Skip to content

Brownies með súkkulaði,fudge’ kremi

Það er búið að fara mjög vel um okkur í Stóra Eplinu síðustu vikuna. Elmar er búinn að vera mjög upptekinn við nám og kennslu og ég reyni mitt besta að vera dugleg í þeim verkefnum sem ég hef ákveðið að klára. Við höfum líka farið mikið út á meðal fólks síðustu daga. Við kynntumst íslenskum hjónum sem eru nýflutt til borgarinnar og búa hinum megin við Miklagarð og við fórum í partí til Ayeshu vinkonu minnar. Partý hjá henni eru alltaf áhugaverð og þá sérstaklega það fólk sem maður hittir hjá henni. Þar sem hún vinnur sjálf í banka þá er mikið af vinum hennar og kunningjum einnig í fjármálabransanum og töluvert ólíkt því fólki sem við höfum kannski verið að umgangast. Sem dæmi, þá vorum við Elmar mætt ágætlega snemma í partíið og hittum fyrir bandarísk hjón sem eru aðeins eldri en við. Elmar talaði við manninn og þegar hann sagðist vera frá Íslandi þá fór maðurinn að segja honum að hann vissi nú lítið um Ísland en honum hafi verið boðið í ‘bachelor party’ í Reykjavík hjá félaga sínum. Þá flaug tilvonandi brúðgumi til Reykjavíkur ásamt tíu nánustu vinum sínum, sem væri nú kannski ekki nein nýlunda nema þeir keyptu flugmiða fyrir sirka þrjátíu kvensur sem flugu að frá mismunandi stöðum í Evrópu til að skemmta köppunum. Á meðan lýsti konan hans, nýbúin að eignast barn, fyrir mér hvað umhugsun ungabarns væri ,unrewarding’ reynsla og að hún gæti ekki beðið eftir að geta ráðið barnfóstru og komist aftur á skrifstofuna svo hún gæti umgengist ,alvöru’ fólk. Þetta fannst mér mjög skemmtilegt og kostulegt allt saman.

Annars er vinafólk okkar að koma til okkar í kvöld frá Íslandi. Þar sem vinkona mín á afmæli á morgun ákvað ég að ég yrði nú að baka handa henni afmælisköku. Næsta ákvörðun mín var að baka eitthvað amerískt og því varð brownieskaka fyrir valinu. En svo fór allt að ganga á afturfótunum eins og svo oft vill gerast þegar ég vil virkilega að eitthvað heppnist sérstaklega vel. Kakan var mjög ljót (sem er kannski ekkert svo skrítið því brownies eru alltaf ljótar – ef einhver getur búið til fallegar og bragðgóðar brownies þá vil ég ekki þekkja viðkomandi), hún liðaðist í sundur og var bara svona almennt til háborinnar skammar. Ég ákvað þess vegna að búa til súkkulaðikrem svo ég gæti nú falið ósköpin og spaslað í gjárnar. Súkkulaðikremið er svosum voðalega bragðgott og ég ákvað að skreyta kökudrusluna með hindberjum. En hindberin líta eiginlega bara út eins og vanskapaðir fjallstindar og ég er ekki alveg sannfærð um að þau fegri kökuna.

Af hverju fær þessi uppskrift að fara inn á vefsíðuna? Af því að þetta er samt gott á bragðið og ég elska þessa brownie uppskrift. Ef að ég á alltaf að sleppa því sem mér finnst ég hafa klúðrað þá myndi ég bara setja inn eina til tvær færslur á mánuði og þá væri enginn ánægður, ræt?

Brownies

 • 120 g ósaltað smjör
 • 120 g súkkulaði
 • 4 stór egg
 • 1/4 tsk salt
 • 4 dl sykur
 • 1 tsk vanilludropar
 • 230 g hveiti

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C

Bræðið súkkulaði og smjör saman, setjið svo til hliðar og leyfið blöndunni að kólna vel.

Þeytið saman eggjum og salti þangað til blandan verður ljós á litinn og freyðandi.

Bætið sykri og vanillu út í smám saman og þeytið þangað til blandan verður þykk.

Með fáum snöggum handtökum blandið súkkulaðiblöndunni saman við þangað til það hefur sameinast eggjablöndunni. Ekki blanda of vel saman samt og notið sleif frekar en þeytara á þessu stigi. Kakan kemur ekki eins vel út ef deigið hefur verið þeytt of mikið.

Hrærið svo hveitinu saman við (aftur, ekki með þeytara) þangað til það hefur rétt svo blandast saman við.

Bakið í 25-30 mínútur.*

*Þetta er samt mjög misjafnt eftir ofnum og það er mjög auðvelt að baka brownies of mikið eða of lítið. Fylgist vel með kökunni og notið tannstöngul til að athuga hvort hún sé tilbúin

Súkkulaði,fudge’krem.

 • 120 g súkkulaði, gróflega saxað
 • 150 g ósaltað smjör, við stofuhita
 • 160 g flórsykur
 • 1 1/2 tsk vanilludropar

Aðferð:

Bræðið súkkulaðið, setjið til hliðar og leyfið að kólna.

Þreytið smjörið þangað til það verður mjúkt og rjómakennt. Bætið sykrinum við og þeytið þangað til blandan verður mjúk og léttkennd. Þeytið vanilludropunum saman við. Bætið súkkulaðinu saman við og þeytið fyrst á lágum krafti í eina mínútu og hækkið svo kraftinn og haldið áfram að þeyta þangað til blandan er orðin gljáandi og slétt.

Passið bara að þekja kökuna með kreminu eftir að hún er búin að fá að kólna, annars bráðnar kremið.

8 athugasemdir Post a comment
 1. Emmi #

  JIBBÍ!

  16/09/2010
 2. Embla #

  Ef ég hafði ekki stigið á vigtina í morgun þá mundi ég prófa þessa.

  17/09/2010
 3. Embla #

  Og mundu að þú ert að fá annað afmælisbarn til þín í næstu viku :D

  17/09/2010
 4. Inga Þórey #

  Jibbí! Hún lítur út fyrir að vera kreisí bragðgóð og ef ég þekki afmælisbarnið rétt þá veit ég að hún kann vel að meta svona djúsí sukk :-D
  Hún lofaði að knúsa þig vel og lengi frá mér…þú rukkar hana bara um það ef það er ekki komið ;-)
  Ég vona að þið eigið góðar stundir saman!
  Kiss kiss og knús úr Lögbergi

  17/09/2010
 5. Your Aunt Þora #

  Takk fyrir yndislega sögu ur partii!

  17/09/2010
 6. Atli #

  Jahá.
  Nú vill svo skemmtilega til að ég er einmitt að gæða mér á þessari köku (og mojito) og hún er einkar bragðgóð. Hún er sérstaklega góð með sítrónuísnum sem bregður fyrir á myndinni.

  17/09/2010
 7. Inga Þórey #

  ég er bara pínku ponsu öfundsjúk sko :-S en skemmtið ykkur vel saman!

  18/09/2010
 8. Auður #

  ‘Unrewarding’ – hmmm. Heppið barn. Sýra.

  Ég var einmitt að baka brownies um daginn … úr pakka en svo bjó ég til karmellukrem á hana from scratch (hóst)! Eðalgott.

  19/09/2010

Færðu inn athugasemd við Inga Þórey Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: