Skip to content

Kanilsnúðar: Taka 2

Ég hef tekið þetta fram áður en ég held að ég vilji segja það aftur. Þetta blogg er ekki heilsufæðisblogg. Alls ekki. Ég ætla ekki einu sinni að reyna við slíkt þema – ég elska smjör, sykur og salt alltof mikið til þess að leggja slíkt á mig. Og þessir kanilsnúðar setja punktinn yfir i-ið í þeim efnum.

Ég vissi að ég þyrfti að eyða deginum í dag inni að skrifa og gæti þess vegna ekki verið úti í vorsólinni að dandalast. Ég ákvað því að grípa tækifærið og prófa nýja kanilsnúðauppskrift. Ég hef áður skrifað um kanilsnúða hérna og þó að þeir hafi verið bragðgóðir þá var ég alls ekki nógu ánægð með þá. Pioneer woman fullyrðir að hennar uppskrift sé besta kanilsnúðauppskrift í heiminum. Og hvernig stenst maður það? Ég bara spyr.

Það var því kærkomið að undirbúa og baka snúða meðan ég þurfti að sitja niðurnegld við tölvuna þess á milli. Deigið þarf nefnilega að hvílast og hefast tvisvar sinnum (já ég veit, en það er þess virði!) og svo þurfa þeir að vera í ofninum í rúmt korter. Þetta heppnaðist mjög vel, sérstaklega þar sem ég stóð ekki óþolinmóð yfir deiginu og hreyfði ekki við vísunum á skeiðklukkunni og útkoman var þessir lungamjúku fallegu kanilsnúðar. Ég býst ekki við að nota aðra uppskrift upp úr þessu.

Kanilsnúðar landnemans

(Aðeins breytt uppskrift frá The Pioneer Woman)

  • 500 ml mjólk
  • 120 ml grænmetisolía
  • 100 g sykur
  • 7 g þurrger
  • 500 g (og 100 g auka) hveiti
  • 1/2 tsk, rúm, lyftiduft
  • 1/2 tsk, tæp, matarsódi
  • 1/2 msk salt
  • 100 g smjör, bráðið
  • 150 g sykur
  • Kanilduft

Aðferð:

Takið fram stóran pott. Blandið saman mjólkinni, olíunni og 100 g af sykri í pottinum og hitið á meðalháum hita þar til rétt áður en suðan kemur upp. Slökkvið undir pottinum og leyfið blöndunni að kólna í ca. 45 mínútur.

Þegar mjólkurblandan er orðin volg (alls ekki heit), hellið gerinu út í og leyfið að liggja þar óhreyft í ca. 2 mínútur. Blandið síðan 500 g af hveitinu vel saman við og leyfið dieignu að hefast í a.m.k. 1 klukkustund.

Eftir klukkustund ætti deigið að hafa stækkað um að minnsta kosti helming. Bætið restinni af hveitinu saman við ásamt lyftiduftinu, matarsódanum og saltinu. Blandið öllu vel saman.

(Á þessu stigi má hylja deigið og geyma í ísskáp í allt að 2 daga. Passið bara að berja það niður ef það ætlar að flæða út úr ílátinu.)

Sáldrið hveiti yfir borðflöt, takið helminginn af deiginu og mótið í eins reglulegan ferhyrning og hægt er. Fletjið út með kökukefli og reynið að halda deiginu í ferhyrningslaginu. Hellið því næst smjörinu yfir deigið og dreifið úr því með bursta. Sáldrið sykri og kanil yfir deigið. Byrjið síðan að rúlla deiginu upp í átt að ykkur eins reglulega og þétt og hægt er. Ekki hafa áhyggjur ef smjör og sykur læðist framhjá. Klípað saman endann við rúlluna til að festa deigið. Skerið því næst rúlluna í 2 cm langa bita og raðið með góðu millibili (snúðarnir eiga eftir að stækka mikið) í smurt hringlaga kökuform. Endurtakið með seinni helminginn af deiginu. Leyfið snúðunum að hefast í 30 mínútur áður en þeim er stungið inn í ofninn.

Hitið ofninn í 200°C. Stingið snúðunum inn og bakið í 15 til 18 mínútur eða þangað til að snúðarnir hafa tekið á sig fallegan gylltan lit.

Prenta uppskrift

28 athugasemdir Post a comment
  1. Inga Þórey #

    Vá ég hlakka til að dunda mér við þessa þegar íbúðin er komin í gott horf :-)

    13/03/2011
  2. Sóla #

    Jomm! Snillingur sem þú ert alla daga Nanna mín :)
    ** uppáhaldsbloggið mitt **

    13/03/2011
    • Takk elsku Sóla mín! Það er mjög gaman að heyra -sérstaklega frá blogg- og matarsnillingnum sem þú ert :)

      13/03/2011
  3. Embla #

    It finally happened!!

    13/03/2011
  4. Helga Guðrún Óskarsdóttir #

    Namm namm, Inga þú verður að bjóða mér í svona kanilsnúða þegar þú býrð þá til!

    13/03/2011
  5. Auður #

    Vá Nanna! Ég hugsaði um leið og ég sá myndina: „ég ætla að baka svona á morgun og ííík ég á svona form – success!“ en fór svo að lesa og lesa meira … hefast þrisvar … e-ð með pott og suðu og kólna í 45 mínútur?! Are ya kiddin’?

    Sé til á morgun ;) Ofur mega sega hvað þú ert nennin yndið mitt :*

    13/03/2011
    • Haha. Já þetta er dútl enda er ástæða fyrir því að þessir snúðar eru ekkert eðlilega mjúkir ;) En ef þú ert einhvern tímann bara að dundast heima í engu stressi þá mæli ég með þessu. Þetta er ekki mikil vinna bara langur biðtími á milli þrepa. Do it! Do it! Do it!

      13/03/2011
  6. Inga Þórey #

    Mjög einfaldir og geðsjúkt æðislega silkimjúkir og yndislegir! :-) Rosa vinnusparnaður að þurfa ekki að vera að hnoða neitt deig, er bara búin að vera með þetta svona í gangi í dag í rólegheitum – mjög lítil vinna með löngum tímabilum inni á milli þar sem við famelían höfum bara verið í okkar venjulega stússi

    20/03/2011
    • Ég held að þetta sé það besta sem ég hef nokkurn tímann bakað! Þeir bara klikka ekki.

      20/03/2011
  7. Sylvia #

    Sæl Nanna,

    Mig langar til að vita hversu marga snúða færð þú úr einni uppskrift? Er að fara að baka fyrir afmæli.
    Einnig varðandi ofninn, ég er ekki með blástursofn en ég var að spá hvort að ég gæti ekki bara sett ofninn á 180 í staðinn?

    Með fyrir fram þökk
    Sylvia

    08/04/2011
  8. Sæl Sylvia,

    Ég fékk svona 25 snúða úr þessari uppskrift. Passaðu að hafa gott pláss á milli snúðanna áður en þú setur þá í ofninn því þeir stækka mjög mikið.

    Ég er sjálf ekki með blástursofn og þær hitastillingar sem ég hef sett í uppskriftina virkuðu bara ljómandi vel hjá mér.

    Vonandi gengur þetta vel hjá þér!

    08/04/2011
  9. Helena #

    Sæl og takk fyrir frábært blogg!

    Var að spá með snúðana. Eftir að matarsódinn og auka hveitið er blandað saman við á þá ekki að láta hefast aftur? Eða bara blanda saman og fara beint í að fletja út?… Eru þá ekki bara tvær hefingar.. Sú fyrsta áður en auka hveitið fer útí og svo aftur eftir að snúðarnir hafa verið mótaðir og settir á plötu?..
    Úff langt komment og miklar pælingar :)

    06/10/2011
    • Sæl Helena.

      Takk fyrir ábendinguna um misræmi í textanum og uppskriftinni! Ég hef óvart talið með biðina á mjólkinni. Þannig að ég skil vel að þetta sé ruglandi og ég ætla að laga textann.

      Þannig að þú mátt fletja út strax eftir að matarsódanum er bætt saman við og svo þurfa snúðarnir að fara í seinni hefingu áður en þeir fara inn í ofninn.

      Afsakaðu misskilninginn og ég vona að þú prófir þessa snúða. Þeir eru ævintýralega góðir!

      06/10/2011
      • Helena #

        Takk og já! ætla að baka þá á morgun fyrir barnaafmæli! :)

        06/10/2011
  10. Hæ Nanna! Vá hvað ég var fegin að sjá þessa uppskrift frá The Pioneer Woman hjá þér, því ég var að reyna að stauta mig út úr langa blogginu hennar og öllum mælieiningunum og öllu og var við það að gefast upp. Ég er með eina spurningu, hvernig olíu getur maður notað? Sólblóma? Ólífu?

    Ætla að prófa þessa fyrir barnaafmæli á morgun. Haldast þeir ekki örugglega mjúkir í einn dag?

    Takk fyrir frábæra bloggið þitt :)

    31/10/2011
    • Sæl Ásdís. Ég held að sólblómaolía sé betri í þetta en ólífuolían. Ég notaði canolaolíu (sem er unnin úr blómakjörnum) og hugsa að hún sé mjög svipuð sólblómaolíunni.

      Snúðarnir haldast alveg mjúkir í einn dag. Þú getur líka geymt þá í ofni á lægstu stillingu til að halda þeim hlýjum.

      Takk fyrir að lesa!

      31/10/2011
  11. Kristín Helga #

    Við erum með seinustu plötuna af þessum í ofninum á Dalvík núna, dásamlegir. Settum í þá súkkulaði, rifið marsípan og möndluflögur í tilefni jólanna – til viðbótar við kanilinn. Feykifínt.

    19/12/2011
    • Þið eruð nú meiri snillingarnir! Við erum mikið farin að hlakka til að sjá ykkur í janúar :)

      19/12/2011
  12. Ása #

    Veistu hvað þetta tekur ca. langan tíma, frá byrjun og þangað til að þeir koma úr ofninum?

    10/05/2012
    • Nú er svolítið langt síðan ég bjó þá til síðast. En ég myndi giska að þetta tekur ca. 4 tíma frá byrjun til enda. Þú getur búið til deigið deginum áður og sett það inn í ísskáp eftir fyrri hefinguna og búið til snúðana næsta dag. Þá tekur fyrri dagurinn 2 tíma og seinni dagurinn ca. 2 tíma líka.

      Aðaltíminn fer í að bíða eftir að mjólkurblandan kólni og að deigið fái að hefast í þessi tvö skipti. Tími sem þá er hægt að nýta í eitthvað annað sniðugt :)

      10/05/2012
      • Ása #

        Takk kærlega! Þeir heppnuðust afar vel og voru vel þess virði

        10/05/2012
  13. Erla Hrönn #

    Hlakka til að þú komir heim og ég komi heim og við bökum saman! þetta verður það fyrsta sem við gerum..

    10/05/2012
  14. Særún Ósk #

    Jedúddamía. Var að taka þessa út úr ofninum og þeir eru guðdómlegir. Hef sjaldan bakað kanilsnúða en þessir eru fullkomnir.

    19/05/2012
    • Vei! Það gleður mig að heyra :)

      19/05/2012
  15. Ásdís #

    Þessir voru snilld! Fullkomnir snúðar! Takk fyrir mig!

    21/04/2013

Trackbacks & Pingbacks

  1. Smákökur með höfrum og súkkulaðibitum « Eldað í vesturheimi
  2. Ferilmappan og eldhúsið « Skranka

Færðu inn athugasemd við Nanna Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: