbúðum á Manhattan á uppsprengdu verði. Enda erum við staðráðin í að fara yfir East River og setjast að í Brooklyn.
En áður en við förum út þá verðum við á Íslandi í tæpar tvær vikur, bæði norður í Eyjafirði og í höfuðborginni. Ég er einstaklega sátt við að vera komin úr matvörukrísunni í Björgvin og í þéttpakkaðan ísskáp foreldra minna. Við ákváðum að búa til heimalagaðar pítsur í gærkvöldi og fórum beint í að skera niður álegg, hnoða saman deig og sjóða sósu.
Við Elmar höfum verið ansi iðin við að búa til pítsur heima í New York enda eru þær mun betri en þær pítsur sem keyptar eru frá sveittum alþjóðaveitingakeðjum og ég held að við þurfum ekki einu sinni að bera þær saman við djúpfrystar pítsur. Deigið okkar þarf ekki að lyfta sér og má baka strax í heitum ofni til að gera stökkan og þunnan pítsubotn. Hér að neðan er líka uppskrift að uppáhaldspítsusósu okkar og ég gef nokkrar tillögur að ljúffengum áleggsblöndum.
Heimalöguð pítsa
Deig:
- 2 dl heilhveiti
- 1 dl mjólk
- 1 tsk lyftiduft
- 1 msk olía
- 1 msk chiliflögur
- 1 tsk salt
Aðferð:
Blandið þurrefnum vel saman. Bætið olíu og mjólk saman við og þegar deigið þéttist farið að hnoða. Ef deigið er of blautt, bætið þá meira hveiti saman við. Hnoðið í kúlu og fletjið síðan út. Setjið í 200°C heitan ofn og forbakið í ca. 5 mínútur. Smyrjið pítsusósu og raðið áleggi á pítsuna og bakið í ofni við 275°C þar til osturinn tekur á sig gylltan blæ.
Gerir 1 pítsubotn
Pítsusósa:
- 1 msk ólívuolía
- 1 laukur, grófsaxaður
- 2 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
- 1 dós niðursoðnir tómatar
- 1 msk tómatþykkni
- 1 tsk basilíka
- 1 tsk óreganó
- 1/4 tsk – 1 tsk chiliflögur*
- 1 msk sykri
- Salt og pipar
[*Upphaflega var þetta 1 tsk chiliflögur en eftir ábendingu frá lesanda hef ég breytt magninu. Það er gott að byrja með 1/4 tsk og bæta við chiliflögum eftir smekk síðar meir.]
Aðferð:
Hitið laukinn í olíunni þar til hann mýkist og verður glær. Bætið hvítlauknum út í og steikið í ca. 2 mínútur.
Merjið tómatana og blandið þeim saman við laukinn ásamt tómatþykkninu. Kryddið með óreganó, basilíku, chiliflögum, sykri og salti og pipar.
Látið sjóða við vægan hita í opnum potti í 10 til 15 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað.
[Á þessu stigi má taka pottinn af hitanum og mauka með töfrasprota.]
Kælið sósuna og smyrjið svo á pítsubotninn.
Gerir sósu á 2 pítsubotna
Tillögur að áleggi:
Okkur finnst gott að setja klettasalat ofan á pítsusneiðar til að gefa þeim meiri karakter og ferskara bragð.
Ítölsk pítsa:
- Parmaskinka
- Tómatar
- Ferskur mozzarellaostur
- Fersk basilíkulauf
Humarpítsa:
- Humarhalar veltir upp úr tómatpestó og steiktir á pönnu með smjöri og mörðu hvítlauksrifi
- Ferskur mozzarellaostur
- Fersk basilíkulauf
Pepperónípítsa:
- Pepperóní
- Svartar ólívur
- Jalapeno
- Steiktir sveppir
- Tómatsneiðar
- Rjómaostur
Þessi pítsa var sérstaklega jömmí.
hvar finnur maður chiliflögur ? er þetta krydd í boxi eða í stauki ?
Þetta er selt í staukum hérna í BNA og eru litlar rauðar flögur.
Hérna er mynd: http://www.amazon.com/Frontier-Peppers-Crushed-Certified-Organic/dp/B001VNKZCS
Ég gerði pitsusósuna á föstudag og ómælord hún var svo hrikalega sterk, sem betur fer smakkaði ég hana áður en henni var skellt á pitsuna haha. Hvað ætli ég hafi gert vitlaust, geta chiliflögur verið mismunandi eftir framleiðendum..eða s.s. missterkar ?
Gat samt notað sósuna, tók helming í burtu og blandaði pastasósu við, rjóma, sýrðum og grísku..þetta sterka ætlaði aldrei að fara haha. Skellti svo bara kjötbollum með, spaghetti og osti.
Æj en hvað mér finnst leiðinlegt að heyra það! Ég veit ekki alveg hvort að chiliflögur séu missterkar eftir framleiðendum. Ég er sjálf pínu viðkvæm fyrir sterkum mat og hef ekki átt í vandræðum með sósuna eftir að það er búið að smyrja henni á pítsuna.
Ég er samt fegin að heyra að þú gast nýtt þér sósuna. Ég ætla aðeins að breyta uppskriftinni hérna uppi og mæla með 1/4 tsk – 1 tsk, eftir smekk svo aðrir geti forðast það að lenda í þessum vandræðum.
Takk fyrir að láta mig vita :)