Torta di Pere [Perukaka með dökku súkkulaði]
Ég er greinilega sólgin í ítalskan mat þessa dagana. Í þessari viku hef ég borðað pasta, lasagna, heimalagaða pítsu og ó-svo-margar sneiðar af þessari ljúffengu köku. Ég hef líka verið að sötra ítalska drykkinn Negroni – blanda af gini, sætum vermút og Campari – einstaka kvöld eftir að hafa svæft Þórdísi. Þetta er í fyrsta skipti sem ég reyni að drekka Negroni en ég hef alltaf fúlsað við Campari. Líklega sökum þess að ég stalst einhvern tímann sem unglingur til að taka gúlsopa úr flösku sem foreldrar mínir áttu og fannst það ó-geð-slegt. Ég er enn ekki búin að ákveða hvort mér finnist drykkurinn góður eða bara hræðilega vondur. Þessi kaka hinsvegar er ekkert annað en ljómandi góð.
Inga Þórey vinkona mín hefur oft og mörgum sinnum hvatt mig til að baka þessa köku og þar sem Inga hefur aldrei leitt mig í ranga matarátt þá er í raun skammarlegt hversu lengi ég hef beðið með að baka hana. Kakan inniheldur fá hráefni og það þarf aðeins að nostra við þau. Útkoman er ein albesta kaka sem ég hef bakað. Loftið í þeyttu eggjunum og heil matskeið af lyftidufti gerir það að verkum að kakan er létt í sér og lyftir sér yfir perurnar og súkkulaðið þannig að þau sökkva ekki öll til botns. Ef þið hafið aldrei brúnað smjör áður þá má finna góðar leiðbeiningar hjá Lillie (hún notar reyndar pönnu við að brúna smjör en ég nota alltaf pott). Uppskriftin kemur frá einum af rótgrónustu veitingastöðunum í Brooklyn, Al di là.
Torta di Pere
(Uppskrift frá Smitten Kitchen sem fékk það frá Al di là trattoria)
- 1 bolli [125 g] hveiti
- 1 msk lyftiduft
- 1/4 tsk salt
- 115 g smjör, ósaltað
- 3 egg, við stofuhita
- 3/4 bolli [170 g] sykur
- 3 perur, skrældar og kjarnhreinsaðar, skornar í litla bita (ég myndi nota mjúkar þroskaðar perur)
- 3/4 bolli [1.8 dl] dökkt súkkulaði, gróft saxað (ég notaði 70% súkkulaðidropa en ég mæli með því að kaupa frekar stykki og saxa það)
Aðferð:
Hitið ofninn í 180°C/350°F, stillið grindina fyrir miðjan ofn. Smyrjið 9″ (23 sm) smelluform, stráið hveiti ofan í það og bankið í botninn til að losa um lausa hveitið. Setjið til hliðar.
Sigtið hveiti, lyftiduft og salt ofan í skál og hrærið til að blanda. Setjið til hliðar.
Setjið smjörið ofan í meðalstóran pott og hitið yfir meðalháum hita. Eldið þar til smjörið brúnast og gefur frá sér hnetukennda lykt. Það er gott að skafa botninn og hliðarnar með hitaþolinni sleikju (eða öðru áhaldi) til að það brúnist jafnt. Ferlið tekur ca. 6 til 8 mínútur en passið þó að smjörið brenni ekki við. Takið af hitanum og setjið til hliðar. Ekki setja það á kaldan stað.
Setjið eggin í skálina á hrærivélinni ykkar. Þeytið á mesta hraða þar til blandan verður ljós og þykk. (Þetta tekur ca. 9 mínútur þannig að þolinmæði er af hinu góða.)
Setjið sykurinn út í eggjablönduna og haldið áfram að þeyta á mesta hraða í nokkrar mínútur.
Fylgist með eggjablöndunni. Þegar blandan virðist vera að minnka í rúmmáli skulið þið lækka hraðan niður í hægustu stillinguna. Bætið 1/3 af hveitblöndunni saman við, síðan helmingnum af smjörinu, síðan 1/3 af hveitiblöndunni, restinni af smjörinu og síðan síðasta þriðjungnum af hveitinu. Passið af ofhræra ekki deigið, ekki hræra í meira en mínútu frá því að fyrsti hluti hveitiblöndunnar fer út í skálina. Stoppið vélina og klárið að blanda öllu varlega saman með sleikju.
Hellið deiginu í smurða smelluformið. Sáldrið perubitunum og súkkulaðinu yfir deigið. Bakið í miðjum ofni þar til kakan er gullinbrún að lit og búin að bakast í gegn, ca. 40 – 50 mínútur (fylgist samt með frá 30 mínútum).
Leyfið að kólna aðeins á grind áður en kakan er leyst úr forminu.
Berið fram með þeyttum rjóma eða ís.
Pant fá svona þegar ég kem í heimsókn
Komið á matseðilinn :)
Vá hvað kakan er falleg og myndirnar og allt saman :)
wow! how beautiful. love it all.
Vá hvað þessi er girnileg! Ekkert smá fallegar myndirnar þínar :)
Hljómar svo vel, fer á to do listann og já vááá, stórglæsielgar myndir!
Er mjög nauðsynlegt að brúna smjörið ? Tekur svo mikinn tíma :) hefur þetta mikil áhrif á bragðið ?
Þú getur sleppt því og brætt smjörið bara í staðinn. Mér finnst bragðið sem kemur af brúnuðu smjöri svo rosalega gott að ég myndi ekki vilja sleppa því sjálf – það kemur sérstakur hnetukeimur. En kakan ætti samt að verða góð þó þú bræðir það bara :)
Þú getur líka dundað þér við að brúna smjörið á meðan eggin þeytast því það tekur svo langan tíma. Helltu svo bara brúnaða smjörinu strax í skál til að leyfa því að kólna aðeins hraðar.
Bakaði þessa köku í gær til að hafa með síðdegiskaffinu, mjög góð kaka. Perurnar og súkkulaðið sukku meira hjá mér en þér. Ég bakaði kökuna í rúmar 50 mín. Við á þessu heimili mælum með þessari köku.