Heimalöguð pítsa
Við erum komin heim til Íslands í stutt stopp áður en við höldum út í hitann, svitann og íbúðarleitarstressið í New York. Ágústmánuður getur verið þrúgandi í borginni, hitinn er mikill og loftrakinn gerir það að verkum að líkaminn nær ekki að kæla sig sem skyldi. Ég er bæði spennt og afskapleg smeyk við að fara út að leita að íbúð þar sem ég fór næstum því að gráta eitt kvöldið í lestinni þegar við vorum í slíkum tilfæringum síðast. Það er nefnilega enginn skortur á ógeðslegum íbúðum á Manhattan á uppsprengdu verði. Enda erum við staðráðin í að fara yfir East River og setjast að í Brooklyn.
En áður en við förum út þá verðum við á Íslandi í tæpar tvær vikur, bæði norður í Eyjafirði og í höfuðborginni. Ég er einstaklega sátt við að vera komin úr matvörukrísunni í Björgvin og í þéttpakkaðan ísskáp foreldra minna. Við ákváðum að búa til heimalagaðar pítsur í gærkvöldi og fórum beint í að skera niður álegg, hnoða saman deig og sjóða sósu.
Við Elmar höfum verið ansi iðin við að búa til pítsur heima í New York enda eru þær mun betri en þær pítsur sem keyptar eru frá sveittum alþjóðaveitingakeðjum og ég held að við þurfum ekki einu sinni að bera þær saman við djúpfrystar pítsur. Deigið okkar þarf ekki að lyfta sér og má baka strax í heitum ofni til að gera stökkan og þunnan pítsubotn. Hér að neðan er líka uppskrift að uppáhaldspítsusósu okkar og ég gef nokkrar tillögur að ljúffengum áleggsblöndum.